Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Mannlíf

Vinstri handleggur var þyngdarlaus
„Mér datt í hug að hún héldi að ég væri bara svona uppdópuð því ég var örugglega eins og ég væri á deyfilyfjum,“ segir hin fimmtuga Ágústa Hildur Gizurardóttir sem starfar sem jógakennari.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 8. júní 2019 kl. 08:00

Vinstri handleggur var þyngdarlaus

„Ég ákvað að harka af mér og hressa mig við með því að fara í sturtu.“ segir Ágústa Hildur Gizurardóttir sem fékk blóðtappa við heila fyrir níu árum síðan en hún var þá nýkomin úr hlaupaferð til Færeyja. Víkurfréttir ræddu við hana um þessa erfiðu reynslu.

„Það var fyrir níu árum, eða í júni 2010, að ég var að fara að kenna morgunjóga, þá nýkomin heim úr þriggja daga hlaupaferð í Færeyjum. Ég var vön að ganga á fjöll en nýfarin að skokka og hafði aldrei áður farið í hlaupaferð eða hlaupið svona mikið í einu. Þarna í Færeyjum hljóp ég 30 kílómetra sem gekk furðuvel. Deginum eftir að ég kom heim frá Færeyjum byrjar eldgosið í Eyjafjallajökli. Hermann, eiginmaður minn, var staðsettur í Glasgow og var þar á meðan eldgosið var. Ég var búin að vera heima í tvo daga þegar ég veiktist. Ég vakna þennan dag með krökkunum og kem þeim í skólann og leikskólann, keyri heim sest við eldhúsborðið með kaffibolla og blöðin í rólegheitum. Þarna sit ég með bollann í hægri hönd og er að fletta blaðinu með vinstri þegar ég finn svima koma yfir mig og máttleysi í vinstri handlegg. Mér fannst handleggurinn vera þyngdarlaus, eins og hann dofni allur upp,“ segir Ágústa og maður skynjar alvöru málsins þegar hún heldur áfram frásögn sinni.

„Ég fékk mjög undarlega tilfinningu og varð smá hrædd en var fljót að tala mig til. Ég róaði sjálfa mig niður og ákvað að standa upp og leggjast á gólfið sem var mjög óþægilegt. Þá ákvað ég að leggjast frekar í rúmið en finn að mér er orðið ómótt og með svima. Ég var á blæðingum og tengdi þetta saman þó svo ég hafði aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Ég ákvað að harka af mér og hressa mig við með því að fara í sturtu. Í sturtunni gerði ég mér grein fyrir því að þetta var eitthvað alvarlegra en blæðingar, þá gat ég ekki notað vinstri hendina eða þvegið hárið mitt vegna máttleysis í vinstri handlegg. Ég skrúfaði fyrir vatnið, fór úr sturtunni og klæddi mig. Þá ákvað ég að hringja í nágrannakonu mína sem var á leið í jógatíma hjá mér og bað hana að skila því til hópsins að ég yrði að fella tímann niður og sagði henni að það væri eitthvað að mér. Bróðir minn hafði farið í hjartaaðgerð og ég hélt kannski að þetta væri út af blæðingu, var svona að útskýra þetta fyrir sjálfri mér.“

Skrýtnar móttökur á heilsugæslunni
Ágústa ákvað að leita hjálpar hjá lækni og ók sjálf á heilsugæslustöðina. Þegar þangað var komið mætti henni framkoma starfsmanns í afgreiðslu sem henni þótti mjög óþægileg.

„Ég vildi ekki vera að trufla fólk en ákvað að fara á heilsugæsluna. Fann þarna hvað jóga hafði gert mig meðvitaða um líkama minn. Það hjálpaði mér þegar ég var að koma mér til læknis því ég hélt ró minni og var skrefinu á undan í huga mínum þegar ég var að labba, ég var búin að mæla út misfellur í hellunum upp að heilsugæslunni og hvar ég yrði að lyfta fætinum hærra upp. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var engan veginn í lagi. Sjónskynið var orðið dálítið skrýtið þarna. Ég kom að afgreiðsluborðinu og spurði hvort ég mætti tala við lækni en þá svaraði konan sem var á vakt í afgreiðslunni að læknar taki aðeins við bráðatilfellum. Ég sagði henni að ég væri mjög líklega bráðatilfelli. Hún sagði að ég gæti þá farið og sest fyrir framan slysamóttöku og beðið eftir lækni þar en bað mig fyrst að borga fyrir komuna. Konan sá að ég var ekki í standi til að opna seðlaveskið þó að ég reyndi, ég var í taugastríði og tárin runnu niður kinnar mínar en hún kallaði samt ekki á lækni. Mér datt í hug að hún héldi að ég væri bara svona uppdópuð eða eitthvað, því það var örugglega eins og ég væri á deyfilyfjum ímynda ég mér. Hún benti mér á að labba inn ganginn, fá mér sæti og bíða eftir lækni þar. Framkoma hennar var ekki til fyrirmyndar í móttöku heilsugæslu. Mér sárnaði framkoma hennar mjög eftir á, þegar ég gerði mér grein fyrir því hversu áríðandi það er að starfsfólk bregðist fljótt við svona bráðatilfellum.“

Fékk læknishjálp að lokum
Samkvæmt lýsingu Ágústu var hún greinilega orðin mjög veik á meðan hún beið eftir að hitta lækni.

