Sporthúsið
Sporthúsið

Pistlar

Hagstæðara að gera út fyrir sunnan
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. september 2021 kl. 07:01

Hagstæðara að gera út fyrir sunnan

September er orðinn hálfnaður og núna er búið að brjóta ísinn varðandi línubátana héðan frá Suðurnesjum. Eins og greint hefur verið frá í pistlunum á undan þá hefur Jón Ásbjörnsson RE verið eini línubáturinn sem hefur verið að róa núna sunnanlands og reyndar gert út frá Þorlákshöfn en hefur verið á veiðum á svipuðum slóðum og bátarnir hafa verið á sem landað hafa í Grindavík.

Nú hafa tveir bátar frá Sandgerði farið í róðra með línu. Hið fyrra er að norður á Siglufirði er báturinn Hópsnes GK sem Stakkavík ehf. í Grindavík á og gerir út. Þeir róa með bala sem beitt er í Sandgerði og þarf því að aka með balana norður. Áhöfn Hópsnes GK fór út með risaskammt af bölum fyrir um viku síðan, eða 54 bala, og fékk á þá bala aðeins 5,5 tonn sem eru ekki nema 107 kíló á bala. Þetta er nú eiginlega mjög lélegur afli og sérstaklega ef haft er í huga að það er ansi mikill kostnaður í því að aka með balana norður, fram og til baka. 

Áhöfn Hópsnes GK fór suður til Grindavíkur og þar á Stakkavík bát sem heitir Gulltoppur GK sem líka er balabátur og þeir fóru á bátnum til Sandgerðis tóku þar 30 bala og fóru norður í Faxaflóann.  Fengu þar 2,7 tonn eða um 90 kg á bala.

Þrátt fyrir minni afla á bala þá engu að síður kemur þessi róður mun betur út en stóri róðurinn á Siglufirði því að kostnaðurinn við að keyra balana á bryggju í Sandgerði er svo til enginn því áhöfn bátsins gerir það sjálfir.

Reyndar eru aðallínumiðin beint út af Sandgerði og þar fór Addi Afi GK í prufutúr með aðeins 24 bala en fékk á þá bala 3,5 tonn, sem eru 147 kg á bala. Þetta er gríðarlega góður afli svona snemma í september og það þarf nú engan sérfræðing í að segja að svona góður afli á bala hérna fyrir sunnan borgar sig miklu betur en að keyra norður fyrir rétt rúm 100 kg á bala.

Einn skipstjóri sem réri á línu á haustin frá Grindavík og Sandgerði og fór aldrei norður sagði að til þess að það borgaði sig að keyra norður með bala, fram og til baka, sem og fiskinn, þá þyrfti aflinn að vera 1,5 tonni meiri fyrir norðan en fyrir sunnan og alls ekki undir 120 kg á bala.

Eins og staðan er núna þá eru þrír bátar í Sandgerði í startholunum til að fara að róa á línu. Það eru títtnefndir Gulltoppur GK, Addi Afi GK og Guðrún Petrína GK – og miðað við þessa fínu byrjun hjá Adda Afa GK, og jú líka Gulltopp GK sem reyndar fór í Faxaflóa, þá verður fróðlegt að sjá hvernig þetta mun þróast.

Og talandi um Adda Afa GK. Óskar Haraldsson, sem á útgerðarfyrirtækið Útgerðarfélag Íslands ehf., ansi risastórt nafn, hefur síðan árið 2007 gert út bátinn Adda Afa GK 97 frá Sandgerði og hefur útgerð bátsins gengið mjög vel. Báturinn sjálfur er einn af elstu Cleopötru-bátum landsins, smíðaður í Trefjum árið 1992. 

Sá bátur er 11,2 tonn af stærð og hefur verið seldur núna til Blikaberg ehf. sem er með fiskverkun í Sandgerði og er í eigu Sigurðar, föður fótboltamannsins Gylfa.

Í staðinn keypti Óskar mun stærri bát sem Blikaberg ehf. átti og hét sá bátur Alli GK. Núna heitir sá bátur Addi Afi GK og róðurinn sem minnst er á hérna að ofan var einmitt farinn á nýja bátnum. Nýi báturinn er smíðaður árið 2006 og er um fimmtán tonn að stærð.