Mannlíf

„Myndavélin hefur leitt mig í mikil ævintýri“
Einar Falur með 4x5 tommu plötumyndavélina sem hefur verið hans aðaltæki í persónuegum verkefnum í meira en áratug.
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
sunnudaginn 26. desember 2021 kl. 09:53

„Myndavélin hefur leitt mig í mikil ævintýri“

Einar Falur Ingólfsson er bókmenntanörd og ljósmyndari sem víða hefur komið við

Einar Falur Ingólfsson á 40 ára starfsafmæli sem blaðamaður og ljósmyndari hjá Morgunblaðinu í vor. Einar Falur fékk snemma áhuga á blaðamennsku og ljósmyndun sem lítill strákur í Keflavík. Hann hefur komið víða við á sínum ferli, hefur gefið út fjölmargar bækur og haldið ljósmyndasýningar víða um lönd. Einar Falur hefur mikinn áhuga á menningarsögulegum þáttum samfélagsins og tengslum fólks við umhverfi sitt sem endurspeglast í verkum hans.

Bókanörd sem las alla barnadeildina á bókasafninu

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Sem krakki hafði ég alltaf gaman af því að lesa og gerði varla annað, ég var ýmist inni hjá mér eða á bókasafninu hjá Hilmari Jónssyni og las. Ég fór gjarnan daglega á safnið og sótti sex bækur til að lesa, ég man að ég móðgaðist ógurlega þegar Hilmar spurði mig þá átta eða níu ára gamlan hvort ég skoðaði bara bækurnar en læsi þær ekki,“ segir Einar Falur. „Ég var algjört nörd í þessum lestri, ég var með röð af bókum fyrir framan mig og las kannski tíu blaðsíður í einni bók og síðan tíu í þeirri næstu – ég vildi ná þeim öllum.“  

Á bókasafninu sem þá var á Mánagötu var sérstakt barnaherbergi og þar byrjaði Einar Falur á því að lesa bækurnar í stafrófsröð, frá Öddu bókunum og þannig náði hann að klára alla barnadeildina. „Þegar ég var átta eða níu ára keyptu foreldrar mínir allt Halldórs Laxness safnið og auðvitað las ég það þó að ég skildi auðvitað ekki allt sem Nóbelskáldið hafði að segja.“

Góður kennari sem hafði sterk áhrif á mig

Í Barnaskólanum í Keflavík, núna Myllubakkaskóla, kenndi Axel Gísli Sigurbjörnsson kennari  Einari Fal ljósmyndun og framköllun mynda í myrkraherbergi. „Hann kynnti fyrir okkur krökkum töfraheim myrkursins,“ segir Einar Falur.  „Fyrst var ég með einhverja vasamyndavél sem var til á  heimilinu og horfði með öfundaraugum á þá stórkostlegu Canon F1 myndavél sem Axel átti, draumagræju ljósmyndarans þá.“ Að sögn Einar Fals var Axel ótrúlega natinn og passasamur við að kenna og einnig treysti hann nemendunum fyrir græjunum í myrkraherberginu. „Þarna vorum við oft eftir skóla og ég féll algjörlega fyrir þessum heimi þar sem ég gat skapað, séð eitthvað mótast og verða til.“ 

Þarna var Einar Falur um ellefu til tólf ára gamall kominn með mikinn áhuga fyrir fréttaljósmyndun og blaðamennsku og var einnig farinn að skoða aðra ljósmyndara sem höfðu áhrif á hann og urðu síðar fyrirmyndir í lífinu. 

Fermingarpeningarnir vel nýttir

Fyrir fermingu var Einar Falur farinn að mynda töluvert en var alltaf með frekar lélega myndavél. Það breyttist síðan eftir ferminguna. „Fyrir fermingarpeningana keypti ég mér síðan góða myndavél, Olympus OM10 sem var mjög góð myndavél á þeim tíma.“ Í gagnfræðaskólanum tók Einar Falur þátt í skólablaðinu Stakk og varð einn ritstjóra þess. Ljósmyndunin hélt síðan áfram í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þá fór Einar Falur einnig að kenna ljósmyndun og framköllun mynda í myrkraherberginu á námskeiðum.

