Rúmfatalagerinn - 14. maí
Rúmfatalagerinn - 14. maí

Pistlar

Aðstæður fólks eru misjafnar
Föstudagur 30. apríl 2021 kl. 07:47

Aðstæður fólks eru misjafnar

Það var mjög áhugavert viðtal við körfuboltakonuna Daniela Wallen Morillo, sem leikur með Keflavík í Domino’s-deild kvenna, í Víkurfréttum nýlega. Orð hennar fær mann til að hugsa um hvaða kjör og aðstæður fólks í þessum heimi eru misjöfn. Hún er fædd í ­Venesúela en þar er hrikalegt ástand og stjórnarkreppa með tilheyrandi erfiðleikum fyrir íbúa landsins. „Ég vil vera hérna (á Íslandi) eins lengi og ég get. Heima eru mánaðarlaunin kannski fjórir bandaríkjadollarar (um 550 krónur) og fólk er í mörgum störfum til að lifa af, sem er erfitt. Ég hef vinnu og get sent fjölskyldu minni pening til að létta undir hjá þeim,“ sagði hún m.a. Aðspurð sagði hún að Covid-ástand þar í landi væri slæmt og færi versnandi og því gerði það fólki erfitt fyrir að vinna meira. Það tekur áhættu með því að fara að vinna og gæti þannig frekar smitast - en hefur lítið val því neyðin er svo mikil. Er á milli steins og sleggju.

Orð Danielu fá mann til umhugsunar um hvað við séum heppin að búa á Íslandi – og ég er á leið í bólusetningu. Það finnst mér magnað. Fyrir ári síðan, ekki löngu eftir að heimsfaraldur hófst, voru miklar takmarkanir vegna hans fram á síðasta sumar með tíðum aukabylgjum eftir það. Ekki hefði ég getað ímyndað mér að rúmu ári eftir að heimsfaraldur hófst væri ég að fá bólusetningu og sú framkvæmd virðist ganga vel á Íslandi. Við Íslendingar tókum þennan faraldur á kassann og höfum fylgt reglum þríeykisins með góðum árangri með fáum tilfellum. Við höfðum svo sem ekki mikið val en við höfum jú séð aðrar þjóðir tækla þetta stóra mál á annan hátt en við höfum gert. Heilbrigðisráðherra segir að eftir því sem bólusetningu miðar áfram mun takmörkunum létta og síðla júnímánaðar, þegar um 75% landsmanna verði bólusettir, verði takmörkunum aflétt, nema spritt og kannski grímur við einhver tilefni. Sá sem þetta ritar hlakkar til að hefja venjulegt líf, ef svo má segja, og í þeim viðtölum sem við höfum átt við nokkra lesendur að undanförnu kemur fram að það eru nær allir orðnir hundleiðir á Covid-19.

Sólning
Sólning

Nú þegar kófinu er að slota eru íþróttirnar ýmis á fullu eða að komast á fullt. Körfuboltinn verður fram í maí eða lengur og fótboltinn er að byrja að rúlla. Takmarkanir verða hvað varðar áhorfendur en munu breytast eftir því sem líður á sumar. Hundruð kylfinga hafa sótt golfvellina heima á síðustu dögum í byrjun sumars og er það vel. Hestamenn eru í góðum gír eins og fram kom í viðtali við Gunnar Eyjólfsson, formann Hestamannafélagsins Mána á Suðurnesjum, í VF í síðustu viku þannig að það er þokkalega létt yfir fólki þrátt fyrir slæma stöðu í atvinnumálum. Vonast er til að staðan lagist mikið með auknu flugi til Íslands. En talandi um íþróttir er vert að minnast á frábæran árangur tveggja Suðurnesjamanna í síðustu viku, sundfólksins Más Gunnarssonar sem setti heimsmet en hann er í skemmtilegu viðtali í Víkurfréttum í þessari viku og sundkonunnar Evu Margrétar Falsdóttur sem vann Íslandsmeistaratitil í þeim fjórum sundgreinum sem hún tók þátt í, á stærsta sundmóti ársins. Eva Margrét á framtíðina fyrir sér og stefnir hátt en hún þykir ein efnilegasta íþróttakona landsins.

Páll Ketilsson.