Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

„Þú reddar  þessu elskan“
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. júní 2022 kl. 08:10

„Þú reddar þessu elskan“

Sjómannsfrú í aldarfjórðung

Eðli málsins samkvæmt beinist kastljós sjómennskunnar á sjálfan sjómanninn en oft gleymist að á bak við hann standa eiginkona og börn og er minni gaumur gefinn að þeim hluta lífs sjómannsins. Hvernig er að hafa allt á sinni könnu þegar sjómaðurinn fer til að afla fyrir fjölskylduna en að reka heimili, sinna heimalærdómi og öllu öðru sem viðkemur týpísku heimilishaldi, er meira en að segja það fyrir einstakling. Því má segja að sjómannskonan þurfi að taka jafn mikið á honum stóra sínum og sjálfur sjómaðurinn. Ég hef heyrt útilegusjómenn tala um hversu „þægilegt“ það geti verið við brottför að segja einfaldlega við eiginkonuna: „Þú reddar þessu elskan.“ Sjómaðurinn er kominn í sitt verndaða vinnuumhverfi þar sem hlutirnir eru í ákveðinni rútínu og hvað gerist heima fyrir er eitthvað sem hann á erfitt með að sjá um þar sem hann er fjarverandi.

Valgerður Vilmundardóttir frá Grindavík hefur verið sjómannskona í „töttögu og femm ár“ en eiginmaður hennar, Ólafur Friðrik Eiríksson, er háseti á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni GK frá Grindavík. Valka, eins og hún er oft kölluð, segir okkur nú sögu sjómannskonu.

Public deli
Public deli

„Við Óli kynntumst árið 1986 en þá kom Óli á vertíð til Grindavíkur hjá Hópsnesi. Óli ætlaði að taka sér hálfárs hvíld frá framhaldsskóla og mætti í ársbyrjun þegar vertíð var að hefjast en á þessum tíma var hann týpískt borgarbarn sem þekkti ekki þorsk frá ufsa. Það lengdist í pásunni, hann var kominn aftur um haustið og það varð ekki aftur snúið. Við kynntumst og hófum búskap. Óli var fljótlega orðinn aðstoðarverkstjóri og sinnti því hlutverki þar til Hópsnes hætti landvinnslu árið 1992 og keypti frystitogarann Hópsnes. Óla bauðst staða á þessu nýja skipi og var í tvö ár. Þetta voru vissulega mikil viðbrigði fyrir mig, sjálf var ég útivinnandi og að sjálfsögðu jókst álagið á mér varðandi heimilishaldið en svona var þetta bara, maður þurfti bara að aðlagast þessum nýja veruleika.“

Fjölskyldumynd á fallegum stað, Ólafur og Valgerður og dæturnar Sigrún Elva og Kolbrún Dögg.

Þekkti varla pabba

Óli var í tvö ár á Hópsnesi en fór þá aftur í land og hóf störf hjá Bláa lóninu. Hann og Valgerður eiga dæturnar Sigrúnu Elvu og Kolbrúnu Dögg. Sigrún Elva, sem er fædd árið 1992, hafði á orði að hún þekkti varla pabba sinn á þessum árum en Óli vann mikið í Bláa lóninu og hefði allt eins getað verið á sjónum.

„Óli var í Bláa lóninu í sex ár. Hann var lítið heima svo kannski var það ekki svo mikill munur þegar hann hóf sjómennsku aftur árið 1998, á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni. Þetta var á þeim árum sem Hrafninn var lítið skip á mælikvarða frystitogara og til að hafa sómasamlegar tekjur, þá þurfti að róa marga túra og kom fyrir að hann var jafnvel níu mánuði á sjó, þrjá í landi. Ég viðurkenni fúslega að það var oft sem ég hálf öfundaði hann á morgnana þegar ég var að berjast við að koma Kolbrúnu Dögg minni í skólann. Að þurfa eingöngu að hugsa um sig sjálfan og mæta á sína vakt, standa sína plikt – en þegar erfiðum verkefnum mínum lauk þá var ég nú alltaf fljót að sjá hvers lags erfiði sjómannsstarfið er, ekki síst að þurfa vera fjarri fjölskyldunni sinni svona lengi. Þá langaði mig ekkert til að skipta við hann á hlutverkum. Þetta er á þeim tímum sem internet var ekki komið til sögunnar og í skipinu var bara einn sími, oft barist um að fá að hringja en í dag er þetta allt annað líf, þegar það er miklu auðveldara að eiga samskipti. Auðvitað geta fjarvistirnar tekið á og ég hef þurft að mæta í ófáar brúðkaupsveislurnar alein og þegar við fluttum eitt árið var Óli á sjó, eðlilega lenti þá allt á mér, að fá vini mína og hans til að hjálpa til.“

Jákvæð breyting

Aðbúnaður sjómanna hefur breyst gífurlega á undanförnum árum en árið 2014 var Hrafn Sveinbjarnarson lengdur og á sama tíma var Hrafni „föðurlausa“ lagt og búnar til tvær áhafnir. Þá breyttist róðralagið heldur betur en Óli réri mest fimm túra í röð á sínum tíma, bara með fjögurra daga fríi inn á milli, en við þessa breytingu árið 2014 varð til svokallað „einn og einn kerfi“, þ.e. að sjómaðurinn reri einn túr og var næsta í fríi. Valgerður upplifði það sem gífurlega jákvæða breytingu.

„Það var mjög jákvæð breyting þegar Óli fór að róa einn og einn, þá var líka allt árið skipulagt og ég gat vitað hvenær hann yrði í landi og eðlilega því auðveldara að skipuleggja fjölskyldufrí og annað. Ég myndi ekki vilja snúa aftur í gamla kerfið, það er nokkuð ljóst,“ segir Valka sjómannsfrú.