Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Við áramót: Sameiningin var stóra fréttin
Þorvarður Guðmundsson.
Þriðjudagur 1. janúar 2019 kl. 08:00

Við áramót: Sameiningin var stóra fréttin

Þorvarður Guðmundsson er hættur að strengja áramótaheit. Núna skrifar hann frekar niður markmið sín fyrir nýtt ár og það hefur gengið mun betur. 
 
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu? 
Það sem stendur upp úr í einkalífinu þetta árið er fæðing fullkomnasta barns sem fæðst hefur að mínu mati. Ég eignaðist sem sagt yndislega sonardóttur 4. júní og á þá orðið tvö barnabörn sem eru mér mjög kær. 
 
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018?
Á árinu 2018 fagnaði ég mörgum persónulegum áföngum sem flestir hafa komið í kjölfar náms míns í markþjálfun sem er alveg ótrúlega öflugt verkfæri. Á árinu ákvað ég svo með mjög stuttum fyrirvara að fara í framhaldsnám í markþjálfun og lýk því námi í maí. Áður en að útskrift kemur ætla ég að sækja um alþjóðlega vottun sem ICF markþjálfi. Lífið snýst því að miklu leyti um þessa nýju samskiptatækni bæði í persónulegu lífi sem og í starfi.
 
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu? 
Það sem upp úr stendur á árinu er sú umræða að hlúa að okkur sjálfum, ekki keyra okkur endalaust áfram orkulaus með öllu. Umræðan um að ræða tilfinningar sínar og gæta að eigin andlegu heilsu er mér mjög mikilvæg. Ég þekki það allt of vel, bæði persónulega og í starfi, hvað kvíði og vanliðan geta haft takmarkandi áhrif á lífið og framgang þess.
 
Hvað fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Stóra fréttin í nærumhverfinu hér á Suðurnesjum er að mínu mati sameining Sandgerðis og Garðs. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að sameinast enn frekar og þekki það að norðan þar sem ég bjó í 18 ár að þar sameinuðust sjö sveitarfélög í eitt og það var mikið gæfuspor á öllum sviðum þar.
 
Hvað ætlar þú að borða um áramótin? 
Undanfarin ár hef ég haft einhverja girnilega grillsteik um áramótin með öllu tilheyrandi. Ég er ekki búinn að ákveða hvað ég geri að þessu sinni en það verður örugglega eitthvað gott. 
 
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?  
Þó svo að ég sé maður hefða þá hafa þær breyst svolítið við það að tveir af þremur sonum eru fluttir að heiman og því erum við að skapa okkur nýjar hefðir. Við fluttum á árinu og höfum núna mjög gott útsýni yfir Reykjanesbæ og því vonumst við eftir góðu veðri á gamlárskvöld til að njóta allra flugeldanna sem bæjarbúar eru svo duglegir að skjóta upp.
 
Strengir þú áramótaheit? 
Undanfarin tvö ár hef ég skrifað áramótamarkmið fyrir nýja árið. Mér fannst svo erfitt að vera alltaf að brjóta heitin sem ég hafði sett, t.d. að grennast, hreyfa mig meira og margt fleira sem allir þekkja. Ég ákvað því að skrifa niður markmiðaskrá og það hefur virkað mikið betur fyrir mig.
Public deli
Public deli