Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Heimanámsþjálfun – orðarýni 1
Föstudagur 12. febrúar 2021 kl. 07:53

Heimanámsþjálfun – orðarýni 1

Í þriðja pistli mínum fjallaði ég um hugtakið námstækni sem nær yfir árangursríkar aðferðir í námi og í síðasta pistli fjallaði ég um heimalestrarþjálfun. Í næstu þremur pistlum ætla ég að fjalla um orðarýni, orðkennslu, sem er námstækniaðferð og hentar einstaklega vel með heimalestrarþjálfun. Forsögu málsins út frá minni þekkingu og reynslu, ásamt ávinningi þess að nota aðferðina.

Ég á sjálf ánægjulegar minningar af orðkennslu úr Grunnskóla Njarðvíkur, frá því ég var nemandi á miðstigi. Á bókasafni skólans var lessalur inn af bókasafninu. Hann var langur og mjór, tveir og tveir sátu saman við borðin. Yfir borðinu var lesljós og setið var í þungum stólum sem voru með mjúkri sessu og baki. Ekkert annað ljós var kveikt, aðeins lesljósið, og mér fannst alltaf svo notalegt að sitja þarna í hitanum af ljósinu. Við fengum bók sem heitir Orðaskyggnir-íslensk orðabók handa börnum og verkefnablöð tengd bókinni. Það voru starfsmenn bókasafnsins sem leiddu þessa vinnu, þær Hrefna og Erna. Yndislegar konur sem voru ákveðnar og samkvæmar sjálfum sér. Það skyldi ríkja algjör þögn á meðan á vinnunni stóð og þær fylgdu því fast eftir að ég ætti að ljúka ákveðnum verkefnum í tímanum. Í orðabókinni voru útskýringar á orðum og myndir tengdar orðunum. Á verkefnablöðunum voru ýmis verkefni sem reyndu á að fletta upp í orðabókinni og skrifa niður útskýringar á orðum. Upplifun mín var mögnuð. Ég man ennþá eftir tilfinningunni sem flæddi um mig þegar ég rakst á nýtt orð úr þessari orðaforðavinnu í öðru samhengi og fékk skilning á því sem ég las og/eða heyrði. Ég lærði og skildi að í gegnum lestur gæti ég bætt við þekkingu mína. Þó svo ég upplifði líka erfiðleika við lestur og skilning, þá vissi ég af eigin reynslu að það væri hægt að nota orðabók með myndum til þess að skilja orð. Ég átti það til að skoða Orðaskyggnir á bókasafninu þegar ég eltist en orðaforðinn varð flóknari til dæmis með samsettum orðum og ég fann þau ekki í Orðaskyggni. Ég hafði einhverja þekkingu á samsettum orðum en ekki nægilega góða á þessum árum til þess að átta mig á því hvað væri að gerast í orðaforðanum, flóknari orð, og notkun á annarri tegund af orðabók (það kom seinna). Á unglingastiginu lögðu kennarar mínir mikla áherslu á það að útskýra fyrir okkur nemendunum orð, hugtök og ýmis orðatiltæki. Íslenskukennarinn minn eyddi miklum tíma í útskýringar þegar við lásum í bókum og hann gerði þá kröfu til okkar að við myndum skrifa niður útskýringarnar, sem sagt að við myndum glósa. Ég er ekki viss um að hann hafi notað þetta orð, að glósa, en á þessum árum 1990–1993, vorum ég og ein besta vinkona mín mjög uppteknar af því að glósa. Ég lærði það í gegnum hana og að hluta til vill ég meina að það hafi verið tilkomið vegna þess að systir hennar var einu ári eldri en við og við höfðum aðgang að námsefninu hennar og gátum skrifað upp eftir því. Það flýtti fyrir okkur og við gátum skrifað upp ýmsar glósur sem nýttust okkur eftir hennar gömlu glósum. Ég hafði síðan einhverra hluta vegna mjög gaman af því að skrifa glósurnar upp aftur og bæta við mínum eigin glósum (mig grunar að það hafi hjálpað mér að skilja efnið betur). Í dönsku og ensku áttum við að glósa og heima fyrir var mamma mín mjög öflug í því að fletta upp orðum með mér og hjálpa mér þannig að skilja textana í dönsku og ensku. Í gegnum vinnuna við það að glósa lærði ég líka heilmörg íslensk orð. Ég veit að einn af styrkleikum mínum liggur í sjónminni mínu og ég á auðvelt með að leggja glósur á minnið, sem eru litakóðaðar og vel uppsettar. Ég átti því auðvelt með að leggja mínar eigin glósur á minnið og sækja upplýsingar úr þeim með því að fletta í gegnum þær í huganum í prófi. Í þessari vinnu felst meðal annars lausnin sem ég ræddi um í mínum fyrsta pistli; að endurskrifa með eigin orðum texta og/eða upplýsingar sem ekki skiljast við fyrsta lestur einmitt í þeim tilgangi að ná fram frekari skilningi á efninu, sífelld endurtekning á námslegum þáttum sem getur falist í því að skrifa þá upp aftur og/eða lesa endurtekið yfir þá.

