Mannlíf

Unaðslegir tónleikar Jazzfjelagsins
Una Stef söng með Karli Orgerltríói. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 30. september 2021 kl. 09:13

Unaðslegir tónleikar Jazzfjelagsins

Una Stef og Karl Orgeltríó léku listilega fyrir tónleikagesti í bókasafninu Sandgerði

Jazzfjelag Suðurnesjabæjar bauð upp á tónleika með Karl Orgeltríó og söngkonunni Unu Stef í síðustu viku. Tónleikarnir fóru fram í Bókasafni Suðurnesjabæjar, Sandgerði, í samstarfi við Tónaland.

Kvöldið var með eindæmum góð skemmtun og eins og vanalega var vel mætt á viðburðinn en tónleikar Jazzfjelagsins verða sífellt vinsælli hjá tónlistarunnendum, og tónlistarmönnum, á Suðurnesjum og víðar. Karl Orgeltríó hefur unnið með fjölda söngvara í gegnum tíðina en að þessu sinni var það Una Stef sem söng með tríóinu og fluttu þau djass- og poppslagara í eigin útsetningum. Skemmtileg og afslöppuð stemmning myndaðist í salnum enda sló tónlistarfólkið á létta strengi milli flutninga með skemmtisögum og smá glensi. Tónlist kvöldsins var vel flutt og lagavalið hentaði fullkomlega fyrir djassáhugafólkið sem var komið til að heyra og sjá flytjendurna.

Karl Orgeltríó hefur starfað síðan 2013 og var stofnað utan um Hammond-orgel Karls sem er frá 1958. Tríóið er skipað þeim Karli Olgeirssyni, Ásgeiri Ásgeirssyni og Ólafi Hólm. Una hefur verið að gefa út lög og plötur síðan 2014 og hefur tónlist hennar sankað að sér verðlaunum og lofi gagnrýnenda og tónlistarunnenda en unaðsleg rödd Unu féll að spili Karls Orgeltríós eins og flís við rass.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Karl við Hammond-orgelið sem tríóið var stofnað í kringum.