Sporthúsið
Sporthúsið

Pistlar

Festarfjall
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 3. október 2021 kl. 08:27

Festarfjall

Rétt austan við Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, gengur þverhnípt fell fram við sjóinn, um 190 metra hátt og heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og Hraunsandur (í daglegu tali nefndur Ægissandur) þar undir sem ganga má þurrum fótum þegar lágsjávað er. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu. Hún gaf þau fyrirmæli að er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar undir, skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefur verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.