Verður fréttaritari Morgunblaðisins fimmtán ára gamall

„Ég fór í starfskynningu fimmtán ára gamall til Morgunblaðsins, þar lærði ég að skrifa fréttir og fékk að fylgjast með blaðamönnum og ljósmyndurum vinna. Sumardaginn fyrsta fékk ég það verkefni að mynda hátíðarhöld í Breiðholtinu, ég fann út úr því hvernig ég ætti að komast þangað með strætó þar sem ég tók myndir. Síðan var farið á Moggann í Aðalstræti og framkallað. Daginn eftir birtist mín fyrsta mynd í Morgunblaðinu.“ Þetta var í apríl 1982 og þennan sama dag var Einari Fal boðið að gerast fréttaritari í Keflavík. Það vantaði fréttaritara í Keflavík á þeim tíma en það fyndna var að Einar Falur leysti Ingólf Falsson, pabba sinn, af hólmi sem hafði sinnt starfinu en gefið það frá sér vegna anna.

Samhliða náminu í FS var Einar að vinna sem fréttaritari hjá Morgunblaðinu sem gat verið flókið, hann var mest á þeim tíma að taka íþróttamyndir sem að hans mati er besta þjálfun sem ljósmyndari getur fengið í því að læra að ramma inn myndir og fanga augnablik í hraða leiksins. „Draumurinn við þetta starf var að fá tækifæri á því að fá að fylgjast með hetjunum mínum og fyrirmyndum í ljósmyndun, sem var fólkið á ljósmyndadeild Moggans. Þetta gat verið flókið því oft var ég að mynda íþróttaleiki á kvöldin og stundum gat ég komið filmum á morgnana með rútu til Reykjavíkur þar sem þær voru pikkaðar upp af sendli frá Mogganum. Eftir að ég fékk bílpróf brunaði ég oft með filmurnar í bæinn í framköllun fyrir skóla, fór svo strax aftur til Keflavíkur í skólann og keyrði síðan aftur í bæinn eftir skóla til að kópíera myndir og jafnvel skrifa fréttir áður en ég fór aftur heim um kvöldið.“ 

Þarna fékk Einar Falur að vera í návistum við Ólaf K. Magnússon sem var stofnandi ljósmyndadeildar Morgunblaðsins, fyrsti menntaða blaðaljósmyndarinn, og lærði mikið af honum. „Síðan var þarna 22 ára kall sem síðar átti eftir að hafa mikil áhrif á mig sem ljósmyndara og verða góður vinur minn, Ragnar Axelsson – RAX.“

Einar Falur útskrifaðist síðan fyrstur nemenda af fjölmiðlabraut frá FS árið 1986. „Sumarið áður hafði ég byrjað í fullri vinnu sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu og flutti alfarið til Reykjavíkur nítján ára.“

Einar Falur aðstoðar námumenn djúpt í fjallinu Cerro Rico í Bólivíu árið 1995, vopnaður hamri og meitli eins og þeir hafa unnið um aldir. 

Frásögn um námurnar má lesa í bókinni Án vegabréfs.

Bókmenntafræði í Háskólanum 

Þegar Einar Falur var nítján ára þá skráði hann sig í bókmenntafræði í Háskóla íslands en þar var þegar góður vinur hans fyrir, Jón Kalman Stefánsson rithöfundur. Hann kláraði námið á þremur árum og eignaðist um leið góðan vinahóp sem hefur haldið sambandi síðan þá.

„Samhliða náminu starfaði ég hjá Morgunblaðinu en að loknu námi kom ég inn í fullt starf sem menningarblaðamaður. Þá starfaði ég með öðrum Keflvíkingi, Súsönnu Svavarsdóttur, og á þeim tíma var gefið út veglegt menningarblað um helgar. Þá skrifaði ég helminginn af blaðinu og tók allar myndirnar, hvort sem þær voru úr menningarlífinu eða fyrir viðtöl,“ segir Einar Falur.

