Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Mannlíf

Tvíburabræðurnir stefna báðir á læknisfræði
Sunnudagur 6. janúar 2019 kl. 08:00

Tvíburabræðurnir stefna báðir á læknisfræði

„Árangur er vani,“ segja tvíburabræðurnir Einar og Gunnar Guðbrandssynir sem útskrifuðust með hæstu meðaleinkunn síðustu annar frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sólborg systir þeirra, blaðamaður á VF, spjallaði við þá bræður.
 
Einar Guðbrandsson hlaut hæstu meðaleinkunn útskriftarnema frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja nú rétt fyrir jól. Meðaleinkunn Einars var 8,82 en svo skemmtilega vildi til að tvíburabróðir hans, Gunnar, var rétt á eftir honum með meðaleinkunnina 8,64. Við útskriftina hlaut Einar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í eðlisfræði, spænsku og í náttúrufræðigreinum. Þá fékk Gunnar viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði, spænsku, ensku og í raungreinum.
 
Bræðurnir útskrifuðust báðir af læknisfræðilínu raunvísindabrautar og hafa í gegnum námið verið mjög samstíga og aðstoðað hvorn annan. Þeir segja hins vegar að námið krefjist mikillar vinnu og að nauðsynlegt sé að leggja sig alla fram. Þannig verði uppskeran góð.


 
Svo skemmtilega vildi til að blaðamaður Víkurfrétta er stóra systir Einars og Gunnars og spurði hún þá spjörunum úr varðandi árangurinn í FS og ýmislegt fleira. Þeir stefna báðir á nám við læknisfræði næstkomandi haust en eru annars óvissir um það hvað framtíðin beri í skauti sér. Það komi hins vegar allt í ljós.
 
Hvernig var að vera í FS?
Einar: Það var krefjandi en það var skemmtilegt.
Gunnar: Þetta var erfitt á köflum. Þetta er ekki auðveldur skóli.
 
Hvernig fóruð þið að því að fá þessar einkunnir?
Einar: Með því að læra alltaf heima…
Gunnar: ...fyrir hvert einasta próf. Við fórum yfir allt saman. Það hjálpaði að við værum tvíburar, því við höfðum alltaf einhvern annan einstakling til að læra með.
 
Lærðuð þið alltaf saman?
Gunnar: Já, aldrei í sitthvoru lagi.
 
Voruð þið í sömu áföngunum?
Gunnar: Já, við vorum alltaf í sömu áföngunum. Það auðveldaði það að læra fyrir próf. Það hjálpaði okkur líka rosalega að við erum með gott skammtímaminni. Ég get munað hluti í tvo, þrjá daga mjög vel. Þannig ef ég lærði daginn fyrir próf þá mundi ég hlutina auðveldlega.
 
Hvað langar ykkur að verða?
Gunnar: Við stefnum allavega á lækninn. Þess vegna fórum við á læknisfræðilínu. En framtíðin er óvissa þannig maður er opinn fyrir hlutum. En það er allavega stefnan.

Einar, hvernig læknir langar þig að verða?
Einar: Í einhverri krefjandi sérgrein.
Gunnar: Okkur langar að sérhæfa okkur í einhverju ákveðnu innan læknisfræðinnar, eins og til dæmis að verða skurðlæknir. Eitthvað svoleiðis.
 
Ætlið þið þá beint í háskólanám?
Gunnar: Já, það er stefnan í haust.
 
Hafið þið alltaf verið svona samstíga?
*Svara á sama tíma*
Einar: Já.
Gunnar: Já. Ég man ekki eftir því að hafa lært einn fyrir próf. Nema þegar annar okkar var kannski veikur.
 
En fyrir utan skóla, hafið þið alltaf verið svona samstíga?
*Svara aftur á sama tíma*
Gunnar: Já.
Einar: Já. Sólborg, þú þarft ekki að spyrja okkur að þessu. Þú getur bara svarað þessu sjálf.
Gunnar: Við höfum alltaf verið samstíga. Alltaf hjálpað hvor öðrum þegar kemur að námi.
 
