Nettó
Nettó

Mannlíf

U3A Suðurnes er eins árs
Miðvikudagur 19. september 2018 kl. 07:00

U3A Suðurnes er eins árs

Samtökin U3A Suðurnes fagna eins árs afmæli um þessar mundir en þau starfa víða um heim og fyrsta deildin hér á landi hefur starfað  í Reykjavík um nokkur ár. Ný deild var stofnuð, sú fyrsta utan Reykjavíkur, fyrir einu ári hér á Suðurnesjum.

U3A stendur fyrir University of the Third Age – eða Háskóli þriðja aldurskeiðsins. Í þessum háskóla eru engin próf, engin inntökuskilyrði og allir eru jafnréttháir. Engar kröfur eru gerðar um menntun eða fyrri störf.
Allir 60 ára og eldri eru velkomnir. Nú eru skráðir um 60 félagar og koma þeir saman í hópum sem hittast reglulega yfir vetrarmánuðina til að ræða saman, hlusta á erindi og fræðslu um hin ýmsu málefni. Starfandi eru nú 3 hópar: Suðurnes – þar sem fræðst er um allt er lýtur að Suðurnesjum, náttúru, menningu og byggð, Ættfræði, þar sem kennd eru vinnubrögð og leiðir við rakningu ætta og tengsla og loks er Spjallhópur, þar sem tekin eru fyrir málefni líðandi stundar og annað sem fólk kærir sig um að ræða. Í bígerð er svo Ljóðahópur þar sem fjallað verður um skáldskap og yrkingar. Félagar ákveða sjálfir stofnun hópa og hið eina sem þarf til þess er að einhver taki að sér að stýra hópi.

Sem fyrr segir eru allir íbúar á Suðurnesjum velkomnir til þátttöku. Árgjald er 1500 kr.
Hægt er að skrá sig á aðalfundinum sem haldinn verður fimmtudaginn 27. september kl. 16.00  í Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, MSS. Einnig má senda tölvupóst á hildurha@gmail.com
Nánari upplýsingar veita stjórnarmenn, en þeir eru Halldóra Magnúsdóttir í Vogum, Hildur Harðardóttir í Keflavík, Hrafn A. Harðarson í Garði, Magdalena Olsen í Ytri-Njarðvík og Magnús Óskar Ingvarsson í Keflavík.
Boðið verður upp á kaffi og með því að loknum aðalfundarstörfum.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs