Píratar
Píratar

Pistlar

Hvað gera útgerðarmenn þá?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
fimmtudaginn 15. júlí 2021 kl. 08:18

Hvað gera útgerðarmenn þá?

Um þetta leyti fyrir nokkrum árum var makríllinn byrjaður að veiðast í ansi miklu mæli á handfæri. Höfnin í Keflavík fékk ansi stóran skerf af því enda var óhemju magn af makríl sem veiddist í henni sjálfri.

Árið 2020 var svo til engum makríl landað sem veiddur var á færi, þrátt fyrir að nokkrir útgerðarmenn lögðu í kostnað við að útbúa bátanna sína til þannig veiða. Núna árið 2021 er enginn bátur útbúinn til makrílveiða enda ólíklegt að makríllinn komi hérna við landið eins og hann gerði.

Viðreisn
Viðreisn

Stóru uppsjávarskipin eru byrjuð að veiða makrílinn en hann er ennþá mjög langt úti í hafi og fjarri íslenskri fiskveiðilögsögu, skipin hafa verið að fara alla leið norður í síldarsmuguna í Barentshafi til þess að veiða hann – og það segir sig þá sjálft að ef makrílinn er svona rosalega langt í burtu þá er hann ekkert á leið til Keflavíkur.

Hvað gera útgerðarmenn þá? Jú, eins og staðan er núna þá eru þeir bátar sem voru útbúnir á veiðar á makríl á handfæraveiðum, þá annað hvort á strandveiðunum eða að eltast við ufsann.

Í veiðum á ufsanum þá er það kóngurinn Robbi á Ragnari Alfreðs GK sem ræður þar ríkjum og hefur hann landað í sumar um 32 tonnum í fimmtán róðrum og mest 7,7 tonnum í einni löndun. Fyrirtækið sem á Ragnar Alfreðs GK heitir Háeyri og á það líka annan bát sem hefur einnig verið notaður til veiða á ufsanum, það er Margrét SU sem er einn af örfáum eikarbátum sem eru gerðir út hérna við Ísland.

Margrét SU er búinn að landa 21 tonni í sjö róðrum og mest 4,6 tonnum í einni löndun – en hvaða bátur er þetta? Jú, Margrét SU var smíðaður á Seyðisfirði árið 1971, hann hét fyrst Sæþór SU 175 og var gerður út frá Eskifirði. Reyndar var báturinn gerður út frá Eskifirði í 23 ár, eða til ársins 1994 þegar að hann var seldur til Hornafjarðar. Hann hélt sama nafni en varð Sæþór SF 244.

Árið 2000 var báturinn seldur til Dalvíkur og fékk þá nafnið Búi EA 100, var með því nafni til ársins 2007 þegar báturinn var seldur til Húsavíkur og fékk þá nafnið Gói ÞH 25. Hann kom aftur til Dalvíkur árið 2009 og hét þá Viktor EA 71, árið 2011 þá fékk báturinn nafnið Margrét en hefur verið skráður GK, KÓ og SU.

Ekki er hægt að segja að báturinn hafi verið mikið til veiða á þessari öld því það hafa komið ár þar sem að báturinn hefur engum afla landað, t.d. réri báturinn ekkert allt árið 2004 fyrr enn í nóvember.

Það er nokkuð merkilegt að skoða báða bátana sem Háeyri á því báðir eru frekar gamlir. Margrét SU er 50 ára gamall bátur og Ragnar Alfreðs GK er 43 ára, smíðaður á Skagaströnd árið 1978. Tveir gamlir en góðir bátar sem hafa samanlagt borið ansi mikinn afla í land og meira segja Ragnar Alfreðs GK hét á sínum tíma Sandvík SK og var þá meðal annars líka á rækjuveiðum í Skagafirðinum.