Mannlíf

„Ræktum“ saman Jólagarðinn
Fimmtudagur 19. nóvember 2020 kl. 06:18

„Ræktum“ saman Jólagarðinn

Opið fyrir umsóknir um styrki og sölukofa

Reykjanesbær ýtir nú úr vör nýju verkefni sem gefið hefur verið heitið Jólagarðurinn. Segja má að Jólagarðurinn leysi af hólmi tendrun ljósanna á vinabæjartrénu á Tjarnargötutorgi. Hugmyndin er að að skreyta Ráðhústorgið og hluta skrúðgarðs með fallegum ljósum ásamt því að koma fyrir nokkrum jólakofum fyrir íbúa að selja varning tengdan jólum.

Þessu til viðbótar er stefnt að því að í garðinum verði boðið upp á dagskrá af einhverjum toga á opnunartíma hans, sem verður alla laugardaga í desember og á Þorláksmessu. Vegna ástandsins er þó ljóst að ekki mun verða um að ræða stóra viðburði sem kalla á samsöfnun margs fólks heldur litlar og óvæntar uppákomur til að gleðja gesti og gangandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hver vegferð hefst á einu skrefi — Fyrst og síðast samvinnuverkefni

Jólagarðurinn er fyrst og síðast samvinnuverkefni bæjarins og íbúa. Hvað selt verður í kofunum ræðst af því hverjir óska eftir söluplássi og dagskráin sem boðið verður upp á í garðinum ræðst af því hverjir gefa kost á sér til að standa fyrir viðburðum.

Til að hvetja íbúa til beinnar þátttöku í verkefninu eru sölukofar boðnir endurgjaldslaust auk þess sem styrkir eru í boði fyrir þá sem vilja standa fyrir einhvers konar dagskrá. Hægt er að sækja um styrki og pláss í sölukofum til 22. nóvember og er sótt um á vef Reykjanesbæjar.

Í ár búum við við afar sérstakar aðstæður en með bjartsýnina að leiðarljósi er stefnt að góðri og gefandi aðventu. Öll dagskrá tekur þó mið af gildandi reglum um samkomutakmarkanir og sóttvarnir.

Það er von þeirra sem að Jólagarðinum standa að vel takist til með þetta fyrsta skref og að við byggjum upp skemmtilegt og lifandi jólaverkefni saman til framtíðar.