Mannlíf

Ýktar sögusagnir af andláti Rokksafnsins
Það er alltaf mikið að gera á Ljósanótt hjá Tómasi Young og öðru starfsfólki Hljómahallar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 4. september 2024 kl. 15:21

Ýktar sögusagnir af andláti Rokksafnsins

Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, segir ekkert fararsnið vera á Rokksafni Íslands og sýningin komi til með að taka breytingum og verða enn glæsilegri á næstunni.

„Rokksafnið er ekkert að fara að loka. Við þessar fyrirhuguðu breytingar var gert ráð fyrir fjármagni til að endurnýja sýningar þess. Þá er stækkun Hljómahallar fyrirhuguð en það er ein af forsendum til að þetta allt geti gengið upp,“ segir Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, um þær sögusagnir að Rokksafn Íslands komi til með að loka í kjölfar þeirra breytinga sem munu eiga sér stað þegar Bókasafn Reykjanesbæjar flytur í Hljómahöll í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.

„Það er svolítið fyndið að fjölmiðlar skuli ekkert hafa fjallað um þetta mál eftir mótmælin, miklu meira djúsí frétt að safnið sé að loka, og ég held að almenningur haldi ennþá að safnið sé að fara – en við fengum rausnarlega fjárveitingu til að endurnýja sýninguna.“

Optical Studio
Optical Studio

Tækifæri til að gera glæsilegt menningarhús

Tómas segir að tækifærin séu til staðar til að gera Hljómahöll að enn glæsilegra menningarhúsi með stækkun húsnæðisins. „Eins og ég hef oft sagt, í fullkomnum heimi væru skólarnir ekki myglaðir og allir þeir fjármunir sem fara í lagfæringar á þeim gætu nýst til að byggja mjög flotta viðbyggingu við Hljómahöll. Við erum búin að benda á það að það sé 1.150 fermetra lóð við hliðina á Stapa sem nýtist ekkert, á tveimur hæðum væru það 2.300 fermetrar. Hérna ertu með nóg af bílastæðum. Hérna ertu miðsvæðis. Þannig að það væri hægt að gera mjög vel án þess að starfsemi stofnananna sé að rekast á hver aðra.“

Gítarsafn Björgvins Halldórssonar er meðal áhugaverðra gripa á Rokksafninu. Mynd af Facebook-síðu Rokksafnsins


Opið og ókeypis á Rokksafnið á Ljósanótt

Rokksafn Íslands verður öllum opið yfir Ljósanótt og gestir hátíðarinnar ættu ekki að láta sýningar þess framhjá sér fara áður en endurbættar sýningar taka við en það er samt aðeins lítill hluti af því sem starfsfólk Hljómahallar er að fást við þessa daga.

„Jú, safnið er opið hjá okkur og það er ókeypis inn á það. Hins vegar eru einir sex eða sjö tónleikar framundan hjá okkur fyrir utan aðra viðburði sem eru ekki auglýstir út á við, þar á meðal eru ýmsir aðrir viðburðir, fundir og fleira,“ segir Tómas. „Svo eru stórtónleikarnir á laugardagskvöldinu líka á okkar snærum. Þeir eru alltaf verkefni Hljómahallar.“

Þannig að það er nóg að gera hjá starfsmönnum Hljómahallar á Ljósanótt.

„Já, við mættum hérna á mánudaginn og óskuðum hvert öðru gleðilegrar Ljósanætur – það liggur við að við séum með svefnpoka með okkur því við vitum að það er svolítil törn framundan. Það er bara svona einu sinni á ári,“ sagði Tómas að lokum.