Optical studio
Optical studio

Pistlar

Fiskveiðiárið fer vel af stað
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
mánudaginn 10. október 2022 kl. 10:18

Fiskveiðiárið fer vel af stað

Tíminn líður áfram og núna er september búinn – og alveg hægt að segja að hann hafi verið feikilega góður aflalega séð.

En horfum á bátana sem voru að róa frá Suðurnesjum og það voru í raun einungis dragnótabátarnir, nokkrir færabátar og 29 metra togararnir.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Byrjum á dragnótabátunum.  Þeir áttu feikilega góðan mánuð og Sigurfari GK var með um 320 tonn í tuttugu róðrum og aflahæstur á landinu í september,  Siggi Bjarna GK var með um 230 tonn í tuttugu róðrum og Benni Sæm GK 183 tonn í nítján róðrum. Samtals eru þetta 753 tonn sem komu á land hjá Nesfiski af dragnótabátunum.

Maggý VE var með 120 tonn í sextán róðrum og Ísey EA 144 tonn í sautján sem landað var í Sandgerði og Grindavík.

Pálína Þórunn GK var allan september á heimamiðum og gekk mjög vel, var með 445 tonn í sjö löndunum og öllu landað í Sandgerði. Sturla GK var með 470 tonn í átta, landaði fyrstu sex löndunum í Grindavík og tveimur í Grundarfirði.

Fjórir netabátar voru á veiðum. Erling KE landaði í Sandgerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Grindavík og var með 147 tonn í fimmtán róðrum, af því var ufsi 85 tonn. Grímsnes GK hóf veiðar um miðjan september og var með 90 tonn í fimm og ufsi af því 78 tonn. Mestu landað á Hornafirði.

Maron GK var í þorskinum og var með 86 tonn í nítján róðrum, mest 12 tonn í róðri. Halldór Afi GK 42 tonn í nítján og mest 5,2 tonn.

Allir línubátarnir sem eru skráðir á Suðurnesjum voru á veiðum fyrir norðan og austan og lönduðu að mestu á Skagaströnd, Siglufirði og Neskaupstað.

Lítum á nokkra báta: Daðey GK með 172 tonn í 25 róðrum og báturinn reri næstoftast allra báta á landinu í september, Margrét GK 149 tonn í nítján, Auður Vésteins SU 181 tonn í fimmtán, Gísli Súrsson GK 170 tonn í sextán, Óli á Stað GK 127 tonn í átján, Hulda GK 112 tonn í sextán, Sævík GK 86 tonn í fimmtán og Dúddi Gísla GK 94 tonn í sextán róðrum.

Stóru bátarnir voru Sighvatur GK 453 tonn í fjórum og mest 127 tonn, Páll Jónsson GK 410 tonn í fjórum og mest 128 tonn, Fjölnir GK 365 tonn í fjórum og mest 116 tonn og Valdimar GK 339 tonn í fjórum og mest 103 tonn. 

Sóley Sigurjóns GK var búin að vera á rækjuveiðum í sumar og kom til Njarðvíkur með um nítján tonn í einni löndun, af því var rækja tólf tonn. Þar með lauk rækjuvertíð togarans og í september var hann með 194 tonn í fjórum löndunum, mest 63 tonn. Rækja af þessum afla var 88 tonn.

Svona góð byrjun á fiskveiðiárinu, og sérstaklega hjá þeim bátum sem voru að veiða á heimamiðum, t.d. Nesfiskbátarnir, skýtur nokkuð skökku við sérstaklega vegna þess að þorskkvótinn var skorinn verulega mikið niður á milli fiskveiðiára og þrátt fyrir það þá var veiðin þetta góð.

Seinna meir þá gæti þessi góða veiði í byrjun fiskveiðiárs sett stórt strik í skipulagningu á útgerðarmálum fyrirtækjanna því að kvótinn er nú ekki mikill og má alveg búast við að bryggjustoppin verði frekar löng hjá bátunum, sama hvaða fyrirtæki á í hlut.