Mannlíf

Yndislegt að upplifa eldgos í svona nálægð
Hjónin Sigurður Stefánsson og Hildur Bjarney Torfadóttir með strákana sína á gosstöðvum um liðna helgi.
Laugardagur 3. apríl 2021 kl. 14:18

Yndislegt að upplifa eldgos í svona nálægð

Sigurður Örn Stefánsson, eigandi og framkvæmdastjóri Köfunarþjónustu Sigurðar ehf., fór með fjölskylduna í ljósaskiptunum að eldstöðinni í Geldingadölum. Magnað ævintýri segir hann í samtali við Víkurfréttir.

– Hvernig á að halda upp á páskana?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Eiga gæðastund með fjölskyldunni, borða góðan mat og mikið af súkkulaði. Ef veður leyfir förum við til fjalla og leyfum orkuboltunum okkar að renna sér og leika í snjónum.“

– Eru hefðir hjá þér um páskana eða páskamat?

„Engar sérstakar hefðir nema fela páskaeggin og vera sama. Við fórum einu sinni til Tælands í páskafríinu og ákváðum að gera það framvegis á páskunum, við náðum því tvisvar og svo skall Covid á.“

– Hvað hefðir þú gert þessa páska ef ekki væri fyrir þetta ástand í heiminum?

„Við fjölskyldan hefðum líklegast farið til Tælands.“

– Hvernig er uppáhaldspáskaeggið þitt?

„Ég á mér ekki neitt uppáhaldspáskaegg en eggið sem ég ætla að prufa í ár er Appolo lakkrísbitapáskaeggið.“

– Uppáhaldsmálsháttur?

„Enginn er verri þótt hann vökni.“

– Hvað viltu segja um nýju takmarkanirnar.

„Ég er ánægður með ákvörðunina hjá stjórnvöldum að taka hart á málunum.“

– Ertu búinn að fara á gosstöðvarnar?

„Já, við fjölskyldan fórum seinnipart dags og náðum ljósaskiptunum. Þetta var alveg magnað ævintýri og yndislegt að fá að upplifa eldgos í svona mikilli nálægð.“