Námskeið í Frakklandi sem mótaði líf mitt

„Líf mitt breyttist þegar ég er um 21 árs gamall. Góðir ljósmyndavinir mínir, þeir Páll Stefánsson og Ragnar Axelsson, höfðu báðir sótt ljósmyndanámskeið til Bandaríkjanna hjá Mary Ellen Mark sem er einn af frægustu heimildaljósmyndurum sögunnar. Námskeiðið hafði haft mikil áhrif á þá og þeir vildu endilega að ég kæmist á annað slíkt hjá meistaranum. Það tókst sumarið 1988 og var námskeiðið haldið í Frakklandi. Þetta vikunámskeið breytti lífi mínu. Mary Ellen hafði þannig áhrif á mig með sinni leiðsögn og einstaka persónuleika að stefna lífsins var mótuð og í raun var svolítið merkilegt að sjá það gerast.“

Nám í Bandaríkjunum og ný staða hjá Morgunblaðinu

Þeir þrír félagar buðu síðan Mary Ellen Mark ásamt eiginmanni að koma til Íslands árið eftir þar sem hún hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands. „Vinátta okkar styrktist mikið með þessari heimsókn og síðan gerist það að árið eftir hvatti hún mig til að fara í ljósmyndanám erlendis.“ Fyrir hennar tilstuðlan þá fluttu þau hjónin, Einar Falur og Ingibjörg Jóhannsdóttir, kona hans, til New York og fóru bæði í mastersnám þar, þar sem Einar lærði ljósmyndun og myndstjórnun við virtan skóla, School of Visual Arts. „Á meðan ég var í náminu var ég að vinna í lausamennsku fyrir íslenska fjölmiðla auk erlendra verkefna, m.a. sem svokallaður „master printer“ fyrir einn af frægustu tískuljósmyndurununum, Patrick Demarchelier. Þarna fékk ég mjög áhugaverð innsýn inn í heim sem ég áttaði mig á að væri ekki minn tebolli en var samt mjög skemmtileg reynsla.“

Líkleg hefðum þau hjónin ílengst eitthvað lengur í New York ef ekki hefði verið fyrir atvinnuboð frá Morgunblaðinu sem Einar Falur fékk fyrir nýrri stöðu hjá blaðinu árið 1995, þ.e. að verða myndstjóri. Venja er hjá erlendum dagblöðum að hafa bæði fréttastjóra sem hefur umsjón með textanum og myndstjóra sem hefur umsjón með myndum í blaðinu og bar þá einnig ábyrgð á ljósmyndadeildinni og öllum myndum sem birtust í blaðinu. 

Einar Falur sinnti þeirri stöðu til ársins 2007 en þá fannst honum kominn tíminn til að vinna meira í sinni eigin sköpun, hætti sem myndstjóri en vann áfram á menningardeildinni sem blaðamaður.

Eigin sköpun og útgáfa

Ljósmyndaverkefnin sem Einar Falur hefur farið í eða tekið að sér hafa verið stór og tímafrek, tekið um þrjú, fjögur ár hvert og hafa yfirleitt endað á bókaútgáfu og sýningum. 

„Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, bauð mér árið 2006 að halda ljósmyndasýningu í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum árið 2007 á Ljósanótt. Ég sótti um starfslaun listamanna og fékk úthlutað þremur mánuðum í verkefnið. Ég fékk launalaust leyfi frá Mogganum og hætti þá sem myndstjóri. Einar Falur kallaði verkefnið Aftur þar sem hugmyndin var að snúa aftur á heimaslóðirnar í Keflavík og mynda þær út frá bernskuminningum. 

„Ég skrifaði tökuhandrit og hvað ég ætlaði að gera, þ.e. finna slóðir bernsku minnar út frá minningum. Ég fékk leyfi til að fara inn á gömlu heimilin mín og mynda gömlu herbergin mín, ég leitaði að gömlum skólafélögum, kennurum og ættingjum. Ég ákvað að mynda allt á stóra viðarmyndavél með 4x5 tommu litfilmublöðum en það krefst hægra og vandaðra vinnubragða þar sem maður planar allt vel fyrirfram því það er dýrt að taka hverja einustu mynd.“

Verkin voru síðan sýnd á Ljósanóttinni 2007 og víðar eftir það, bæði hérlendis sem erlendis. 