Eruð þið góðir vinir?
Gunnar: Já.
Einar kíminn: Nei. Við þolum ekki hvorn annan. Sólborg, þú þarft ekki að biðja okkur að svara svona spurningum. Þetta er eitthvað sem þú veist. Almáttugur.
 
Hvað finnst ykkur gaman að gera fyrir utan skóla?
Gunnar: Ég hef mikinn áhuga á fótbolta. Einar hefur mikinn áhuga á heimspeki. Svo líka tónlist og stóru spurningarnar í lífinu.

Einar, hvaða stóru spurningar?
Gunnar svarar: Til dæmis hvort Guð sé til.
 
Ég er að spyrja Einar…
Gunnar: Einar, er þetta ekki rétt?
Einar: Gunnar er hundrað prósent formaður minn hérna. Hann getur svarað öllum spurningunum fyrir mig.
Gunnar: Ertu ekki sammála Einar?
Einar: Ég er hundrað prósent sammála. Ég skal trufla Gunnar ef hann svarar einhverju vitlaust.
 Hvar eruð þið að vinna?
Einar: Í Bykó, ef ég man rétt.
 
Hvað er uppáhalds fagið ykkar?
Einar: Eðlisfræði.
Gunnar: Uppáhalds fagið mitt er örugglega stærðfræði. Mér finnst stærðfræði oft rosalega erfið en stærðfræðin gefur eina ákveðna lausn.
 
Hvað finnst ykkur leiðinlegasta fagið?
Einar hlæjandi: Ég get ekki sagt það.
Gunnar: Það var ekki beint eitthvað eitt ákveðið.
Einar: Ég veit hvað það er, en ég vil ekki segja það...jarðfræði?
Gunnar: Nei, jarðfræði var ekki leiðinlegust.
Einar: Hver var leiðinlegust? Danska?
Gunnar: Nei, danska er ekkert leiðinleg.
 
*Blaðamaður skýtur inn í*: Ykkur má finnast mismunandi hlutir leiðinlegir.
 
Gunnar: Mér fannst leiðinlegustu fögin þau þar sem erfitt var að finna eitt svar. Þar sem margir hlutir gátu verið réttir.
Einar: Ef það var „skoðun þín“ sem gilti sem svar.
Gunnar: Það voru leiðinlegustu fögin.
Einar: Við viljum rökfræði. Logic.
Gunnar: Þannig ef það eru ekki rök sem styðjast við svarið þá er það leiðinlegt.
 
Hvað finnst ykkur best við Fjölbrautaskóla Suðurnesja?
Einar: Kennararnir, þeir voru ótrúlega skemmtilegir.
Gunnar: Já, kennararnir. Þeir eru rosa miklir karakterar. Mér fannst arkitektúrinn í skólanum líka góður, miklu betri en í öðrum skólum sem ég hef séð áður.
 
Hvor ykkar er skipulagðari?
Einar: Ég.
Gunnar: Ha?
Gunnar aftur, eftir smá umhugsun: Já, hann er skipulagðari.
 
Hvor er meiri svefnpurka?
Gunnar: Einar.
Einar: Ég, já.
 
Hvor er duglegri að læra heima?
Gunnar: Einar.
 
Hvor er duglegri að hvetja hinn til að byrja að læra heima?
Gunnar hlæjandi: Ég er duglegri að hvetja hann.
Einar: Er það?
 
*Þeir sammælast svo um það á endanum að það var í raun og veru Gunnar*
 
Hvor er fljótari að læra hlutina utanbókar?
Gunnar: Ég er fljótari. Einar lærir þá í nokkra daga og svo kennir hann mér þá á nokkrum klukkutímum.
Einar: Já, góður punktur.
 
Þannig að annar ykkar lærir, kennir svo hinum og þið skiptið þessu þannig á milli ykkar?
Einar: Já, því ef ég kann þetta þá veit ég nákvæmlega hvað ég þarf að segja Gunnari. Ótrúlega oft þegar við erum að læra þá þurfum við að flokka út hluti sem skipta ekki máli og læra það sem skiptir í raun og veru máli. Þá get ég gefið Gunnari bara þær upplýsingar sem skipta máli. 
Gunnar: Einar, þú til dæmis lærðir fyrir eðlisfræði af því þú varst betri í eðlisfræði og ég lærði oft fyrir stærðfræði. Svo kenndi ég honum stærðfræði og hann kenndi mér eðlisfræði.
 
