Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

„Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn, fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“
Föstudagur 3. maí 2019 kl. 18:29

„Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn, fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“

Frá fornu fari hefur 11. maí verið lokadagur vetrarvertíðar. Það er því vel við hæfi að knattspyrnudeild Reynis hefur ákveðið að blása til stórviðburðar þennan dag þegar vertíð sjómanna lýkur og vertíð knattspyrnumanna hefst með hækkandi sól.
 
Viðburðurinn fer fram í íþróttahúsinu í Sandgerði laugardagskvöldið 11. maí og búist er við miklum fjölda gesta enda dagskráin með veglegasta móti. 
 
Maturinn verður í hæsta gæðaflokki eins og Magnúsi Þórissyni og hans fólki á Réttinum er einum lagið. Boðið verður upp á steikar- og sjávarréttahlaðborð. Þess má geta að allar fiskvinnslur í Sandgerði leggja til hráefnið í sjávarréttina.
 
Hjörvar Hafliðason, fjölmiðlamaður, verður veislustjóri kvöldsins. Hjörvar er Sandgerðingum að góðu kunnur, enda sonur Hafliða Þórssonar sem lengi rak útgerð, fiskimjölsverksmiðju og fiskvinnslu í Sandgerði. Hjörvar á margar góðar minningar frá æskuárum sínum þar sem hann sem gutti vann í fiskvinnslu föður síns við Strandgötuna í Sandgerði. 
 
Ari Eldjárn sér um að kitla hláturtaugar gesta af sinni alkunnu snilld.
 
Gjörningalistahópurinn „Mígðu í saltan sjó“ sem samanstendur af hressu ungu fólki úr Sandgerði hefur sett saman óborganlegan myndbandsannál með því helsta sem gerðist í bæjarlífinu í Sandgerði síðasta árið eða svo.
Ingó veðurguð leiðir „brekkusöng“ áður en ballið byrjar og má fastlega búast við því að áherslan verði talsverð á klassíska sjóarasöngva.
 
Kvöldið endar svo á stórdansleik með Stuðlabandinu.
 
Það er von knattspyrnudeildarinnar að Suðurnesjafólk flykkist á viðburðinn sem nú er haldinn í fyrsta sinn. Öll nágrannabyggðarlögin á Suðurnesjum halda árlegt þorrablót og langar deildinni að fara aðrar leiðir í stað þess að ryðjast inn á þorrablótsmarkaðinn. Það verður ekkert til sparað til að hafa viðburðinn sem eftirminnilegastan og vonir standa til þess að viðburðurinn festi sig í sessi og verði haldinn árlega hér eftir.
 
Nánari upplýsingar á fésbókinni, Vertíðarlok 2019 og miðasalan fer fram á [email protected]
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024