Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

FOMO
Föstudagur 26. mars 2021 kl. 06:33

FOMO

Ég get verið óþolandi í því að þurfa alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, gera eitthvað. Slaka á er eitthvað sem ég fæddist ekki með og er ennþá að heyra sögur frá móður minni hvað ég var „óþolandi“ ungabarn sem aldrei svaf. Ekki óx þetta af mér, gat bara aldrei verið kyrr sem krakki. Hoppandi, dansandi og skoppandi allan daginn. Alltaf fjör. Þegar ég eltist fór þetta meira að snúast um að vera í kringum skemmtilegt fólk og gera alls konar skemmtilega hluti sem ég hafði ekki prófað áður, nú eða bara gera hluti sem mér fannst skemmtilegir. Ég tek svona tímabil. Þegar ég byrjaði að spila golf þá var ég óstöðvandi úti á golfvelli, allt gekk ótrúlega vel en svo bara staðnaði ég í forgjöfinni. Þá fór áhuginn að dvína. Er ekki mikið fyrir að æfa mig, vil bara fjörið. Þannig að manninum mínum til mikils ama þá er ég ekki að drepast yfir golfáhuga en vonast til að hann vaxi aftur á mig með árunum.

Ég þarf helst alltaf að vera að prófa eitthvað nýtt. Finn reyndar þegar árin færast yfir þá er ég ekki jafn óttalaus þegar kemur að því að prófa nýtt sport. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hvernig mér líður að skoða allar skemmtilegu myndirnar af vinum mínum á samfélagsmiðlum. Skíði, gönguskíði, fjallaskíði, fjallgöngur og allt annað sem fólki dettur í hug að gera. Það er því ansi oft sem ég droppa einhverri hugmynd á manninn minn. „Eigum við að henda okkur á fjallaskíði?“ eða „Langar þig ekki að prófa sweat?“. Ég er pínu svona eins og fólkið í áramótaskaupinu, grasið er alltaf grænna hinum megin.  Á góðri útlensku er þessi hegðun greind sem FOMO, eða „Fear Of Missing Out“. Mér líður sem sagt alltaf eins og ég sé að missa af einhverri stórkostlegri skemmtun.

Um helgina var ég viðþolslaus að skoða myndir á samfélagsmiðlum af vinum mínum á gosstöðvunum. Þvílíkar myndir og þvílíkur hetjuskapur að ganga að gosinu. Gekk einmitt á sínum tíma upp að gosinu á Fimmvörðuhálsi. Gleymi því ekki hvað ég var illa haldin af kulda þegar ég var komin á leiðarenda og átti „bara“ niðurleiðina eftir – en það var allt gleymt og grafið á þessari stundu þegar ég spurði manninn minn hvort hann væri ekki til í að koma með mér í göngutúr upp lítið fjall. Hann nær nú yfirleitt að halda mér á jörðinni þegar hausinn fer á flug, enda einstaklega jarðtengt eintak. Það örlaði ekki á áhuga hjá honum að fara í þennan göngutúr þrátt fyrir að hafa sjálfur fylgst með myndum á samfélagsmiðlum. Það er gott að gera sér grein fyrir því að maður er með FOMO greiningu, þegar maður vill endalaust vera að gera eitthvað nýtt eða eitthvað sem aðrir eru að gera. Mér leið líka aðeins betur þegar ég  hlustaði á fréttir í morgun þess efnis að björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hafi þurft að aðstoða um 40 einstaklinga niður af gosstöðvum. Það eru greinilega fleiri haldnir ómeðhöndluðu FOMO.