Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

„Sumrin á Vatnsleysuströnd við sjóinn næra mann ríkulega“
Föstudagur 24. september 2021 kl. 07:35

„Sumrin á Vatnsleysuströnd við sjóinn næra mann ríkulega“

Birgir Þórarinsson er oddviti Miðflokksins og hefur átt sæti á Alþingi frá 2017

Birgir Þórarinsson hefur átt sæti á Alþingi fyrir Miðflokkinn síðan 2017. Hann hefur síðustu sex vikurnar verið á fleygiferð í undirbúningi kosninganna en hann notaði sumarið líka til nokkurra vrka, m.a. að ljúka byggingu á Knarrarneskirkju sem er í túninu heima hjá honum. Við ræddum við Birgi á lokaspretti kosningabaráttu.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ferðaðist um hið fallega Suðurkjördæmi. Sinnti svolítið áhugamálinu sem er grjóthleðsla. Meginhluti sumarsins fór hins vegar í að ljúka við byggingu Knarrarneskirkju hér í túninu heima og undirbúa vígslu hennar. Ég tók á móti úkranískum listamanni og túlki hans. Þeir dvöldu hjá mér um nokkurn tíma og settu upp alla listmuni kirkjunnar, sem gerðir voru í Úkraínu. Kirkjan var síðan vígð 8. ágúst síðastliðinn. Það var stór dagur hjá okkur fjölskyldunni. Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og að lokinni athöfn vorum við með kirkjukaffi í hlöðunni.“

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

„Áhugi almennings á Knarrarneskirkju og vígslu hennar. Brúðkaup elsta sonar okkar í kirkjunni.“

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

„Skaftárhreppur og Vestmannaeyjar draga mig alltaf til sín. Annars er ég svolítið heimaríkur, sumrin hér á Vatnsleysuströnd við sjóinn með fuglalífinu og sólsetrinu næra mann ríkulega, til andar og sálar.“

Hver er helstu afrek þín á heimilinu í hverri viku?

„Uppvaskið. Síðan gríp ég nú svolítið í ryksuguna og sé svo um matarinnkaupin að stórum hluta.“

Uppáhaldsmatur?

„Það er að sjálfsögðu lambahryggurinn.“

Hver er þinn styrkur í matreiðslunni?

„Ætli það sé ekki bara að hvetja húsfrúnna til góðra verka! Annars er þetta svona þegjandi samkomulag okkar í milli um að ég sé liðtækastur í uppvaskinu. Þegar kemur að beikoni og eggjum, þá er ég góður.“

Notaðir þú sumarfríið eitthvað til að undirbúa kosningabaráttuna?

„Hluti sumarins fór í að ganga frá framboðslistunum og leggja megin línurnar. Við vorum síðan með landsþing í júní og framhaldslandsþing í ágúst.“

Hver er tilfinningin fyrir komandi alþingiskosningum og kosningabaráttunni?

„Okkur gengur vel hér í Suðurkjördæmi. Við erum búin að fara mjög víða og verið nánast stanslaust á ferðinni í sex vikur. Ég er með tvær öflugar konur með mér í 2. og 3. sæti. Við höfum haft gleðina að leiðarljósi enda skemmtilegasti tíminn í stjórnmálum að hitta kjósendur. Ég er bjartsýnn á gott gengi Miðflokksins hér í Suðurkjördæmi.“

Hver eru stærstu málin fyrir Suðurnesin sem þú setur í forgang?

„Frá því að ég var kosin á þing fyrir fjórum árum hef ég setið í fjárlaganefnd. Ég setti mér strax það markmið að rétta hlut Suðurnesja þegar kemur að fjárveitingum til opinberra stofnana, eins og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, lögreglunnar og Fjölbrautaskólans. Tillögur mínar um auknar fjárveitingar til Suðurnesja voru því miður allar felldar í þinginu af Sjálfstæðismönnum, Framsókn og Vinstri grænum. Það voru mikil vonbrigði. Kannski var ég svona grænn að halda að tillögur frá stjórnarandstöðuþingmanni yrðu samþykktar. Ég komst síðan fljótt að því að það er ekki sama hvaðan góðar tillögur koma í þinginu.

Ég gefst ekki upp og mun halda áfram að berjast fyrir Suðurnesin á Alþingi fái ég umboð til þess í kosningunum. Ég legg líka áherslu á að flytja eigi opinber störf til Suðurnesja. Í því sambandi hef ég t.d. nefnt Útlendingastofnun en þar starfa 86 manns. Ég legg áherslu á heilbrigðismálin, atvinnumálin og að Suðurnesin fái það sem þeim ber í fjárveitingum ríkisins.“

Hvert er draumaríkisstjórnarsamstarf þitt?

„Ég hef átt gott samstarf við alla flokka á Alþingi enda hef ég ávallt átt gott með að vinna með fólki. Ég legg að sjálfsögðu áherslu á að málefnin sem við í Miðflokknum stöndum fyrir fái brautargengi þegar kemur að ríkisstjórnarsamstarfi. Mér hugnast hins vegar ekki fjölflokka vinstri stjórn. Stjórnmálasagan hefur kennt okkur að þeim fylgir óstöðugleiki í efnahagsmálum aukin ríkisútgjöld og skattahækkanir. Það þarf að halda vel utan um ríkisfjármálin á næsta kjörtímabili það skiptir okkur öll máli. Ég vona að sjálfsögðu að Miðflokkurinn fái þann styrk sem þarf í kosningunum til að hafa áhrif. Við leggjum áherslu á framfarastjórn með stöðugleika í efnahagsmálum að leiðarljósi. Í stjórnmálum á aldrei að útiloka samstarf flokka fyrirfram. Á Íslandi búum við við samsteypustjórnir sem byggjast á málamiðlunum og samstarfi flokka þótt ólíkir séu.“