Pistlar

Hundalíf í París
Föstudagur 10. júní 2022 kl. 06:39

Hundalíf í París

Eins og vart hefur farið framhjá dyggum lokaorðalesendum flutti sú sem heldur hér á penna með fjölskyldunni til Parísar fyrir nokkrum mánuðum. Þetta hefur verið algjör draumadvöl og njótum við lífsins í hvívetna, sérstaklega nú þegar yndislegt sumarið hefur tekið við af dásamlega vorinu. En það tekur líka á að flytja og mikil viðbrigði að byrja í nýjum skóla, nýrri vinnu, venjast nýjum siðum og umhverfi. Ekki síst þegar viðkomandi er hundur.

Lubbalífið hefur tekið miklum breytingum. Í stað þess að taka daglega sinn venjulega göngutúr í allskonar veðrum um fallegu strandleiðina í Keflavík, labbar hann nú um götur Parísarborgar, í skógum og fallegum lystigörðum, líka reyndar í allskonar veðrum. Það eru reyndar færri lægðir, enginn snjór og minna rok en þeim mun meiri hiti og raki. Ég er ekki frá því að Lubbi sakni hressilegu lægðanna akkúrat núna þessa dagana þegar hitinn fer ekki undir tuttugu stig og togast jafnvel undir þrjátíu gráðurnar suma daga. Það er erfitt að vera hundur frá Íslandi í svona hita, brjálæðislega heitar gangstéttir og allt of lítið um skugga til að kæla sig í. Gönguferðirnar verða mjög hægar og stundum stoppar hann bara, horfir á mann biðjandi augum og biður mann vinsamlega (með því að neita að halda áfram) að hætta þessari vitleysu og fara heim. Strax.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En hundalífið er líka mjög spennandi hér í París. Það eru hundar úti um allt og margar sætar Parísartíkur til að skoða. Það eru reyndar ekki bara tíkurnar sem hann er spenntur fyrir, við komumst nefnilega að því að kærastan hans á hundasnyrtistofunni reyndist eftir allt saman vera karlkyns! En það er hið besta mál – við fögnum auðvitað bara fjölbreytileikanum.

Það sem er hins vegar það allra besta við hundalífið hér er að hér eru hundar velkomnir alls staðar. Þeir eru partur af samfélaginu, það er gert ráð fyrir þeim og eru bara vel uppaldir og alls ekkert til vandræða. Lubbi er orðinn mjög veraldarvanur, hann fer stilltur og prúður í metróið, í leigubíla, á veitingastaði (þar sem honum er alltaf boðið upp á vatn í fínum dalli) og er velkominn í velflestar verslanir. Við fórum til dæmis í eina allra fínustu verslun Parísar um daginn, Samaritaine, þar sem við áttum fyrirfram kannski ekkert endilega von á að honum yrði vel tekið. Þetta er ótrúlega falleg verslun á mörgum hæðum með hönnunarvörur, rándýra merkjavöru og kampavín af öllu tagi. Við spurðum við dyrnar og hann var heldur betur velkominn. Okkur var vísað rakleiðis á þjónustuborðið þar sem okkur var færð falleg svört taska til að setja hann í og þannig bárum við hann um verslunina eins og þann hefðarhund sem hann er orðinn! Þetta viðhorf til hunda er dásamlegt og við Íslendingar getum mikið lært af því.

Lubbi biður fyrir sérstaklega góðar kveðjur á strandleiðina!