Mannlíf

Verður í núinu í Abu Dhabi
Fimmtudagur 7. mars 2019 kl. 14:00

Verður í núinu í Abu Dhabi

-Magnús Orri er á leið á Special Olympics

Fimleikamaðurinn Magnús Orri Arnarson er nú á leið til Abu Dhabi þar sem hann mun keppa á Ólympíuleikum fatlaðra eftir nokkra daga. Síðustu vikur og mánuðir hjá Magnúsi hafa einkennst af stífum æfingum en hann æfir bæði með fimleikadeild Keflavíkur og Gerplu. Fyrir utan fimleikana er Magnús Orri í björgunarsveitinni Ægi í Garði, starfar með fötluðum á Heiðarholti og dundar sér þess á milli við það að búa til myndbönd. Eins og við má búast segist hann eiginlega aldrei vera í fríi, nema eftir klukkan ellefu á kvöldin.

„Ólympíuleikar fatlaðra eru ekki nákvæmlega eins og Ólympíuleikarnir sem allir heimsmeistararnir fara á, heldur eru þetta sérstakir Ólympíuleikar fyrir einstaklinga með þroskahömlun. Þannig geta þeir upplifað eins stemningu og er hjá heimsmeisturunum. Það er gott að geta stefnt að einhverjum markmiðum,“ segir hann.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Magnús æfir, eins og áður kom fram, bæði í Íþróttaakademíunni í Keflavík og með Gerplu í Versölum í Kópavogi. Þar að auki þjálfar hann fimleika í Gerplu. „Ég æfði áður með þeim sem eru ekki þroskahamlaðir en svo fór ég að finna fyrir miklum kvíða við að æfa með fólki sem er ekki eins og ég. Í Gerplu eru alls konar hópar fyrir fólk sem er þroskahamlað og ég fór strax í þann hóp sem eru bestir.“ Magnús, sem er með Tourette-heilkenni og einhverfu, hefur æft fimleika nánast alla sína ævi en í dag æfir hann alla daga og mun keppa í sex áhaldagreinum í Abu Dhabi.

Hjálpar öðrum í sömu sporum
Magnúsi Orra þykir skemmtilegast við fimleikana að læra eitthvað nýtt og segir hann það því mikilvægt að leggja sig fram, hlusta á þjálfarann á hverjum degi og gera allar þær æfingar sem honum er sagt að gera.

Aðspurður hvernig hann undirbúi sig fyrir það að keppa á Ólympíuleikunum segist hann æfa stíft, borða hollan og góðan mat og þegar það séu ekki æfingar taki hann aukaæfingar eða fari í sund. „Svo skutlar mamma mér á æfingar í bænum tvisvar í viku. Ég get þakkað henni endalaust fyrir. Hún styður mig áfram í öllu sem ég geri.“

Foreldrar Magnúsar eru þau Ingibjörg Guðný Marísdóttir og Örn Benedikt Sverrisson en Magnús er ættleiddur frá Indlandi. „Ég var það heppinn að fá yndislega foreldra sem náðu í mig til Indlands. Við áttum fyrst heima í Keflavík en svo fluttum við í Garðinn og ég hef átt heima í sama húsinu frá því ég var svona þriggja ára,“ segir Magnús sem gekk í Gerðaskóla í Garðinum og er nú á öðru ári á starfsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann tekur einnig áfanga í kvikmyndagerð og í lögum og löggæslu.

Útköll fyrir Neyðarlínuna næsta markmið
Magnúsi hefur lengi þótt björgunarsveitin áhugaverð en í dag hefur hann lokið þremur námskeiðum og undirbýr það að komast í útköll hjá sveitinni. Hann er í björgunarsveitinni Ægi í Garði sem vinnur mikið með Björgunarsveitinni Suðurnesi.

„Ég held ég þurfi að klára fjögur námskeið í viðbót svo ég geti farið á útkallsskrá og fengið skilaboð frá Neyðarlínunni. Ég ákvað bara að fara að mennta mig í þessu, lögreglu, sjúkraflutningum, vinn með fötluðu fólki og reyni að láta gott af mér leiða,“ segir Magnús en honum þykir mikilvægt að hjálpa öðrum þar sem hann hefur sjálfur fengið mikla hjálp. „Mig langar að geta hjálpað fólki sem er að glíma við það sama og ég. Ég þarf sjálfur á hjálp að halda og vil geta dreift því áfram til þeirra sem vantar.“ Það sé miklu betra en að hanga neikvæður heima hjá sér að spila Fortnite og éta snakk allan daginn.



Allir eðlilegir á sinn hátt

Eins og staðan er nú eru kækirnir sem fylgja Tourette frekar slæmir hjá Magnúsi. „Þegar ég verð mjög stressaður eða spenntur þá fer ég að ofanda og á mjög erfitt með að tala. Ef ég er í kringum fullt af fólki get ég stundum haldið kækjunum niðri í smá tíma en Tourette er þannig að ef maður heldur í sér í smá tíma þarf maður að losa frá eftir á og það getur verið mjög erfitt. En annars erum við öll bara eðlileg á okkar hátt. Ég heiti Magnús Orri Arnarson, ég er eins og ég er og geri það sem ég vil. Ég var fæddur til þess að vera til, ekki til þess að vera fullkominn.“

Stundum lendir Magnús í því að fá neikvæðar athugasemdir frá fólki. „Oft veit fólk ekki og þá á það bara að spyrja. Ég reyni að segja frá því af hverju ég sé svona. Ef maður segir ekki neitt þá veit enginn neitt. Þegar maður útskýrir þá skilja flestir en stundum fær maður neikvæðar athugasemdir sem eru bara fáfræði og fordómar. Ég er að læra um það í sálfræði,“ segir hann.

38 keppendur munu halda til Abu Dhabi, einstaklingar með mismunandi þroskahamlanir og Magnús er fullur tilhlökkunar fyrir komandi verkefni. Hann segir það aukaatriði ef hann lendir á verðlaunapalli. „Markmiðin mín þarna úti eru að kynnast nýjum vinum og menningunni. Þú gerir ekkert án þess að eiga vini. Ef ég vinn ekki neitt þá er það bara búið og dautt mál. Ég veit þá að ég keppti, stóð mig vel og það er það sem skiptir máli. Ég ætla bara að vera í núinu.“

-Sólborg Guðbrands