„Biðtíminn þarna á stólnum er allur í þoku en ég man að ég átti erfitt með að sitja og standa, var með augun lokuð eða opin eða ekki. Á meðan ég beið eftir lækni fann ég heitan straum í hnakkanum og hugsaði að nú væri ég að deyja. Ég fann að tappinn var að losna og bað í huganum Hreggvið heitinn lækni, tengdapabba minn, um að senda mér hjálp. Stuttu seinna tók læknir á móti mér og gerði alls konar prófanir og útskýrði að líklega hafi þetta verið lítill tappi við heila. Hann sagði mér að kaupa hjartamagnyl og koma aftur morguninn eftir í blóðprufu. Ég fór heim og leið áfram mjög illa. Mamma býr í Danmörku og ég ákvað að hringja í hana og láta hana vita af þessu en sagði henni jafnframt að ég ætlaði að taka útidyrnar úr lás ef einhver kæmi við hjá mér. Ég ákvað að fara upp í rúm og sofna og sjá hvort mér liði betur eftir það. Mamma hafði strax samband við bróður minn sem býr í Reykjavík, hann hringdi og hringdi í mig en þá var ég steinsofandi og heyrði ekkert í símanum framan af en svo rankaði ég við mér og við töluðum saman. Hann sagði mér að fara strax til Reykjavíkur og á bráðamóttöku þar því hann var ekki ánægður með móttökurnar suðurfrá. Ég fór út í bíl og ók til Reykjavíkur á bráðamóttöku í Fossvogi. Þar var ég tekin strax í alls konar prófanir af læknum og líkaminn skannaður í bak og fyrir. Læknarnir litu mjög alvarlegum augum á ástand mitt og vildu að ég gisti eina nótt til öryggis svo þeir gætu fylgst vel með mér. Þegar þeir sáu daginn eftir að þetta var allt að ganga til baka þá fékk ég að fara heim. Þeir fylgdust vel með mér næstu daga og ég held ég hafi verið undir eftirliti hjá þeim í tvær, þrjár vikur Ég var dofin vinstra megin í líkamanum og sett á blóðþynningu strax vegna þess.“

Líður vel í dag
Ágústa kennir nokkra jógatíma á viku í dag og má því segja að hún hafi verið mjög heppin með hversu vel allt fór hjá henni að lokum.

„Í dag er ég ekki á blóðþynningu nema þegar ég fer í flug. Ég lifi heilsusamlegu lífi og drekk græna drykki sem innihalda grænkál og spínat, grænmeti sem hefur þynnandi áhrif á blóðið. Eftir þetta tók ég mér hvíld frá kennslu og gaf mér tíma til að jafna mig. Á þessum tíma var indverskur jógameistari hér á landi í tvær til þrjár vikur og ég fór bæði í morguntíma til hans og á kvöldin. Ég byggði mig upp með jóga. Ég fór aldrei í sjúkraþjálfun því jóga hefur hjálpað mér að styrkja líkama minn. Eftir þrjá mánuði fór ég aftur að kenna jóga og í dag kenni ég jóga sjö sinnum í viku í OM setrinu. Allt sem ég hafði lært í Osteopata-náminu nýttist mér mjög vel þegar ég var í endurþjálfun, því þar fékk ég djúpa þekkingu á liðum og beinagrind líkamans. Ég kenni Yin-jóga í dag sem losar um bólgur og streitu úr líkamanum. Í Aerial-jóga eða slæðujóga vinnum við með jafnvægi og einbeitingu. Hatha jóga er klassískt æfingaform. Svo kenni ég einnig Yoga nidra-djúpslökun. Ég er jógaþerapisti að auki svo þetta starfssvið hefur hjálpað mér að byggja mig upp um leið og ég hjálpa öðrum til þess. Þessir jógatímar nýtast sjálfri mér og halda mér frískri. Það er svo áríðandi að fólk átti sig á því að passa sig á að lenda ekki í kulnun sem er meiri hætta á í dag þegar fólk er alltaf sítengt. Áður fyrr fór fólk til dæmis út að ganga og naut umhverfisins en í dag eru margir með símann með sér sem eykur álag á taugakerfi okkar. Þetta getur leitt til kulnunar. Í Yoga nidra slekkur fólk á sér í smástund, þá endurhleður líkaminn sig á meðan og opnar fyrir flæði. Við þurfum að slaka meira af því það er hollt fyrir okkur og jóga er frábær leið til þess.“

Hvers vegna ég?
Það er eðlilegt að fólk sem upplifir svona veikindi velti því fyrir sér hvers vegna svona gerist, hvort eitthvað í lífsstílnum hafi leitt til þessa.    

