Pistlar

Aflafréttir: Loksins alvöru vertíðarbragur
Rígvæn og risastór langa kom á land með veglegum afla hjá línubátnum Sævík GK í Grindavík. VF-mynd/pket.
Föstudagur 7. febrúar 2020 kl. 07:23

Aflafréttir: Loksins alvöru vertíðarbragur

Nú er að koma alvöru vertíðarbragur. Veiði hjá bátunum hefur verið að aukast og þessar endalausu brælur eru vonandi búnar.

Í gegnum árin hefur eitt veiðarfæri einkennt vetrarvertíðir, net. Það var oft á tíðum mikill fjöldi netabáta sem réru frá Grindavík, Sandgerði og Keflavík. En núna, árið 2020, eru netabátarnir aðeins átta talsins og allir eru þeir að róa núna frá Sandgerði. Þetta er frekar ótrúleg tala, aðeins átta bátar, því við erum að tala um að netabátarnir voru allt að 100 talsins í þessum höfnum á árum áður.

Þessir átta bátar hafa náð að fiska nokkuð vel þegar þeir loks komust á sjóinn. Bergvík GK var með 9,3 tonn í sjö róðrum í janúar. Erling KE með 88 tonn í þrettán róðrum og mest 19,7 tonn. Hann landaði í Njarðvík, Grindavík og Sandgerði, mestu landað í Sandgerði. Grímsnes GK var með 80 tonn í átján róðrum í janúar og hefur nú þegar byrjað febrúar vel, kom með 12,2 tonn í land í Sandgerði. Maron GK með 37 tonn í ellefu róðrum í janúar og hefur núna í febrúar landað 8,8 tonnum í einni löndun, öllu í Sandgerði. 

Hraunsvík GK er eini netabáturinn frá Grindavík. Hún byrjaði veiðar í Grindavík og færði sig síðan yfir til Sandgerðis, var með 27 tonn í níu róðrum og byrjar febrúar á 2,1 tonn í einum róðri. Halldór Afi GK 24 tonn í ellefu í janúar og byrjar febrúar á 3,3 tonna löndun. Sunna Líf GK 21 tonn í sjö veiðiferðum og mest 6,9 tonn í einni veiðiferð í janúar. Til viðbótar þessu þá er elsti bátur landsins kominn á veiðar, Þorsteinn ÞH frá Raufarhöfn, sem Suðurnesjamenn þekkja mjög vel, sérstaklega Grindavíkingar því báturinn var lengi gerður út frá Grindavík og var þá Þorsteinn GK.

Annað sem hefur eða hafði einkennt vertíðir á Suðurnesjum, og þá aðallega seinni árin í Grindavík og Sandgerði, var loðnan. Síðar tók reyndar Helguvík við. Það voru loðnuverksmiðjur í Grindavík og í Sandgerði en þær lokuðu báðar, þó á sitthvorn hátt. Verksmiðjan í Grindavík lokaði endanlega eftir gríðarlega mikinn eld sem kom í verksmiðjunni árið 2005 og var verksmiðjan aldrei endurreist. Verksmiðjan í Sandgerði var endurbyggð og stækkuð í 600 tonn á sólarhring en Snæfell ehf. keypti síðan Njörð ehf. og við það komst verksmiðjan í eigu Snæfells ehf. Síldarvinnslan á Neskaupstað keypti síðan Snæfell ehf. og lokaði verksmiðjunni í Sandgerði, enda var þá Síldarvinnslan líka komin með verksmiðjuna í Helguvík. Árið 2003 var síðasta árið sem að loðna var brædd í Sandgerði. Árið 2002 voru brædd í Sandgerði 27 þúsund tonn af loðnu.

Mjög margir bátar lönduðu loðnu t.d. í Sandgerði. Einn bátur landaði þó þar allramest og landaði loðnu alveg fram á þessa öld. Það var Dagfari ÞH, sem sést á mynd með pistlinum sem faðir minn, Reynir Sveinsson, tók. 

Reyndar er það nú þannig að þótt margir bátar hafi t.d. landað loðnu í Grindavík þá var enginn bátur þar með jafn langa sögu í að landa loðnu á Suðurnesjum og einmitt Dagfari ÞH. Báturinn landaði loðnu að mestu í Sandgerði og gerði það frá því árið 1968 og fram yfir aldamótin, eða í yfir 30 ár. 

Vonandi kemur sú sjón aftur að við fáum að sjá loðnubáta með fullfermi koma til hafnar á Suðurnesjum og er þá ekki verið að tala um þessi risastóru skip sem eru í dag, heldur báta sem eru minni eins og t.d. Dagfari ÞH eða GK var. Draumsýn sem kannski aldrei verður að veruleika.

Gísli Reynisson.
aflafrettir.is

Dagfari ÞH.