Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Aflafréttir: Aðeins um bátana í slippnum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
mánudaginn 29. júní 2020 kl. 09:31

Aflafréttir: Aðeins um bátana í slippnum

Þó að frekar rólegt sé í höfnunum á Suðurnesjum um þessar mundir, nema kannski í Sandgerði þaðan sem nokkur fjöldi handfærabáta er að róa, þá er ansi mikil líf í slippnum í Njarðvík um þessar mundir.

Mjög margir bátar hafa verið teknir þar upp í slipp og til að mynda komu þrír bátar frá Snæfellsnesi fyrir stuttu sem allir voru teknir upp í slippinn.

Það eru reyndar nokkrir bátar í slippnum sem hafa verið þar nokkuð lengi. Lítum aðeins á þá og miðum við myndina sem fylgir með.

Ef við byrjum á bátnum lengst til hægri á myndinni sem er Faxi RE.  Hann lítur ansi hrörlega út þarna við endann en bátnum var breytt fyrir farþegaflutninga og stóð til að það myndi ver hægt að nota hann í sjóstangaveiði eða hvalaskoðun. Hefur eitthvað lítið farið fyrir þeim málum undanfarið. 

Faxi RE réri síðast til fiskveiða í desember árið 2010 og í raun hefur báturinn mjög lítið róið til veiða alla þessa öld. Báturinn hét Berghildur SK og var seldur árið 2006 suður til Reykjavíkur og frá því að báturinn fór til Reykjavíkur hefur hann aðeins farið í sex sjóferðir.

Þegar að báturinn hét Berghildur SK réri báturinn mjög mikið til dragnótaveiðar og landaði þá iðulega í sinni heimahöfn, Hofsósi. 

Báturinn var smíðaður í Hafnarfirði árið 1981 og það eru þrír bátar á Suðurnesjum sem eru samskonar og Faxi RE. Báturinn kom aðeins til Keflavíkur því árið 1984 var hann keyptur til þangað og hét þá Geir KE 67, var þar eyndar aðeins í um tvö ár. Berghildarnafnið var aftur á móti á bátnum í yfir tíu ár.

Báturinn við hliðina á Faxa RE er Arctuc Endeavour, sá bátur er búinn að vera nokkuð lengi í slippnum. Hann er smíðaður í Kanada og þegar hann kom voru mjög mikil og há möstur á bátnum og voru þau tekin af honum í september 2018. Það átti að breyta honum í fiskibát en lítið hefur farið fyrir því og er báturinn ekki skráður á Íslandi.

Þar við  hliðina er Stakkavík GK sem Stakkavík ehf. í Grindavík á en báturinn  hefur aðeins verið gerður út á makríl síðan árið 2017, þar á undan var báturinn í nokkuð mikilli útgerð svo til frá aldamótum. Þessi bátur var smíðaður 1982 á Englandi, hét fyrst Ebbi AK og var með því nafni alveg til ársins 2008 þegar hann var seldur, eða í 26 ár. Búið er að breyta bátnum nokkuð frá því hann kom árið 1982 og var það allt gert þegar hann hét Ebbi AK.

Fylkir KE er við hliðina á Stakka-vík GK. Sá bátur var smíðaður 1985 í Svíþjóð, hét fyrst Garðar GK og skráður í Vogunum. Báturinn var seldur 1990 og fékk þá nafnið Fylkir NK. Þetta nafn, Fylkir, hefur verið á bátnum alla tíð síðan árið 1990. 

Fylkir KE hefur verið í nokkuð mikilli útgerð alla þessa öld en landaði síðast í lok ágúst 2019, þá á makríl. Alla þessa öld hefur báturinn verið gerður út frá Suðurnesjum, þá aðallega frá Keflavík og Sandgerði, og hafa netaveiðar verið helsta veiðarfæri bátsins, aldrei farið á línu síðustu tuttuguu ár og vekur það nokkra athygli. 

Síðasti báturinn á þessari mynd er jafnframt sá nýjasti en það er Lómur KE 67. Þessi bátur var smíðaður árið 2004 og hét þá Kristbjörg ST en kom suður árið 2006 og hét þá Guðfinnur KE. Þess má geta að þessi bátur var síðasti báturinn sem Sigurður Friðrikssson átti en hann gerði út stálbát sem hét Guðfinnur KE í hátt í 25 ár. Lengst af hét báturinn Örninn GK og hans aðalveiðarfæri hefur verið frá byrjun línuveiðar. Reyndar undir þessi nafni, Lómur KE, hefur báturinn einungis róið til makrílveiða. Aftur á móti er þetta nafn, Lómur KE, þekkt í Keflavík en nánar um það síðar.