Mannlíf

Unga fólkið kynnti sér arkitektúr
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 19. september 2019 kl. 07:00

Unga fólkið kynnti sér arkitektúr

Arkitektastofan Jees arkitektar bauð ungu fólki á námskeið þar sem arkitektúr var kynntur á skapandi hátt. Mikil eftirspurn var á námskeiðið og sóttu 32 um þátttöku en átta nemendur sátu námskeiðið sem var öllum að kostnaðarlausu.

Þegar við litum inn voru nemendur niðursokknir í verkefni sín og mátti sjá býsna ólík módel og teikningar á borðum. Jón Stefán Einarsson, arkitekt og eigandi Jees arkitekta, gekk á milli þeirra, gaf þeim endurgjöf og kom með tillögur en stundum gleymdist kannski að gera ráð fyrir glugga eða birtu en að öðru leyti höfðu þau frjálsar hendur og fékk sköpunargleðin að njóta sín.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jón Stefán Einarsson sagði hugmyndina um slíkt námskeið hafa blundað í sér lengi. „Við arkitektar höfum ekki verið duglegir að miðla faginu áfram og höldum oft að það sem grautar í hausnum á okkur sé á allra vörum og sjálfsagt en auðvitað er það ekki svo. Þannig að við tókum af skarið og settum saman námskeið í arkitektúr fyrir byrjendur. Við buðum krökkum á aldrinum þrettán til sextán ára á námskeið eina helgi og þar lögðum við áherslu á að kynna grunnverkfæri í arkitektúr, efla sköpunargáfu og ekki síst að hafa gaman.“

Hvernig stóðu nemendur sig?

„Þau voru alveg frábær, gáfu ekkert eftir og öll verkefnin voru unnin af miklum ákafa frá upphafi til enda. Þau gerðu grunnteikningar og módel af draumahúsinu og fengu inn á milli skrítna fróðleiksmola. Ég held að við höfum öll haft mjög gaman af þessu.“

Hverjar eru helstu áherslur Jees arkitekta eða eftir hvaða gildum starfar stofan?

„Við erum fyrst og fremst „lókal“ stofa og leggjum áherslu á að verkin okkar séu í samræmi við sögu og staðhætti svæðisins en á sama tíma reynum við að bjóða upp á spennandi nýjungar, sem hrífa og bæta umhverfið. Gildin okkar eru vönduð vinnubrögð, góð samskipti og við viljum vera ábyrg í samfélaginu okkar og er námskeiðið liður í því.“