Mannlíf

Yndislegt að alast upp í Höfnum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
sunnudaginn 29. september 2019 kl. 08:33

Yndislegt að alast upp í Höfnum

segir Páll Eggertsson sem ólst upp í Höfnum á Reykjanesi

„Einu sinni Hafnamaður, alltaf Hafnamaður, það má með sanni segja. Þegar maður rifjar upp æskuárin í Höfnum er margs að minnast, það var yndislegt að alast þar upp. Þá var skóli starfræktur þar en svo kom að því að skólinn var lagður niður og okkur krökkunum var ekið til Njarðvíkur í skólann þar. Síðasti kennarinn í Höfnum var Aðalsteinn Hallsson, mjög merkilegur maður. Það var hann sem hannaði og stóð að byggingu leikvallarins sem var rétt við Njarðvíkurskóla. Ég man bara hvað maður var heillaður að sjá hve flottur og framúrstefnulegur þessi leikvöllur var,“ segir Páll Eggertsson þegar hann rifjar upp æskunar sem VF bað nokkra íbúa í Reykjanesbæ að gera í tilefni af 25 ára afmæli bæjarins á þessu ári.

Krakkarnir í götunni

„Við lékum okkur í götunni í allskonar leikjum sem flestir þekkja eins og fallin spýta, pílu, kíló en svo var einn leikur sem krakkar annars staðar frá könnuðust ekki við. Hann kölluðum við troll troll í landhelgi en hann gekk út á það að það varð að vera komið myrkur og þá förum við út á tún, dreifðum okkur og allir voru með eldspítur. Við kveiktum á eldspítunum og hentum henni upp í loftið og kölluðum: „Troll, troll í landhelgi!,“ og það var einn og stundum tveir að leita að hinum.“

Þá var stutt á fengsæl mið

„Nálægðin við sjóinn heillaði, að veiða, fara í bátaleik, smíða kajak og róa þeim. Ég man þegar trillurnar komu í land við litlu bryggjuna og karlarnir hentu öllum fiskinum upp með stingum og svo upp á Austin vörubíl. Síðan var aflanum ekið upp í fjöru, í gamlar tóftir sem þar voru. Þá fóru sjómennirnir að gera að afla sínum, hver fyrir sig, fletja og síðan að salta, allt undir berum himni. Já, þetta voru langir vinnudagar hjá þessum hörkukörlum sem fóru aftur á sjó á milli klukkan sex og sjö næsta morgun. En nú er hún Snorrabúð stekkur þykir mér, um 1970 voru um það bil 25 trillur að róa frá Höfnum en nú er engin útgerð lengur frá Höfnum, bryggjan lokuð, sorglegt að sjá því þaðan var gott að róa á fengsæl mið og stutt að fara.“

Kafaraþátturinn í kanasjónvarpinu

„Svona í lokin er gaman að minnast á það, að á þessum tíma var ekkert íslenskt sjónvarp en Kanasjónvarpið var komið og sást á þeim bæjum sem voru komnir með sjónvarp. Einn bærinn var Jaðar, hjá Jóni Borgars og Gullu, og þangað fórum við strákarnir og spurðum hvort við mættum horfa á kafaraþáttinn sem þau leyfðu okkur. Mig minnir að sjónvarpið þeirra hafi verið tólf tommur að stærð og að sjálfsögðu svart/hvítt sem var bara eðlilegt á þessum tíma.“

Séð yfir Hafnirnar sumarið 2019.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs