Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Ár frá upphafi gossins
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 27. mars 2022 kl. 06:02

Ár frá upphafi gossins

Það er nú sjálfsagt að bera í bakkafullann lækinn að fjalla um að eitt ár er liðið frá því að eldgos hófst í Geldingadölum þann 19. mars 2021.

Ég læt nú samt vaða. Það er ekki ofsögum sagt að farið hafi um mann ónotatilfinning þegar fréttir bárust af því að eldgos væri hafið nánast í bakgarði heimilis manns. Þegar leið frá upphafinu og menn áttuðu sig á því að þetta kæmi nú ekki til með að ógna öryggi íbúa og/eða innviðum samfélagsins þá tók við skemmtilegt tímabil þar sem maður, ásamt svo mörgum öðrum, hafði gosið að áhugamáli og skemmtun.

Public deli
Public deli

Farnar voru ófáar ferðirnar til þess að mynda, njóta og upplifa. Það var kyngimagnað þegar myrkva tók að setjast niður og horfa á þetta sjónarspil sem gosið var, finna kraftinn og heyra hljóðið í drununum þegar gosstrókarnir risu hátt í loft upp.

Einnig var ekki síður ánægjulegt að sjá hversu jákvæð áhrif þetta hafði á ferðaþjónustuna. Hingað flykktust ferðamenn í þúsundatali til að berja þennan atburð augum þrátt fyrir Covid-faraldur sem ekki vann með okkur í þessum málum.

Nú þegar Covid er á undanhaldi læðist að manni sú hugsun hvort ekki væri hægt að semja við almættið (það er að segja ef hann ræður þessu) um að koma með smá gusu þarna á sama stað. Hún mætti mín vegna bara vera í viku, svona til þess að trekkja að í sumar.

Ég bið bara um lítið ... oggulítið gos.