„Ég hef spáð í það hvers vegna ég lenti í þessu og leitað skýringa hjá sjálfri mér. Eina sem mér dettur í hug er að það var búið að vera mikið álag á mér frá 2003 til 2010. Þetta var í fjölskyldunni okkar, barneignir, andlát og fleira sem hafði áhrif á mann án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Maður hélt bara áfram. Það gerðist allt í einu einhvern veginn. Eftir heilablóðfallið byrjaði ég að endurskoða lífsstíl minn, fór að borða hráfæði og meira ferskt grænmeti. Ég tek tarnir í þessu inn á milli ennþá því mér líður svo vel af þessu mataræði. Annars er allt gott í hófi. Mér líður mjög vel í dag og er heilbrigð, eina sem ég finn er aðeins í vinstra fæti þegar ég stend á einum fæti að þá vantar mig jafnvægi en er allt í lagi annars. Ég þakka fyrir lífið, fyrir börnin mín og manninn minn.“

Einkenni heilablóðfalls og blóðtappa
Heilablóðfall verður þegar blóðflæði til ákveðins svæðis heilans stöðvast eða skerðist, annað hvort vegna blóðtappa eða blæðingar. Blóðtappi er algengasta orsök heilablóðfalls, sem er algengasta orsök fötlunar á Vesturlöndum, önnur algengasta ástæða heilabilunar og þriðja algengasta dánarorsökin. Þetta er ekki lengur aðeins vandamál eldra fólks þó tíðni aukist með hækkandi aldri en hlutfall yngra fólks sem fær áfall hefur hækkað um allt að 25% á síðustu tuttugu árum. Þetta snýst um að þekkja einkenni og fara með sjúklinginn innan þriggja tíma á sjúkrahúsið.

Helsta orsök þess að sjúklingar koma seint á sjúkrahús er að þeir gera sér ekki grein fyrir einkennum heilablóðfalls. Stundum er erfitt að greina þessi einkenni. Best er þó að hafa í huga þessi fjögur atriði:

  • Biddu einstaklinginn að BROSA
  • Biddu einstaklinginn að TALA og SEGJA HEILA EINFALDA SETNINGU
  • Biddu einstaklinginn að LYFTA BÁÐUM HÖNDUM
  • Biddu einstaklinginn að REKA ÚT ÚR SÉR TUNGUNA.

Snögg viðbrögð skipta öllu máli
Ef einstaklingur á í vandræðum með einhver þessarra atriða, hringdu í neyðarnúmerið og lýstu einkennum. Mjög mikilvægt er að þeir sem veikjast af heilablóðfalli leiti strax á sjúkrahús. Það er enn mikilvægara nú síðustu árin eftir að farið var, í völdum tilvikum, að beita svokallaðri segaleysandi meðferð við blóðtappa í heilaslagæð. Slíkri meðferð verður að beita innan þriggja klukkustunda frá því veikindi hófust. Helsta orsök þess að sjúklingar koma seint á sjúkrahús er að þeir eða aðstandendur þeirra gera sér ekki grein fyrir einkennum heilablóðfalls. Eftirfarandi einkenni ættu flestir að kannast við:

  • Skyndileg máttminnkun öðru megin í andliti, handlegg eða fótlegg.
  • Skyndilegir örðugleikar að tala.
  • Skyndilegir örðugleikar að ganga, truflað jafnvægi.
  • Skyndileg sjónskerðing á öðru eða báðum augum.

Hafa ber í huga að sjúklingur getur einnig vaknað með þessi einkenni. Þegar eitt eða fleiri þessara einkenna koma skyndilega er rétt að hringja á sjúkrabíl.

Meginástæður heilablóðfalls eru tvær. Annars vegar blóðtappi sem stíflar slagæð í heilanum og verður þá drep í heilavef handan stíflunnar. Hins vegar blæðing, æð brestur og blóð þrýstist út í heilavefinn og veldur skemmdum. Blóðtappi er níu sinnum algengari en blæðing.

Yngra fólk er að veikjast
Heilablóðfall er að hafa áhrif á yngri aldurshóp en áður þar sem aukning hefur verið í slæmum lífsstílsákvörðunum hjá fólki. Reykingar, hár blóðþrýstingur, óhollt mataræði, skortur á hreyfingu, offita og hátt kólesteról eru allt áhættuþættir.

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna