Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Frelsi með öryggi
Föstudagur 15. maí 2020 kl. 07:34

Frelsi með öryggi

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Í vikunni bárust þær fréttir að unnið sé að því að aflétta ferðatakmörkunum til landsins, með skilyrðum þó. Það er mikilvægt að vel takist til í því að finna þetta gullna jafnvægi á milli þess að auka frelsið sem við öll þráum án þess að kvika hvergi frá mikilvægasta markmiðinu sem er að tryggja öryggi borgaranna gegn þessari skæðu veiru sem engu eirir. Þetta er gríðarlega stórt skref og ríkisstjórnin sýnir mikið hugrekki með þessari ákvörðun, sem er í senn brött og varfærin.

Nú sem aldrei fyrr þarf að hugsa í lausnum og hugsa hratt. Það er óhjákvæmilegt að þetta skimunarferli á flugvellinum taki einhvern tíma og valdi farþegum óhagræði, til viðbótar við allt það sem við höfum þurft að venja okkur við til þessa og er hefðbundin vopnaleit orðin hluti af ferðalaginu. Þess vegna þarf að leita allra leiða til að þetta ferli taki sem stystan tíma og verði eins snuðrulaust og mögulegt er. Eins og þetta hefur verið kynnt er hugmyndin sú að farþegar verði skimaðir við komu til landsins, yfirgefi svo flugvöllinn og haldi kyrru fyrir á áfangastað þar til niðurstaða úr skimuninni liggur fyrir og þeim veitt leyfi til að ferðast um landið.

Samkvæmt því sem fram hefur komið er áætlað að það gæti tekið fjóra til átta tíma þar til farþegar geti vænst þess að fá niðurstöðu, ekið verði með sýnin á veirufræðideild Landsspítalans og þau greind þar. Nú er unnið að útfærslunni, þetta hefur aldrei verið gert og ég efast ekki um að allar leiðir verði skoðaðar til þess að spara tíma. Nú er ég ekki veirufræðingur og set þann mikilvæga fyrirvara á það sem ég velti hér fyrir mér en gæti verið skynsamlegt að skoða að setja upp færanlega veirudeild í nágrenni flugstöðvarinnar til að stytta greiningartímann? Kári Stefánsson greindi allt í Turninum í Kópavogi þannig að þetta er greinilega hægt. Ef það gæti stytt úrlausnartímann um allt að klukkutíma að setja þetta upp hér væri til mikils að vinna.

Ef vel tekst til og ferðamenn byrja að koma til landsins með þessum skilyrðum gætu falist í þeim möguleikar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hér á svæðinu til að bjóða fram „biðtíma áfangastað“, sérstaklega til þeirra ferðamanna sem vilja sneiða hjá borginni og fara beint í fámennið og víðernið úti á landi. Hálfsdagsherbergi með „Room Service“ á meðan beðið er gæti verið söluvara ferðasumarsins 2020.

En allt veltur þetta auðvitað á því að fólk almennt, hérlendis sem erlendis, vilji byrja að ferðast aftur og að framboð verði á flugi á milli landa. Óvissan er mikil en henni verður ekki eytt nema með því að fara af stað. Þessi bröttu en varfærnu skref eru vonandi upphafið að viðspyrnunni.