Optical studio
Optical studio

Pistlar

Hamingjukast
Föstudagur 7. október 2022 kl. 06:22

Hamingjukast

September 2022 verður lengi í minnum hafður hjá okkur fjölskyldunni enda einstaklega viðburðarríkur. Mér reiknast svo til að við höfum verið með gesti í tuttugu og tvo daga af þrjátíu dögum mánaðarins, ég var í burtu tólf daga vegna vinnuferðalaga allt frá Kóreu til Washington, eiginmaðurinn í fjóradaga á Íslandi, eldri sonurinn fór í tveggja vikna Interrail ferð um Evrópu og sá yngri fór í viku skólaferðalag hér í Frakklandi. Heimilið var því eins og mjög annasöm lestarstöð og Lubbi sá eini sem fór ekkert lengra en í daglegar gönguferðir í skóginum. Það er því ekkert skrýtið að mánuðurinn gangi ýmist undir heitinu „gestember“ eða „flakkember“ eftir því við hvern er talað.

Svo voru ýmis tilefni til að fagna – tvítugsafmæli frumburðarins í lok ágúst, brúðkaupsafmæli 16. september, yngri sonurinn fjórtán ára þann 25. september og svo mánuðinum lokað með 55 ára afmæli undirritaðrar þann 30. september. 

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Og þá að yfirskrift þessa pistils – hamingjukastinu.

Það var nefnilega ekki endilega þannig að konan hafi ætlað sérstaklega að halda upp á daginn. Jú jú…fimmtíuogfimm er alveg töff afmæli, pínu stór tala þannig að það er alveg tilefni til að skála, en verandi búsett í París átti ég meira von á því að þessum áfanga yrði fagnað í faðmi fjölskyldunnar að þessu sinni. En það var sko aldeilis ekki þannig. Jafnt og þétt frá því í vor fóru alls konar vinahópar að láta á sér kræla og voru fyrir einskæra tilviljun allir að tékka á hvernig það stæði á hjá okkur seinustu helgina í september. Við sögðum auðvitað að við yrðum hér – áttum kannski ekki von á að af öllum þessum ferðum yrði og grínuðumst með það að það stefndi í gott afmælispartý.

Og það gerði það svo sannarlega og hér situr því fimmtíuogfimm ára kona í hamingjukasti, pínu þreytt, með sólskinsbros sem fer ekki af henni. Nágrannarnir voru sem betur fer varaðir við því þarna varð til gamaldags partý með söng, dansi og almennum gleðilátum. 

Ég er forréttindakona, einstaklega heppin með vini og vandamenn og er full af þakklæti. Það er ekki sjálfsagt að verða 55 og það er sannarlega ekki sjálfsagt að vinahópar alls staðar að úr heiminum geri sér ferð til Parísar til að fagna með manni í marga daga. Ég ætla því bara að leyfa mér að vera væmin og þakka fyrir þetta allt saman – og komdu fagnandi október með rútínu og venjulegheit. 

Eða kannski ekki… því næsti gestur verður nítján ára gömul sjóndöpur tík sem verður í vikupössun hjá okkur. Þá loksins verður partý hjá Lubba!