Hvor svarar kennaranum oftar í tíma?
Gunnar: Einar.
Einar: Já, ég.
 
Hvor er meiri svindlari?
Einar: Gunnar.
Gunnar: Já, ég. Ég hugsa að ég sé líklegri til að svindla.
 
Þannig þú hefur svindlað í prófi, Gunnar?
Einar: Þetta er ekkert að fara að koma fram í þessu viðtali?
Gunnar: Ég svindlaði ekkert síðustu ár en ég gerði það þegar ég var lítill.
Einar: Nei, nei, alls ekki.
 
Hvor er meiri kennarasleikja?
Gunnar: Einar.
Einar: Jájájá, ég. Hundrað prósent.
 
Hvor ykkar ætlar að dúxa í háskóla?
Einar: Ég.
Gunnar: Bara báðir.
Einar: Nei, ég ætla að dúxa.
Gunnar: Ókei, Einar ætlar að dúxa greinilega.
Einar: Nei, við báðir.

Gunnar, ætlar þú ekki að ná honum næst?
Gunnar: Jú, ef ég get.
Einar: Þvílíkt metnaðarleysi. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að þú dúxaðir ekki.
 
*Bræðurnir hlæja*
 
Er mikil samkeppni á milli ykkar?
Einar: Já.
Gunnar: Nei.
Einar hlæjandi: Nákvæmlega. Þú bara sérð ekki samkeppnina, þess vegna ert þú ekki að dúxa.
Gunnar: Við vitum að við erum alltaf að fá það sama. Við lærðum nákvæmlega það sama og við erum með mjög svipaða heila. Það er alltaf einhver samkeppni á milli okkar en það er aldrei eitthvert ósætti. Til dæmis ef Einar fengi hærri einkunn en ég þá myndum við minnast á það í tíu sekúndur. En ef Einar lærði hins vegar eðlisfræðina og ég myndi svo fá hærri einkunn en hann þá myndum við metast um það.
Einar: Já, það er mest pirrandi. Að sá sem hermdi eftir þeim sem lærði fékk hærra.
Gunnar: Það hefur gerst nokkrum sinnum.
 
Bjuggust þið við því að Einar myndi dúxa og Gunnar þá ekki?
Gunnar: Nei, við héldum að ég myndi dúxa. Við reiknuðum út einhverja meðaleinkunn fyrir þremur önnum síðan og þá var ég með hærri meðaleinkunn. En Einar hefur greinilega hækkað miklu meira síðustu annir og ég þá lækkað.
 
Hvaða ráð hafið þið til þeirra sem eru að fara í framhaldsskóla og vilja ná svona góðum árangri?
Einar: Hlustið á allt það sem ykkur hefur verið sagt. Þið vitið hvað þið þurfið að gera. Ekki vera að hugsa um einhver ákveðin trikk, lærið bara fyrir próf.
Gunnar: Það er ekki eitthvað eitt auðvelt trikk. Þið verðið bara að læra.
Einar: Reynið að gera þetta á skemmtilegan hátt. Hugsið þetta út frá ykkur sjálfum, hvað ykkur finnist áhugavert við þetta. Þið getið ekki lært eitthvað sem eru bara einhverjar staðreyndir á hvítum pappír.
Gunnar: Auðvitað hefði okkur Einari langað að vera virkari til dæmis í félagslífinu en málið er að til þess að fá svona háar einkunnir þá verður maður að fórna einhverju öðru.
Einar: Þetta kemur ekki til þín frítt. Árangur er ekki eitthvað eitt atvik. Árangur er vani. Þú verður aldrei góður ef þú nærð góðum árangri bara einu sinni. Þetta snýst um að gera þetta aftur og aftur.
Gunnar: Þetta er alltaf erfiðast í byrjun.
 
Er þetta þess virði?
Einar: Já.
Gunnar: Framtíðin er miklu bjartari fyrir vikið.
 
Viðtal: Sólborg Guðbrands

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs