Mannlíf

„Ljómandi“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 17. júlí 2020 kl. 08:10

„Ljómandi“

„Síðustu ár höfum við fjölskyldan oftar en ekki farið til Húsavíkur og spókað okkur í kringum Tjörneshrepp og Öxarfjörðinn. Ég geri ráð fyrir því að við látum okkur ekki vanta þar þetta sumarið,“ segir Jón Björn Ólafsson í netspjalli við Víkurfréttir.

– Nafn:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jón Björn Ólafsson.

– Árgangur:

1980.

– Fjölskylduhagir:

Giftur Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur og saman eigum við þrjú börn, 11, 8 og 5 ára.

– Búseta:

Reykjanesbær.

– Hverra manna ertu og hvar upp alinn:

Foreldrar mínir eru Rósa Ingvarsdóttir og Ólafur Björnsson, er uppalinn Njarðvíkingur með snarpri viðkomu á Ólafsfirði.

– Starf/nám:

Starfa hjá Íþróttasambandi fatlaðra sem íþrótta- og fjölmiðlafulltrúi. Hef lokið BA námi í íslensku og fjölmiðlafræði og MBA námi frá HÍ.

– Hvað er í deiglunni?

Að taka virkan þátt í pottasumrinu mikla, vonandi ná inn nokkrum veiðidögum og svo ætlum við fjölskyldan að elta góða veðrið í júlímánuði eða helst að láta það elta okkur í Njarðvíkurnar.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Líklega erfiður einhverjum kennurum en ég klóraði mig nú í gegnum þetta. Alla vega uppátækjasamur með eindæmum.

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Þau voru skemmtileg í FS. Í framhaldsskólanum fór maður loks að spýta aðeins í lófana hvað námið varðar.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Ég ætlaði mér alltaf að spila í NBA deildinni. David Stern heitinn og félagar voru greinilega ekki jafn meðvitaðir um það og ég svo það varð ekkert úr þessu, það kemur kannski seinna bara.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Peugeot Forever Sport 205, staðgreiddur og með topplúgu sem var þrír fjórðu af bílnum. Silkimjúk kerra sem mér þótti afskaplega vænt um.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Ég held mig ennþá við ljónið á veginum ... sætin eru bara orðin sjö.

– Hver er draumabíllinn?

Það er einhver illskeyttur BMW. Þjóðverjinn kann þetta.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

He-Man-kallarnir mínir og veiðistöngin.

– Besti ilmur sem þú finnur:

Það keppir fátt við nýsleginn knattspyrnuvöll þannig að mér er gervigras ekki að skapi en skil auðvitað þörfina á því hérlendis. Þá er alltaf einhver sérstakur ilmur í loftinu þegar maður mætir á bikarúrslit í körfunni í Laugardalshöll, það ætti að setja það á flöskur og selja.

– Hvernig slakarðu á?

Úti í rennandi vatni með veiðistöngina eða á pallinum í sælunni á Gónhóli 27.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Ég hef alltaf haft gaman af vel flestum tónlistarstefnum og straumum. Saurján ára var ég örugglega með einhverja sveitaballamúsík í gangi í bland við þess tíma bófarapp.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Starfsárin hjá Queen.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég legg alltaf vel við hlustir þegar Of Monsters and Men eru að senda eitthvað nýtt frá sér. Þá er ég alltaf jafn undrandi á því hvað við eigum margt efnilegt tónlistarfólk hér á Íslandi, það er meiriháttar!

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Mamma og pabbi hafa alltaf verið tveir svalir kettir þegar kemur að tónlist. Mamma spilaði mikið m.a. Tommy rokkóperuna og pabbi var Pink Floyd-maður. Ég kynntist Queen í gegnum þau og hef verið hrifinn af bandinu síðan þá.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Ég plokka annað slagið í gítarinn minn en ætti að gera meira af því.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Við fjölskyldan erum tiltölulega ný á Netflix og það er í þónokkurri notkun þessa dagana.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Íþróttum í beinni og þá helst Domino’s-deildinni.

– Besta kvikmyndin:

The Neverending Story.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Njála og Króka-Refs saga eru ofarlega en það gengur víst eitthvað hægt að staðfesta höfunda þeirra merku rita.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Kasta flugu.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Lambahryggur og hvítlaukshumar.

– Hvernig er eggið best?

Í hræru nú eða í einum „sour”.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Gjörðir þurfa að fylgja orðum fastar að.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Skeytingarleysi við náungann.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Margt gott til í þessum efnum, sá þessa línu í bók fyrir skemmstu: „Hver maður skapar sína eigin merkingu, form og takmark.“ (Howard Roark)

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Ætli það séu ekki minningarbútar af okkur mömmu og pabba á Hjallavegi og líka á Vatnsnesvegi. Svolítið ljóslifandi minningin þegar ég læsti mig sem smágutti inni á baði og missti lykilinn ofan í niðurfallið á baðinu. Til allrar hamingju var það einn af topp tíu markvörðum Íslandssögunnar, Steini Bjarna, með enn eina toppframmistöðuna og bjargaði mér af baðherberginu.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Ljómandi.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Líklega beint inn í Örlygsstaðabardaga eða eitthvað um þann tíma. Mikið held ég að það hafi verið gaman að sjá Ísland í startholunum.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Út í heim.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Ætla að velja Eric Clapton, ég myndi hefja daginn á að plokka strengjabrettið svo úr því rjúki og veiða svo í Laxá í Ásum fram á kvöld. Það ætti að þjóna mínum eigin hagsmunum ágætlega. Til þess að aðrir hefðu gagn af þessum óvæntu líkamsskiptum þá kæmi líka til greina að vera núverandi Bandaríkjaforseti og hafa það fyrsta verk eftir morgunbollann að segja af mér.

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Ég myndi bjóða Kára Stefánssyni til að tryggja beittar umræður og góðan húmor. Andrew Strong, söngvari The Commitments, fengi boð því þetta er jú kvöldverður en rúsínan í pylsuendanum væri söngur hans við eftirréttinn. Síðast en ekki síst myndi ég vilja fá Gunnar Dal í matarboðið því hann myndi sjá til þess að Kári, Andrew og ég færum betri menn út í nóttina. 

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Sem eina stóra áskorun sem við ætlum öll að klára saman með stæl. Áfram veginn.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, ég er almennt bjartsýnn og ég þykist viss um að veðurguðirnir gefi okkur þónokkra bongódaga á næstu vikum og mánuðum. Þá hef ég ofurtrú á okkur Íslendingum, COVID-19 og fylgifiskar faraldursins munu ekki knésetja okkur frekar en nokkuð annað.

– Hvað á að gera í sumar?

Ferðast um landið mitt með fjölskyldunni og ná inn nokkrum veiðidögum og já svo var víst einhver hellingur sem ég ætlaði að gera í garðinum heima hjá mér og það er bara verk í vinnslu eins og þeir segja.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Síðustu ár höfum við fjölskyldan oftar en ekki farið til Húsavíkur og spókað okkur í kringum Tjörneshrepp og Öxarfjörðinn. Ég geri ráð fyrir því að við látum okkur ekki vanta þar þetta sumarið.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Ég myndi byrja með þau í fordrykk á Brúin bar á Courtyard by Marriott hótelinu, eftir það færum við Blue Diamond-túrinn og tækjum eins marga áfangastöði á honum og hægt er að koma við á einum degi. Eftir góðan Blue Diamond-túr væri förinni heitið beint niður í bæ í kvöldverð.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu …

... til Margaret River á suðvesturhorni Ástralíu. Almættið var í sínu fínasta pússi þegar það púslaði Margaret River saman.