Pistlar

Dirty weekend
Föstudagur 11. september 2020 kl. 15:45

Dirty weekend

Á sama tíma og Þjóðkirkjan sendir frá sér sitt umdeildasta verk í seinni tíð, teikningu af Jésú Kristi með brjóst og varalit, ákveða tvær yngismeyjar frá Suðurnesjum að skella sér á Hótel Sögu að hitta fræga enska knattspyrnumenn. Þau höfðu kynnst í gegnum samfélagsmiðla. Ef aðstæður í þjóðfélaginu hefðu verið eðlilegar hefðu hundruð ef ekki þúsundir Íslendinga beðið fyrir utan hótel enska landsliðsins í von um að fá eiginhandaráritanir eða bara berja goðin augum – því enskur fótbolti er mun vinsælli á Íslandi en í Englandi sjálfu.

Eins og sannir herramenn buðu Englendingarnir okkar stúlkum upp á fría gistingu á hótelinu. Bara ekki á sínu svæði. Hafði eitthvað með sóttkví að gera. En hver getur svo sem skilgreint sóttkví að einhverju viti? Hvað máttu og hvað máttu ekki nákvæmlega? Er það einhversstaðar niðurskrifað? Áttu ekki bara að halda fjarlægð við fólk sem þér finnst leiðinlegt. Ég skil strákana vel. Þeir þurfa að halda tveggja metra regluna í búningsklefanum en mega alls ekki virða hana úti á knattspyrnuvellinum – og hvort er hótelherbergi búningsklefi eða skeiðvöllur? Dæmi nú hver fyrir sig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég skil stelpurnar líka vel. Þetta eru flottir gaurar. Vel launaðir. Frægir. Væntanlega skemmtilegir líka. Ef ég hefði mátt ráða hefði ég gjarnan vilja sjá þær elta knattspyrnulið Njarðvíkur til Húsavíkur. Er bara ekki viss um að nokkur leikmaður Njarðvíkur hefði verið klár að splæsa í tvö herbergi á Hótel Húsavík.

Umburðarlyndi almúgans gagnvart sjálfsbjargarviðleitni unga fólksins var nákvæmlega það sama og svokallaðra sannkristinna gagnvart Jésú myndinni. Nákvæmlega ekkert. Jesús er sko enginn hommi, hann er fullkominn eins og ég. Þótt hann máli sig um helgar. Þú veist hvernig tízkan er.

Niðurstaðan af öllu þessu brölti var sú að íslensk ferðaþjónusta fékk bestu gjaldfrjálsu landkynninguna frá gosinu í Eyjafjallajökli. Við sem eldri erum munum eftir nokkuð umdeildu markaðsátaki Icelandair í Bretlandi, „Dirty Weekend“. Það er kannski mál til komið að dusta rykið af gömlum góðum markaðsherferðum og keyra Ísland í gang á ný. Unga fólkið er að leggja sitt af mörkum. Hafi þau öll kærar þakkir fyrir.

Við sem eldri erum skulum vera þakklát fyrir að hafa ekki þurft  að glíma við samfélagsmiðla á okkar yngri árum. Það gætu verið eitt til tvö atvik á lífsleiðinni sem hefðu ratað þangað ... óvart.

Margeir Vilhjálmsson.