Mannlíf

Tónleikasumar í Hljómahöll
Föstudagur 22. apríl 2022 kl. 13:01

Tónleikasumar í Hljómahöll

Mirja Klippel með tónleika í júní

Mirja Klippel, söngkona, hjóðfæraleikari og lagahöfundur frá Finnlandi, mun spila í Hljómahöll ásamt hljóðfæraleikaranum Alex Jonsson frá Danmörku og fleira listafólki þar með talið verðlaunaða tríóinu Vesselil.

Mirja hefur vakið athygli þar sem hún hefur komið fram, unnið til verðlauna, spilað í fjölda landa í Evrópu, Skandinavíu og Rússlandi svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að lesa meira um Mirja Klippel á heimasíðu Hljómahallar.

Tónleikarnir fara fram í Hljómahöll þann 10. júní. Húsið opnar klukkan 19 og tónleikar hefjast kl. 20. Miðasala er hafin á tix.is og hljomaholl.is.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024


Aldous Harding í ágúst

Það verður að teljast sannkallaður hvalreki fyrir tónlistarunnendur á Íslandi að Aldous Harding leggi lykkju á leið sína til að halda tónleika hér á landi. Hún gaf út sína fyrstu plötu, Aldous Harding, árið 2014 og hefur síðan þá vakið athygli fyrir lagasmíðar og ekki síður flutning. Plöturnar Party (2017) og Designer (2019) hlutu einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda um allan heim. Þannig fékk hún fimm stjörnur af fimm mögulegum í Q tímaritinu og í The Indipendant fyrir Designer. Lagið The Barrel af plötunni náði talsverðri spilun á Íslandi þegar það kom út í febrúar 2019. Dómar um nýju plötuna Warm Chris eru farnir að birtast og gaf Clash henni 9 í einkunn og Mojo og Uncut 8. Lögin Fever og Lawn af plötunni Warm Chris hafa heyrst á öldum ljósvakans síðustu vikur.

Aldous Harding hefur unnið síðustu þrjár plötur (Party, Designer og Warm Chris) með tónlistarmanninum John Parish sem er þekktur m.a. fyrir samstarf sitt með PJ Harvey, Eels og Tracy Chapman.

Tónleikarnir fara fram í Hljómahöll þann 15. ágúst. Húsið opnar kl. 19 og tónleikar hefjast kl. 20. Miðasala er hafin á tix.is og hljomaholl.is.