Thrifty Fólksbílar

Pistlar

Aflafréttir: Þeir hörðustu réru á milli lægða
Föstudagur 24. janúar 2020 kl. 14:46

Aflafréttir: Þeir hörðustu réru á milli lægða

Það fór eins og ég hafði spáð í lok síðasta pistils, að loksins myndi gefa aðeins á sjóinn. Það gerði smá gat á milli lægða og þeir hörðustu gátu róið frá miðvikudegi og fram að laugardegi.

Þeir fáu línubátar af minni gerðinni sem gera út frá Grindavík lönduðu reyndar í Þorlákshöfn. Þeir fóru nokkrir þangað og voru að leggja línuna undan Þjórsárósum og aðeins austar. Sævík GK var með 30 tonn í fimm róðrum og voru um 26 tonn af aflanum fengin þar. Daðey GK 22 tonn í fjórum, öllu landað í Þorlákshöfn. Gísli Súrsson GK var líka á sömu slóðum en ekki voru allar aflatölur komnar inn um hann þegar þetta er skrifað. Þó höfðu um tólf tonn í þremur róðrum skilað sér inn, mest 9,1 tonn í róðri. Dúddi Gísla GK hélt sig á miðunum skammt frá Grindavík og var með 18,2 tonn í fjórum róðrum. Hraunsvík GK, sem er eini netabáturinn í Grindavík, var að fiska nokkuð vel, var með 18,8 tonn í fimm róðrum.

Í Sandgerði var ansi mikið um að vera. Steinunn HF var með 24 tonn í fimm róðrum og mest tæp átta tonn í róðri. Katrín GK 17,4 tonn í þremur og mest níu tonn í róðri. Beta GK með 22,6 tonn í aðeins þremur róðrum og það má geta þess að á Betu GK eru aðeins þrír skipverjar. Gulltoppur GK 11,9 tonn í tveimur en hann rær með bala eins og Katrín GK. Alli GK með tólf tonn í tveimur róðrum. Guðrún GK um átta tonn í einni löndun. Margrét GK 27 tonn í aðeins þremur róðrum. Óli á Stað GK 30 tonn í fimm róðrum. Óli G GK nítján tonn í þremur róðrum.

Nokkrir línubátar réru skammt undan Garðskagavita og meðfram Garðinum, lögðu þar línu og lentu í nokkuð góðri veiði. Þetta svæði er mjög þekkt sem ansi gott handfæraveiðisvæði og t.d. fengu bátarnir Beta GK, Gulltoppur GK og Guðrún GK allir góðan afla þar. Beta GK kom með um 8,5 tonn þaðan, Gulltoppur GK um 6,5 tonn og Guðrún GK um átta tonn.

Síðan gerði enn eina bræluna og fóru þá t.d. Guðrún GK og Beta GK inn í Njarðvík til þess að geta róið inn í flóa í skjóli. Óli G GK fór alla leið inn í Hafnarfjörð. Óli á Stað GK fór líka inn í Njarðvík. Hann hefur reyndar róið tvisvar frá Njarðvík í Garðsjóinn en pistlahöfundi er ekki kunnugt um aflatölur hjá þeim.

Netabátarnir frá Sandgerði hafa fiskað ágætlega. Þeir voru að leggja netin skammt undan Hvalsnesi og áleiðis að Reykjanesvita en á laugardeginum færðu þeir sig allir inn í flóa og lönduðu í Njarðvík. Þá fóru reyndar Halldór Afi GK og Bergvík GK á sjóinn seinni partinn á sunnudeginum og lönduðu báðir rétt um miðnætti í Keflavík. Halldór Afi GK er kominn með um fjögur tonn í fjórum róðrum. Bergvík GK 1,8 tonn í tveimur. Maron GK fjögur tonn í þremur. Grímsnes GK 26 tonn í níu róðrum og Erling KE 24 tonn í sjö. Sunna Líf GK var svo með um 1,5 tonn í tveimur róðrum.

Hjá dragnótabátunum hefur veiðin verið mjög misjöfn. Fyrir það fyrsta hafa þeir lítið getað komist á sjóinn. Benni Sæm GK er með 29 tonn í fimm róðrum. Sigurfari GK 32 tonn í fimm og Aðalbjörg RE 2,2 tonn í tveimur róðrum frá Sandgerði. Enginn dragnótabátur hefur landað í Grindavík nema Ísey EA sem landaði 1,8 tonni í einni löndun snemma í janúar.