Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Mannlíf

Við áramót: Heimsótti 35 munaðarlausa
Húni Húnfjörð.
Þriðjudagur 1. janúar 2019 kl. 08:00

Við áramót: Heimsótti 35 munaðarlausa

Heimurinn er alltaf að verða smám saman betri og betri, segir Húni Húnfjörð sem verður að vinna um áramótin en veit að hann fær veislumat hjá mömmu um hátíðarnar. 
 
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu sem er að líða?
Ég kláraði að lesa 35 bækur á þessu ári. Ég lærði dáleiðslutækni til að hjálpa fólki að heila sig og kláraði Reiki meistaranámið mitt. Ég fór  til Keníu og heimsótti 35 munaðarleysingja sem ég hef séð um í meira en  tvö ára núna og keypti jörð þarna til að reisa skóla þar árið 2019. Ég fór  til Suður Afríku til Cape Town og gekk í þrjá daga upp á Table Mountain  fyrir góðgerðamál. Gaf út eitt nýtt lag á árinu og setti tvö lög í  Eurovision forkeppnina, sem komust því miður ekki áfram en er samt stór  persónulegur sigur fyrir mig. Ég ferðaðist um Ísland og naut mín í  náttúrunni og á æðislegar minningar með fjölskyldunni minni eftir þetta  yndislega ár. Ég er svo þakklátur fyrir 2018.
 
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018?
Ég hóf samstarf við OM setrið í Reykjanesbæ og starfa þar núna sem  heilari og kennari. Ég kláraði að skrifa fimmtu bókina mína sem ég gaf út  15. desember 2018, eftir að hafa skrifað hana í tvö ár. Innihald bókarinnar er  úr þjálfunarprógramminu mínu Focus Gym Be you! sem er núvitundar  gönguprógram hannað fyrir íslenskar konur. Bókin heitir You Are  Freaking Awesome - Waking up to the Secrets You Already Know. Ég  stofnaði félag utan um góðgerðastarfsemina og uppbyggingu á skólanum í  Keníu og fagnaði því að ná að hlaupa tíu kílómetra undir 50 mínútum í  fyrsta sinn á ævinni á árinu. 
 
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Ég verð að viðurkenna að ég horfi ekkert á fréttir. Ég forðast það sem heitan eld að velja mér neikvætt lesefni. Ég heyrði samt útundan mér að einhverjir þingmenn hefðu lent í því að samræður þeirra voru teknar upp, eitthvað sem engin átti að heyra. Hver ertu þegar enginn er að horfa? Nei, ég bara spyr!
 
Hvað fannst þér vera stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Helsta fréttin sem ég tengi við Ísland og það sem gerist í mínum veruleika, er hvað það er mikil vitundarvakning á landinu og fólk orðið opnara fyrir því að við finnum öll svör í lífinu með því að horfa inn á við, enda gerist ekkert fyrir utan líkamann okkar í raun og veru. Allt sem við sjáum, finnum lykt af, snertum, heyrum og smökkum er túlkun heilans og gerist allt inni í okkur og þess vegna alger óþarfi að leita svara fyrir utan okkar eigin líkama. Íslendingar eru magnaðir og frábært að fylgjast með hvað við erum að verða miklu opnari fyrir knúsi og hóli, en áður þekktist. Heimurinn er alltaf að verða smám saman betri og betri.
 
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Naut og humar, vona ég, hehe. Þar sem ég verð að vinna um áramótin, fer það svolítið eftir því hvað hún yndislega móðir mín ætlar að elda. Ég veit það verður veisla! 
 
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?
Ég fer yfir árið með þakklæti og upplifi svo það sem ég mun áorka enn  betur á næsta ári, strax. Leyfi mér að upplifa það eins og það sé nú  þegar búið að gerast. Fagna því strax og upplifi sigrana á árinu 2019  með öllum skynfærum, tilfinningum og ímyndunaraflinu. Svo byrja ég að  taka öll litlu skrefin sem þarf til að þetta verði eins og ég sé og  upplifi það, með opinn huga og opin augu og þá birtast svörin á leiðinni.  Þetta svínvirkar og ég mun halda mig við þessa hefð. 
 
Strengir þú áramótaheit?
Ég nota ekki hefðbundin áramótaheit, heldur upplifi ég það sem mun verða  með þakklæti, ást og fagna því eins og það sé nú þegar búið að gerast.  Það að langa að gera eitthvað, er ekki sama og gera eitthvað. Það að  langa í eitthvað eða biðja um eitthvað, er staðfesting á því að það er  ekki í mínum veruleika í dag. Orkan sem ég sendi frá mér með að langa,  dregur að mér meiri langanir og frekari vöntun á því sem ég bið um og það er ekki orkan sem ég vil fara með inn í nýja árið. Ég fer því af  stað með orkuna sem segir að ég sé nú þegar kominn með þetta inn í líf mitt og þá birtist fólk og tækifæri á leið minni í gegnum árið sem styðja þá orku. Ég held áfram að láta draumana mína rætast 2019 og gef alltaf af  mér eins mikið og ég mögulega get. 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs