Mannlíf

Vilja afnema dønsku sem skyldufag
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 21. mars 2020 kl. 09:37

Vilja afnema dønsku sem skyldufag

Það eru fyrst og fremst sögulegar ástæður fyrir því að danska er skyldufag í skólum á Íslandi. Dönskukennsla byrjaði þegar Ísland var innan danska ríkisins fyrir margt löngu.

Þá var danska stjórnsýslu-, verslunar- og lærdómsmál og mikilvægt fyrir Íslendinga að kunna hana ef þeir ætluðu sér eitthvað í lífinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er engin ein ástæða fyrir því að þessu hefur verið viðhaldið. Danska er meðal annars enn kennd til að opna Íslendingum gátt inn í norrænt mál ef fólk ætlar sér í framhaldsnám til Norðurlanda. Aðrir benda á að norska líkist meira íslensku tungumáli og gæti verið mun auðveldara tungumál fyrir okkur að læra.

Nemendur í tíunda bekk við Njarðvíkurskóla mótmæla dönskukennslu og hafa safnað hundruðum undirskrifta vegna þessa. Víkurfréttir hittu að máli, þá Alexander Loga Chernyshov Jónsson og Kára Snæ Halldórsson sem báðir eru nemendur í 10. bekk og komu af stað umræðunni.

Frekar að kenna nemendum þarfari hluti

„Við erum góðir í dönsku og einnig íslensku en viljum að danska verði valgrein en ekki skyldugrein eins og hún er í dag. Þetta er spurning um forgangsröðun, hvað nýtist okkur best í framtíðinni? Við fáum fjórar kennslustundir í dönsku á viku. Okkur finnst mikilvægara að kenna nemendum til dæmis fjármálalæsi og næringarfræði í þessum tímum, mikilvæga hluti sem geta hjálpað okkur í alvöru lífinu. Það skiptir okkur meira máli en danska en fær ekki nægilegt pláss í námsefni skólans,“ segir Kári Snær.

„Ég tel mig góðan námsmann. Við erum ekki að þessu til að pirra dönskukennara okkar en okkur finnst danska úrelt sem skyldunámsgrein,“ segir Alexander Logi.

Danirnir hlógu að okkur

„Sem dæmi um hvað þetta nám nýtist okkur illa, þá fórum við í keppnisferð til Danmerkur en við æfum báðir sund. Þar gátum við ekki talað dönsku því Danir skildu okkur ekki. Við reyndum það oft en fólk hló bara að okkur og bað okkur frekar að tala ensku. Við fáum samt talþjálfun í dönskutímum í skólanum okkar en það hefur ekki nýst okkur nógu vel,“ segir Kári Snær.

„Sko, það hefur alltaf verið umræða í gangi varðandi dönskukennslu á Íslandi því mörgum nemendum finnst danska vera tilgangslaust og ónothæft tungumál fyrir Íslendinga. Við vorum nokkrir krakkar að tala saman um þetta og ákváðum að búa til undirskriftarlista sem við gáfum heitið: Tökum dönsku úr Aðalnámskrá grunnskóla! Þennan lista settum við inn á vefinn www.change.org. Vefslóðin er http://chng.it/KKdPYzZy. Þetta fór inn á föstudegi og fimm dögum seinna voru komnar 2.600 undirskriftir,“ segir Alexander Logi.

Voru hissa á viðbrögðum fólks

„Við vildum skapa umræður og fá fólk til að velta þessu fyrir sér, héldum ekki að þetta myndi verða að einhverju en fengum strax mikil viðbrögð fyrsta sólarhringinn, eitt þúsund undirskriftir,“ segir Kári Snær.

„Krakkarnir í skólanum okkar og öðrum skólum eru ánægðir með að við hófum umræðuna,“ segir Kári Snær.

„Kennurum okkar brá að þessi umræða sem við settum af stað væri að vekja svona mikla athygli,“ segir Alexander Logi.

„Sumir voru stoltir af okkur í laumi. Flestir nemenda, til dæmis, vilja læra um það hvernig á að kaupa íbúð,“ segir Kári Snær.

Læra það sem tengist lífinu sjálfu

„Okkur finnst að við eigum að sleppa öllum þessum norrænu tungumálum sem skyldufagi, nema íslensku auðvitað, og hafa önnur norræn tungumál sem valfag,“ segir Alexander Logi.

„Okkur langar að læra meira sem tengist lífinu sjálfu,“ segir Kári Snær.

„Það mætti kenna meira það sem hjálpar sjálfstrausti nemenda,“ segir Alexander Logi.

„Við værum alveg til í að hitta menntamálaráðherra og ræða þessi mál við hana,“ segir Kári Snær.

„Já, af hverju ekki?“ spyr Alexander Logi.