Hefur ekki litið um öxl

Einar Falur hefur verið að vinna að stórum og viðamiklum verkefnum síðan 2007. Sögustaðir var eitt þeirra verkefna sem varð að sýningu á Listahátíð 2010 og veglegri bók. „Þar vann ég verkefni eftir vatnslitamyndum sem breski málarinn W.G. Collingwood gerði árið 1897 í Íslandsheimsókn sinni.“ Úr varð mjög stór sýning sem opnaði í Þjóðminjasafninu og hefur síðan verið sett upp víða um lönd, stærsta útgáfan var i Scandinavia House í New York 2012. 

„Síðan gerði ég systurverkefni, Landsýn, út frá verkum Johannes Larsen sem var danskur listamaður sem vann hér tvö sumur á Íslandi árin 1927 og 1930 og teiknaði yfir 300 myndir sem voru notaðar sem myndskreytingar í danskri nútíma útgáfu af Íslendingasögum.“

Þriðja verkefnið sem Einar Falur gerir út frá látnum listamanni er verkefni sem hann byrjaði á í sumar. Verkefni snýst um fyrsta íslenska ljósmyndarann og einn af þeim bestu að mati Einars Fals, Sigfús Eymundsson. „Ég kem til með að vinna út frá ljósmyndunum hans, í samvinnu við Þjóðminjasafnið, og er stefnt að sýningu þar árið 2024. Núna mun ég vinna að þessu verkefni í þrjú ár og mynda á sumrin. Síðan fer ár í að gera bókina og undirbúa sýninguna. Ég er nörd, geri handrit og endalausar vinnubækur, plön og skissur,“ bætti Einar Falur við.

Einar Falur er núna að leggja lokahönd á verkefni sem er dagbók yfir tuttugu mánaða tímabil, „Um tíma“ heitir það. Þar fjalla ég um líf mitt og fjölskyldunnar og skoða líka minn menningarsögulega bakgrunn, ber að vissu leyti hinn einsleita íslenskan menningarheim saman við stórar menningarmiðjur á heimsvísu.“

Sýningin opnar 15. janúar 2022 í einu af virtustu galleríum landsins, Berg Contemporary og um leið kemur út bók um verkefnið. „Þar stilli ég saman mínu eigin lífi og fjölskyldunnar á Íslandi og myndum m.a. frá elstu borg Indlands, Varanasi, þar sem ég hef unnið talsvert á vinnustofu síðustu ár, og Róm þar sem er hin gamla kristna miðja íslenskrar menningar og Egyptalandi. Þarna stilli ég Íslandi á móti þessum þremur gömlum og mikilvægum menningarkjörnum.“

Fjölbreytt útgáfa bóka

Einar Falur er ennþá að vinna fyrir Moggann, er þar yfir menningardeildinni en tekur síðan launalaus leyfi á sumrin til að vinna að eigin verkefnum. „Þá helli ég mér vel undirbúinn í sköpunina og hef verið svo heppinn að fá listamannalaun í þrjá eða sex mánuði svona annað hvort ár. Án slíkra launa væri afar lítil atvinnumennska í listum hér á landi.“

Einar Falur hefur á ferðum síðum erlendis haldið dagbók og gaf út fyrir nokkrum árum frá sér bókina „Án vegabréfs“ sem er samansafn skrifa um ferðir hans víða um heiminn ásamt myndum, t.d. segir þar af ferð á norðurpólinn að sækja Harald Örn pólfara, ferð í silfurnámur í Bólivíu, þegar hann kynnti sér hátt í mánuð virkjanaframkvæmdir í Kína, heimsótti Íslendingadaginn í Kanada, páska í Færeyjum, gekk um Inkastíginn í Perú – og svo er frásögn um gríðarmikla trúarhátíð í draumalandi hans, Indlandi. Einar Falur hefur á síðustu tuttugu árum átt myndir og eða textann í ellefu bókum um áhugamálið sitt, fluguveiði. 

