Pistlar

Burtflogin hús
Föstudagur 25. september 2020 kl. 08:10

Burtflogin hús

Lokaorð Ragnheiðar Elínar

Út af „dottlu“ höfum við flest verið meira heima við en í venjulegu ári og notið nærumhverfisins og þess sem það hefur upp á að bjóða. Það var ýmislegt ágætt gert hér í bæ í sumar til að fegra bæinn okkar og fyrir það ber að þakka. Framkvæmdir hafa verið við nokkra göngustíga bæjarins, þeir breikkaðir og malbikaðir og silfurgráum ruslatunnum skipt út fyrir gömlu grænu tunnurnar. Allt er þetta ágætt þó svo að skipulag framkvæmdanna hafi stundum virkað frekar handahófskennt og hefði mátt ganga hraðar fyrir sig – og ég ætla alveg að stilla mig um að ræða grasslátt og arfareytingu þar sem þeim verkum fer að ljúka þetta árið en hvet bæjaryfirvöld þess í stað að sýna töluvert meiri metnað þar næsta sumar. Það þarf frekar lítið til að gleðja okkur og vel hirtur bær gerir það svo sannarlega.

Svo voru líka ýmsar skemmtilegar uppákomur hér og þar um bæinn í sumar og lítið notuð svæði endurbætt með frumlegum hætti. Ég vil sérstaklega nefna svæðið hjá gamla HF þar sem litríkar skreytingar, útigrill og pizzuofn setja skemmtilegan svip og glæða það lífi á góðviðrisdögum – og litlu skemmtilegu sjávarútsýnis-/fuglaskoðunarhúsin á grasflötinni þar fyrir framan – frábær hugmynd, skemmtilegur og skjólsæll viðkomustaður okkar íbúa í gönguferðum.

Ég geng nánast daglega meðfram sjónum og var mjög ánægð að sjá hversu margir nutu þess að staldra við í litlu húsunum. Við hjónin vorum dugleg að bjóða utanbæjarvinum okkar í mat á Heiðarbrúnina í sumar og buðum gjarnan fyrst upp á labbitúr um gamla bæinn og strandleiðina fallegu til að æsa aðeins upp matarlystina hjá gestunum. Þar opnaðist nýr heimur fyrir gestum okkar sem hingað til höfðu yfirleitt bara keyrt beint heim til okkar eða framhjá bænum á leið á flugvöllinn. Í göngutúrnum sáu þau aðra hlið á bænum sem kom þeim skemmtilega á óvart. Litlu húsin vöktu eftirtekt og voru fyrirtaks viðkomustaður á göngunni þar sem við buðum upp á smávegis hressingu áður en haldið var áfram. Við erum með langan lista af vinum sem við skuldum matarboð og hlökkuðum til að halda þessu nýja „giggi“ okkar áfram í vetur, ganga um og sýna þeim bæinn okkar og njóta sjávarútsýnisins í skjóli fyrir veðri og vindum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En þá allt í einu voru húsin bara horfin! Hvert fóru þau – áttu þau í alvöru bara að vera sumarskraut? Ég trúi því nú varla. Á sumrin gefast jú fleiri tækifæri til að njóta sjávarútsýnisins og ferska loftsins án mikilla skjólveggja, napur vetrarvindurinn er frekar það sem fólk leitar skjóls fyrir – og það skal enginn segja mér að húsin þoli ekki vetrarveður,  þetta voru hin veglegustu hús sem væntanlega má festa kyrfilega niður. Við búum á Íslandi,  trampolín fjúka líka á sumrin. Það er alla vega bara úrlausnarefni.

Punkturinn er þessi, þarna var vel heppnuð pínulítil framkvæmd sem var til þess fallin að gleðja okkur og bæta mannlífið í miðbænum. Sem sannarlega ekki er vanþörf á. Það þarf oft ekki mikið til og það er ástæða þess að ég nefni þetta hér. Við þurfum meira svona.

Koma svo! Upp með húsin, festum þau niður og njótum þess í vetur að sitja í skjóli og horfa á öslandi brimið. Spurning með útibú frá „Kakó and kleins“?