Pistlar

Einstakt tækifæri
Föstudagur 23. apríl 2021 kl. 11:49

Einstakt tækifæri

Það eru jákvæðar fréttir að berast nú á vordögum en fækkað hefur á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum um 800 manns á síðustu vikum. Enn eru þó rúmlega þrjú þúsund manns án atvinnu. En talandi um það þá býðst atvinnurekendum sem eru með 70 starfsmenn eða færri, einstakt tækifæri að skapa ný störf því ef þeir ráða starfsmann sem er atvinnulaus fá þeir upphæð sem nemur atvinnuleysisbótum að viðbættum 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði. Hafi viðkomandi einstaklingur verið atvinnulaus í tólf mánuði eða lengur er styrkurinn hærri, eða að hámarki tæplega 530 þúsund krónur.

Forstöðukona Vinnumálastofnunar segir í viðtali við Víkurfréttir að atvinnurekendur mættu vera duglegri að nýta sér þetta tilboð. „Þetta er tækifæri sem allir græða á,“ segir hún.

Sólning
Sólning

Það er ekki hægt annað en að taka undir þessi orð. Hér gefst fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum einstakt tækifæri til að ráða fólk til að sinna störfum sem hafa tapast í fyrirtækjunum eða þá í ný verkefni. Nú er lag!

Kanar á leiðinni

Eins og við sögðum frá í síðustu viku eru mannaflsfrekar framkvæmdir hafnar eða eru að hefjast á Keflavíkurflugvelli. Í vikunni bárust fréttir frá öðru bandarísku flugfélagi en United Airlines ætlar að hefja flug til Íslands að nýju í sumar og bjóða daglegar ferðir milli New York/Newark og Chicago. Á síðastliðnum mánuðum hafi komið fram við athugun á því að hverju farþegar leituðu helst á vef félagsins að áhugi á Íslandi hefði aukist um 61% og þegar sé hægt að byrja að bóka flug.

Nýlega greindu forráðamenn Delta flugfélagsins frá svipaðri ákvörðun. Það er því ljóst að þetta eru ekki vonir einar heldur staðreyndir. Bandaríkjamenn hafa verið meðal tveggja þjóða sem hafa verið duglegastar í bólusetningum og mikill ferðavilji sé hjá þeim.

Landinn heima

Það er ekki sami tónn í heimamönnum ef marka má viðtöl sem Víkurfréttir hafa tekið við nokkra og sjá má í þessu og næsta tölublaði. Þar segjast lang flestir ekki vera í miklum ferðahug til útlanda og ætli að verja sumarfríinu heima. Þó standi hugur þeirra til útlanda þegar fer að hægjast á faraldrinum.

Í þessum viðtölum spyrjum við fólk út í veturinn sem nú er að kveðja. Kófið skipað að sjálfsögðu stærstan sess í lífi fólks en allir bíða þess að geta farið að haga sér eins og það gat gert fyrir kófið.