Vel skipulagður nörd

„Bakgrunnur minn í bókmenntum og ljósmyndun hefur áhrif á hvernig ég vinn og hver afurðin verður úr verkefnunum. Ég vinn eins og kvikmyndagerðarmaður og fylgi eftir tökuhandriti. Ég leggst í nördarannsókn fyrir stóru verkefnin. Finn réttu nálgunina fyrir hvert skot, finn rétta tóninn – finn minn tón.“ 

Afraksturinn fyrir Einari Fal þarf að vera áhugaverð samtíma myndlist í þessum geira ljósmyndunar sem hann er að vinna innan. „Áhugi minn liggur í þessu menningarsögulega, sögunni og tengslum fólks við umhverfið og samfélagið.“

„Ég hef gaman af ummerkjum um fólk í landinu og af landinu. Við fórum oft saman í ljósmyndaferðir, ég, Páll og Raxi, og í þessum ferðum tókum við gjörólíkar myndir. Páll, þessi stórkostlegi formræni landslagsljósmyndari, tók myndir af fjöllunum fyrir framan okkur. Raxi var síðan tíu metra frá honum með hest í forgrunn sem var skellihlægjandi og ég tók síðan myndir af þeim tveimur á meðan þeir voru að mynda. Þannig gátum við allir náð áhugaverðum myndum en samt gjörólíkum.“ 

Samhliða öllum þessum verkefnum hefur Einar Falur kennt í Ljósmyndaskólanum frá því hann kom frá New York og er einnig reglulega með ljósmyndanema frá Tækniskólanum í starfsnámi. 

Margs að minnast eftir langan ferli

Ýmislegt eftirminnilegt hefur gerst hjá Einari Fal á þessum langa starfsferli sem ljósmyndari og í ferðum hans hérlendis sem erlendis. „Einu sinni var ég að mynda í verkefninu með  Johannes Larsen og var staddur við Goðafoss þar sem ég var með stóru spýtuvélina og með rauðan flauelsdúk yfir höfðinu að finna rétta rammann og stilla fókusinn. Ég var að einbeita mér að þessu þegar dóttir mín bankar á bakið á mér og segir mér að líta aftur fyrir mig. Þar standa tíu Asíubúar sem bíða eftir því að ég klári svo þeir komist á staðinn sem ég var á því auðvitað hlaut ég að hafa fundið gott sjónarhorn með þessa stóru myndavél. Ég hlaut að hafa fundið besta staðinn til að mynda.“ 

Einn stórkostlegasti dagur sem Einar Falur hefur upplifað var á stærstu trúarhátíð heims á Indlandi. Það var mikið mál að komast á staðinn sem krafðist töluverðs undirbúnings. 

„Mig hafði dreymt um það í átta ár að komast á þessa stærstu trúarhátíð Indverja, 24. janúar árið 2001, Kumbh Mela hátíðina. Tveimur árum áður hafði ég pantað pláss í tjaldbúðum fréttamanna. Ég lagði af stað í ferðina innan Indlands viku fyrir hátíðina og var ferðin á áfangastaðinn mjög erfið. Aldrei í sögunni hefur jafn margt fólk verið saman komið á einum stað á einum tíma og degi. Ég var mjög þakklátur fyrir að fá að upplifa atburð sem þennan, forréttindi sem ljósmyndari að fá að vera á þessum stað með öllu þessu fólki,“ segir Einar Falur. „Myndavélin hefur leitt mig í mikil ævintýri og fyrir það er ég þakklátur.“

„Við Vogaafleggjarann, 2007“. Úr myndröðinni Aftur, sem fyrst var sýnd í Listasafni Reykjanesbæjar haustið 2007.

Einar Falur og pólfarinn Haraldur Örn Ólafsson saman á Norðurpólnum vorið 2000.

Úr verkefninu Sögustaðir – Í fótspor W.G. Colingwood. Vatnslitamynd eftir Collingwood frá 19. júní 1897 og ljósmynd Einars Fals frá 29. júní 2009.

Á Kumbh Mela trúarhátíðinni við Allahabad á Indlandi á helgasta degi hindúa í 144 ár, 24. janúar 2001. Um 30 milljónir manna voru þar saman komnar.