RVK Asian
RVK Asian

Mannlíf

Valli bakari nýtur lífsins
Valgeir þenur raddböndin undir stjórn Jóhanns Smára Sævarssonar. VF-myndir/MartaEiríksdóttir.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
miðvikudaginn 5. febrúar 2020 kl. 16:48

Valli bakari nýtur lífsins

Þær voru góðar kökurnar og brauðið sem Valgeirsbakarí í Njarðvík bauð okkur upp á í 45 ár en Valgeir
Jóhannes Þorláksson, bakari, og fjölskylda seldu bakaríið fyrir fjórum árum og má segja að bakarinn sé nú alla daga að leika sér með nýfengið frelsið á eftirlaunaaldri.

Við hittum Valla, eins og hann er stundum kallaður, spurðum hann út í lífið og tilveruna, hvað hann væri að fást við og í hvað dagarnir hans fara.

Nóg að gera alla daga

„Ég er mjög ánægður með frelsið sem fylgir eftirlaunaaldri og við hjónin sitjum ekki heima að horfa á sjónvarpið heldur njótum þess að taka þátt í öllu því sem vekur áhuga okkar,“ segir Valgeir.

Það fyrsta sem blaðakona rekur augu í er breytt útlit Valgeirs bakara, maðurinn hefur grennst mikið frá því að hann var að vinna í Valgeirsbakaríi og spyr hvort hann hafi breytt um lífsstíl eftir að hann komst á eftirlaun.

„Já, ég fór að hreyfa mig meira. Við búum á Gónhól í Njarðvík og ég fæ mér hressandi göngutúr þaðan og út á Fitjar nær daglega. Svo fór ég til Janusar og æfði hjá honum á annað ár. Allt þetta lagði grunninn að góðri heilsu og minna mittismáli í dag. Ég er ekkert frekar að spá í mataræðið og borða ekki mikið dagsdaglega nema á jólum, þá borða ég mikið,“ segir Valgeir og hlær. „Annars borða ég venjulegan mat og held mig frá sætindum, mér líður betur þegar ég geri það.“

Byrjaði að læra bakarann sextán ára

Valgeir Jóhannes Þorláksson fæddist fyrir 74 árum í Reykjavík en flutti sem stráklingur til ömmu sinnar á Húsavík.

„Ég fæddist í Reykjavík en flutti níu ára gamall til ömmu minnar og ólst upp hjá henni. Þar byrja ég að læra bakarann sextán ára gamall í bakaríinu á Húsavík en fer svo til Reykjavíkur að vinna í Bernhöftsbakarí. Í borginni kynntist ég eiginkonu minni, Magdalenu Olsen, og við flytjum í Njarðvík enda er hún ekta Njarðvíkingur. Í dag finnst mér erfitt að segja hvort ég sé Reykvíkingur, Húsvíkingur eða Njarðvíkingur en auðvitað er ég hið síðast talda þegar við teljum árin sem ég hef búið hér suðurfrá,“ segir Valgeir.

Lagði alúð í Valgeirsbakarí

Talið berst að uppskriftunum í Valgeirsbakarí en mörgum fannst bakkelsið hjá Valgeiri vera sérlega gott og bragðast eins og heimabakað.

„Ég hef sjálfur alltaf verið fyrir kökur og brauð og fékk uppskriftir víða að þegar ég var með bakaríið. Ég gerði þær ávallt að mínum með smá lagfæringum. Laufabrauðsuppskriftin okkar kom að norðan. Ég bjó einnig til eigin uppskriftir og smakkaði þær áður en ég setti þær í sölu til almennings. Konan mín og sonur voru gæðastjórar á öllu sem ég bjó til og ef þeim líkaði það sem ég var að búa til og baka, þá fór það í bakaríið. Ég breytti aldrei uppskriftum sem fólki líkaði og dró heldur aldrei úr gæðum, var ávallt með gott hráefni. Það skiptir miklu máli og skilar sér í vörunni. Við vildum hafa heimilislegt bragð af öllu sem við bjuggum til. Þetta kunni fólk að meta og skapaði traust á milli okkar og viðskiptavina, fólk vissi að hverju það gekk. Ég segi alltaf að ef maður gefur af sér í það sem maður er að gera, þá skilar það sér. Ég gaf allt af mér í Valgeirsbakarí og konan mín einnig því við höfðum bæði gaman af því sem við vorum að gera og lögðum alúð í þetta. Við tókum vel á móti viðskiptavinum og buðum öllum góðan daginn. Við lögðum ríka áherslu á kurteisi og að bjóða góðan daginn var það fyrsta sem við, og afgreiðslufólkið, sögðum við alla. Það skiptir máli að heilsa fólki almennilega. Þessi háttur okkar að bjóða öllum góðan daginn varð að viðlagi í revíu Leikfélags Keflavíkur fyrir nokkrum árum og bakaríið var sett þar inn í leiksýninguna. Það fannst okkur skemmtilegt. Báðir drengirnir okkar lærðu bakaraiðn og störfuðu hjá mér. Annar þeirra keypti af mér bakaríið og seldi það fimm árum seinna. Þar með var það farið úr fjölskyldunni eftir 45 ár í eigu okkar. Í dag söknum við allra viðskiptavinanna okkar en erum annars mjög ánægð með frelsið sem fylgir eftirlaunaaldrinum,“ segir Valgeir.