Public deli
Public deli

Hvernig tengist þetta orðarýni og þeirri vinnu sem ég hef þróað síðar í aðstoð við heimanámsþjálfun? Jú, sjáið til. Eftir grunnskólann, þegar ég hóf nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þá fékk ég einfaldlega ótrúlega mikinn skell. Áherslan og krafan á/um sjálfstæð vinnubrögð varð svo mikil strax í upphafi að ég átti erfitt að fóta mig námslega. Námsefnið þyngdist, fögin urðu fleiri og krafan um dýpri skilning á efninu varð meiri. Kennsluhættirnir voru ólíkir því sem ég hafði vanist á grunnskólastiginu og nú kom í minn hlut að bera ábyrgð á lestrinum og finna útskýringar á orðum sjálf. Ég átti ótrúlega erfitt námslega í þessum aðstæðum. Ég eyddi miklum tíma í að lesa og skrifa upp mínar eigin glósur og í kjölfarið að lesa yfir þær. Ég fann að þessi vinna var tímafrek. Ég eyddi miklum tíma í námið heimafyrir þar sem ég náði ekki nægjanlegum skilningi á námsefninu með því eingöngu að lesa það og sitja kennslustundirnar. Því miður var árangurinn af þessari þrotlausu vinnu minni takmarkaður. Ég legg áherslu á að nota aðferðir sem virka og til þess að vita hvort aðferð virkar þá þarf að mæla árangur! Í námi er árangur mældur í einkunnum og ég var heppin að hafa náð prófunum á fyrstu önninni. Ég áttaði mig á því að eitthvað annað þyrfti að koma til svo ég næði betri tökum á lesefninu. Fór svo að ég ræddi við bókasafnsfræðinginn á bókasafni FS og hún sýndi mér „alvöru orðabækur“! Ég fór að læra meira á bókasafninu og notfæra mér orðabækur og alfræðirit, sem útskýrðu orð og hugtök. Sú vinna varð gríðarlega mikilvæg fyrir mig og létti undir með lestrinum. Ég öðlaðist betri skilning á einstaka orðum sem gáfu mér aukinn skilning í samhengi textanna sem ég var að lesa. Með þessu létti á endurteknum lestri og ég gat nýtt mér betur glósutæknina sem ég hafði komið mér upp. Námið varð ekki eins þungt og með auknum skilningi kom þekking, reynsla og upplifun sem nýttist mér til góða í náminu í framhaldinu.

Þessa „hugmyndafræði“ og þá tækni sem í boði var árið 2008, þegar ég byrjaði að kenna, nýtti ég í þeim tilgangi að aðstoða lesblinda nemendur í lestri og ritun – með heimanámsþjálfun.

Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.