Mannlíf

Vinsælar gellur á KEF
Magnús Ólafsson, veitingastjóri er spenntur fyrir komandi tímum.
Laugardagur 9. mars 2019 kl. 06:00

Vinsælar gellur á KEF

-Nýr veitingastaður á Hótel Keflavík sem býður upp á fjölbreyttan matseðil og boltafjör

Miklar breytingar hafa nú staðið yfir á veitingastaðnum KEF við Hótel Keflavík. Keflvíkingurinn Magnús Ólafsson er nýr veitingastjóri hótelsins en hann segist spenntur fyrir komandi tímum og er sáttur með viðtökurnar. KEF leggur nú áherslu á smárétti og margar nýjungar hafa bæst við það sem af er ári.
Blaðamaður Víkurfrétta hitti nýja veitingastjórann á KEF og ræddi komandi tíma.

„Ég kom til starfa núna í febrúar og er mjög spenntur fyrir þessu. Við höfum fengið rosalega góðar viðtökur og ég finn það að heimafólkið vill fá meiri fjölbreytni á Suðurnesin,“ segir Magnús en hann starfaði sem kokkur á Hótel Keflavík fyrir um tuttugu árum síðan og er nú kominn aftur til baka á hótelið. „Við erum núna að leggja áherslu á smáréttina okkar. Fólk getur þá komið hingað og fengið sér til dæmis tvo, þrjá smárétti, hvítt eða rautt að drekka og jafnvel eftirrétt í lokin. Það verður alltaf eitthvað að gerast hérna hjá okkur á næstunni, ekki bara um helgar.“

Public deli
Public deli

 

Gellurnar aðal málið hjá KEF
„Signature“-smárétturinn á KEF um þessar mundir er djúpsteiktar gellur með kartöflu, lárperu og salati en Magnús segir þá, sem þorað hafa að panta réttinn, orðið ástfangna af honum. „Svo erum við líka með til dæmis carpaccio, lambatarta og fleira. Við ætlum að bæta við á næstunni og verðum með fleiri smárétti en aðalrétti.“

Smáréttirnir eru þó ekki eina breytingin sem átt hefur sér stað á veitingastaðnum. Fótboltaáhugamenn hér á svæðinu geta nú komið á hótelið þegar stórleikir eru sýndir og fylgst með boltanum. „Ég held að langflestir hér á Suðurnesjum séu annað hvort United- eða Liverpool-menn. Við ákváðum að nýta morgunverðarsalinn á hótelinu betur og bjóða þeim að koma hingað og horfa á leiki. Það er gott að geta nýtt salinn fyrir meira en morgunmatinn en hér er gott hljóðkerfi og flott aðstaða,“ segir Magnús en á meðan leikjunum stendur geta gestir fengið sér bjór og hamborgara, natchos og flott tilboð. „Þetta hefur gengið vel og á stórleikjunum hafa mætt hingað yfir tuttugu manns. Ég kvarta ekki yfir því og þetta er bara á leiðinni upp á við.“

Nóg til staðar á Suðurnesjum
Það er algengur misskilningur að veitingastaðir hótela séu einungis fyrir þá gesti en hver sem er getur pantað sér borð á KEF, bæði í gegnum Facebook-síðu veitingastaðarins og símleiðis. „Þetta er kósý staður og hér situr fólk oft í tvo, þrjá tíma. Hótelgestir koma alltaf en það er líka mikilvægt að fá heimamenn hingað. Suðurnesin eru orðin svo stór og ég held það sé markaður fyrir okkar frábæra stað. Fólk þarf ekki alltaf að hoppa upp í bíl og keyra til Reykjavíkur til að fara út að borða,“ segir Magnús.

KEF býður upp á Happy Hour alla virka daga og um helgar er Late Happy Hour í boði fyrir þá sem vilja jafnvel kíkja út á lífið eftir góða heimsókn á veitingastaðnum. „Við erum þá með tilboð á kokteilum og tveir fyrir einn af bjór. Hér er alltaf eitthvað um að vera.“

Samstilltur hópur skilar frábærri gagnrýni
KEF hefur ráðið til sín nýjan yfirkokk en það er Óli Már Erlingsson. „Óli er frábær kokkur. Þú þarf að hafa góðan stjóranda í eldhúsinu þar sem þetta er mjög krefjandi. Með góðum og samstilltum hópi er hins vegar allt hægt.“

Magnús, sem er búsettur í Keflavík, sér nú um rekstrarhlið staðarins en hann hefur verið viðloðinn veitingabransann í um tuttugu ár og er viðskiptafræðingur að mennt. „Ég startaði til dæmis sportbar í Reykjavík sem heitir Úrilla Górillan og var á Austurvöllum. Svo var ég framleiðslustjóri fyrir Icelandair Flugeldhús og hef unnið við ýmis önnur störf,“ segir Magnús en hann lærði kokkinn á Glóðinni árið 1997 undir meistara sínum, Erni Garðarssyni. „Hérna tek ég á móti gestum, sé um starfsmannamál og fleira. En maður gerir allt til að hjálpa til, hvort sem það er að vaska upp eða að fara út með ruslið. Ég hef verið mjög sáttur við fyrsta mánuðinn og við höfum hingað til fengið mjög góða dóma fyrir bæði þjónustuna og matinn. Þetta helst allt saman í hendur.“

Nóg af nýjungum á næstunni
Með stækkandi sveitarfélagi þarf meiri fjölbreytni og valmöguleika á hinum ýmsu sviðum, þar með talið í veitingageiranum. „Hér á svæðinu er nóg af pizzu- og hamborgarastöðum. Þannig þessi viðbót er bara góð. Heimafólkið hefur tekið okkur ótrúlega vel. Fólk er hins vegar ennþá að frétta af þessu. Við stefnum svo á það á næstunni að bjóða upp á hádegismat líka. Fólk hefur stuttan tíma til að borða í hádeginu og við erum núna að smíða matseðil fyrir hádegin hjá okkur sem mun innihalda fáa rétti sem við munum breyta reglulega. Svo verður nóg af nýjungum hjá okkur í sumar. Við ætlum að nýta pallinn hérna fyrir utan og gestir geta þá komið og setið úti, þegar það fer að hlýna,“ segir Magnús og hlær.

Hann hvetur Suðurnesjamenn og aðra til að koma og prófa. „Þú þarft ekkert að fara langt. Við höfum verið ótrúlega ánægð með viðtökurnar og horfum bara upp á við hér á KEF.“

-Sólborg Guðbrands