Kominn í háskólanám

Þegar rætt er um hvað Valgeir sé að fást við þessa dagana kemur í ljós að hann situr ekki auðum höndum.

„Ég hreyfi mig á hverjum degi, ef ekki út að labba þá hjálpa ég syni mínum í byggingarvinnu og tek á því líkamlega þar. Svo er ég í háskólanámi U3A sem er fyrir alla 60 ára og eldri og fer fram í húsnæði MSS en þarna eru töluvert margir hópar fólks á besta aldri að fræðast um óteljandi efni. Ótrúlega gaman að taka þátt í þessu háskólanámi sem er próflaust nám og gefur okkur tækifæri til að fræðast um allt milli himins og jarðar má segja. Ég er þar í ættfræðihóp og ferðalagahóp en þar fræðumst við um ákveðin svæði og förum svo þangað. Ég hef einnig verið að fræðast um Suðurnesin. Svo er ég í spjallhóp sem ræðir allt mögulegt en þar höfum við verið að rifja upp fyrri tíma, ræða um samfélagið sem við ólumst upp í á árum áður og margt fleira áhugavert. Konan mín er einnig í rithóp en þar er fólk sem vill efla færni sína í skrifum. Skrautskriftarhópur er að fara af stað á nýju ári en þetta er bara brot af því sem fólk getur tekið þátt í. Það gefur manni mikið að hitta allt þetta fólk tvisvar í viku, fólk sem hefur lifað svipað samfélag og maður sjálfur, rifja upp gamla tíma og læra eitthvað nýtt. Hildur Harðardóttir og Hrafn, bróðir hennar, halda utan um þetta háskólanám sem er einstaklega áhugaverður vettvangur til að hitta aðra á besta aldri. Við hittumst klukkan fjögur í eftirmiðdaginn, tvisvar í viku og erum að læra í eina klukkustund. Hvet fólk til að kynna sér U3A á fésbókinni eða hafa samband við Hildi Harðar eða Hrafn Harðarson sem halda utan um U3A en það eru allir velkomnir sem vilja vera með. Það eru margir svo virkir á eftirlaunaaldri í dag,“ segir Valgeir uppveðraður þegar hann talar um þetta nám sem kostar ekkert og er öllum frjálst.

Er að læra söng

Þetta er ekki það eina sem Valgeir er að fást við því nú er maðurinn kominn í söngnám hjá Jóhanni Smára Sævarssyni og mætir í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þrisvar í viku vegna þess.

„Ég er að læra söng hjá Jóhanni Smára í tónlistarskólanum, æfi einsöng hjá honum einu sinni í viku og fer einnig í samsöng með undirleik hjá Helgu Bryndísi einu sinni í viku og nótnalestur einu sinni í viku. Röddin er hljóðfæri sem ég er að stilla með námi mínu, læra að beita henni rétt svo hún hljómi betur. Ég finn mikinn mun á mér og kórfélagar mínir segjast einnig finna mikinn mun. Ég hef alltaf sungið í kór því það er svo gaman að syngja. Ég byrjaði sextán ára gamall í kór á Húsavík, hjá Þrym, og eftir að ég flutti hingað suður hef ég sungið með kórfélögum mínum í Karlakór Keflavíkur frá árinu 1975 en við æfum tvö kvöld í viku. Ég hef áður reynt að vera í tónlistarnámi og hljóp úr vinnunni til þess að fara í Tónlistarskóla Njarðvíkur á sínum tíma en þá hafði ég engan tíma til að æfa eða sinna heimanámi. Nú nýt ég þess að hafa allar þessar klukkustundir til að leika mér og læra nýtt,“ segir Valgeir.