Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Guð launar fyrir hrafninn
Laugardagur 10. apríl 2021 kl. 06:46

Guð launar fyrir hrafninn

Að undanförnu hefur verið einkar mikið um að hrafnar geri sig heimakomna í byggð og í nágrenni við byggð. Þó svo að krummi sé hataður af mörgum og ofsóttur víða er hann virkilega skemmtilegur fugl og má kannski segja að hann sé uppistandari fuglanna.

Hér áður fyrr þegar að hart var í ári og snjór eða svell yfir öllu og hrafninn leitaði á bæina reyndu flestir að eiga eitthvað fyrir hrafninn. Þá var gjarnan sagt í bókstaflegri merkingu: „Guð launar fyrir hrafninn“. Ef fólk gerir eitthvað fyrir hrafninn þá mun Guð gera eitthvað fyrir það í staðinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Síðan hefur verið farið að nota þetta í yfirfærðri merkingu. Ef einhverjum býðst til dæmis kaka eða brauð sem hann þiggur getur hann þakkað fyrir sig með því að segja: „Guð launar fyrir hrafninn“.

Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar í íslenskum heimildum, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta um þennan skemmtilega fugl sem öðrum fremur mætti kalla þjóðarfugl Íslendinga.

Margvísleg þjóðtrú er tengd hrafninum. Sumir segja að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Aðrir segja að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna. Velþekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Á meðfylgjandi myndum má sjá að það er kominn vorfílingur í hrafninn og ekki annað að sjá en að hann ætli sér að lækka hjá sér forgjöfina á komandi sumri. Golfboltar heilla oft krumma og algengt er að hann taki bolta á golfvöllum en verður alltaf fyrir vonbrigðum því hann er ekki góður matur. Krummarnir verða einnig á skjánum í Suðurnesja-magasíni vikunnar.