Pistlar

Gamla góða samstaðan!
Föstudagur 20. mars 2020 kl. 17:00

Gamla góða samstaðan!

Það er óvissa og erfiðar vikur framundan. Heimsfaraldur vegna veirunnar COVID-19 hefur raskað bæði mannlífi og atvinnulífi og ljóst að næstu vikur verða erfiðar. Hjól atvinnulífsins snúast hægt og með margvíslegum afleiðingum, mörgum vondum og erfiðum. Þessi veira mun hafa gríðarleg áhrif á allt okkar líf á næstunni.

Í lokaorðapistli Ingu Birnu Ragnarsdóttur í blaði vikunnar spyr hún réttilega hvort einhvern hefði órað fyrir því að alheimsfaraldur myndi geisa árið 2020? Að heilbrigðiskerfi færu á hliðina eitt af öðru við það eitt að útrýma veiru sem á upptök sín hjá leðurblökum í Kína?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við Suðurnesjamenn höfum upplifað mörg áföllin. Kvótinn hvarf úr Keflavík og hafði mikil áhrif á efnahagslífið í bítlabænum og nágrenni. Bandaríkjaher fór með manni og mús og til að gera það verkefni aðeins erfiðara bættist við bankahrun tveimur árum síðar. Við upplifðum nýtt góðæri í nokkur uppgangsár en svo féll WOW og nú COVID-19. Hvað næst?

Það er lítið hægt að gera annað en að hughreysta fólk og huga að náungakærleik. Við munum komast í gegnum þetta eins og önnur áföll. Hafi samfélagsleg ábyrgð og samstaða einhvern tíma verið nauðsynleg þá er það núna. Við þurfum að huga að gamla fólkinu þó svo heimsóknir til þeirra séu eitthvað takmarkaðar. Við þurfum að hugsa enn betur um börnin. Það er ekki víst að þau skilji þetta ástand alveg. Með samstilltu átaki munum við fara í gegnum þennan skafl.

Samkomubann er fram yfir páska og fjölmargir samverkandi þættir gera okkur hjá Víkurfréttum erfitt að taka ákvarðanir frá viku til viku, hvort grundvöllur sé fyrir því að prenta blaðið og dreifa inn á heimili á Suðurnesjum.

Víkurfréttir byggja afkomu blaðsins alfarið á auglýsingatekjum og séu þær tekjur ekki til staðar þarf að skoða hagkvæmari leiðir til að koma blaðinu til lesenda.

Síðustu vikur hefur verið mikil aukning í lestri á rafrænni útgáfu blaðsins en þúsundir sækja rafrænar Víkurfréttir í hverri viku. Í þeirri óvissu sem framundan er getur það gerst að tekin verður ákvörðun um að prenta ekki blaðið, heldur dreifa því bara rafrænt í gegnum netið.

Þess vegna hvetjum við ykkur lesendur til að sækja blaðið rafrænt á vef Víkurfrétta, vf.is. Á vefnum er einnig hægt að skrá sig á póstlista og fá tilkynningu um nýjasta blaðið um leið og það er gefið út á vefnum.

Stöndum þétt saman kæru vinir
þó svo að það þurfi að vera tveir metrar á milli,

Páll Ketilsson.