Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Töfrar ástarinnar – tónleikar í Bíósal Duus Safnahúsa
Svafa Þórhallsdóttir, mezzósópran.
Þriðjudagur 6. júlí 2021 kl. 07:30

Töfrar ástarinnar – tónleikar í Bíósal Duus Safnahúsa

Fimmtudaginn 8. júlí verða Svafa Þórhallsdóttir, mezzósópran, Alexandra Chernyshova, sópran, og Gróa Hreinsdóttir, píanóleikari, með tónleika í Bíósal Duus Safnahúsa klukkan 20:00. Á efnisskrá tónleikanna verða þekktar aríur og síðan norsk, dönsk og íslensk lög í bland.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alexandra og Svafa vinna saman, þær héldu tónleika saman í Jónshúsi í Kaupmannahöfn fyrir fjórum árum síðan, tónleikum sem voru hluti af menningarbrú Íslands og Rússlands, Russian Souvenir, verkefni sem Alexandra stýrir. Það var því tilvalið að slá saman í aðra tónleika og þá núna í Reykjanesbæ og fá einnig til liðs við sig píanóleikara með sterka tengingu við bæinn, hana Gróu Hreinsdóttur.

Public deli
Public deli

Bakgrunnur Svöfu

Svafa Þórhallsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1981. Foreldrar Svöfu eru úr Reykjanesbæ og bjó hún þar um skeið áður en hún fluttist erlendis. Hún lauk tónlistar kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar mastersgráðu í söng og tónmenntakennslu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Stærsta hluta ævi sinnar hefur Svafa búið á Norðurlöndum, annars vegar í Noregi og núna í Danmörku síðustu sautján ár ásamt fjölskyldu sinni.

„Í dag er ég að kenna söng, stjórna barna- og stúlknakór ásamt því að syngja í dómkór í Hróarskeldu. Reglulega er ég með tónleika fyrir börn. Áhugasviðið mitt er að miðla klassískri tónlist til ungra barna,“ segir Svafa.

Íslensk menning blómstrar í Kaupmannahöfn

Svafa segir einnig að íslensk menning sé í miklum blóma í Kaupmannahöfn og þá sérstaklega í Jónshúsi „Fjöldi kóra æfa þar og ýmis námskeið eru haldin undir styrkri stjórn Höllu Benediktsdóttur.“

Á söngsviðinu hefur Svafa mest verið að syngja óratoríur í kirkjum, einnig verið að fást við nútímatónlist og heldur síðan reglulega ljóðatónleika.

Það verður nóg að gera í sumar

„Ég verð með krílasöng á sönghátíð í Hafnarborg í Hafnarfirði núna í júlí og síðan kem ég til með að halda tónleika með manninum mínum í Eyrarbakkakirkju en hann starfar sem organisti í Danmörku. Auk þess verður mamma með ljóðaupplestur. Tónleikarnir verða ævi og minningartónleikar um föður minn og haldnir á afmælisdegi hans 16. júlí.“

Alexandra, menningar­verðlaunahafi Súlunnar

Alexandra Chernyshova hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, á síðasta ári fyrir framlag sitt til menningarmála. Hún er þessa dagana að leggja lokahönd á sína þriðju óperu sem verður frumflutt í konsertuppfærslu í október, Góðan daginn, frú forseti. Óperan fjallar um líf og störf frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Á síðasta ári hlaut Alexandra margvísleg alþjóðleg verðlaun fyrir fyrri óperur sínar í virtum keppnum, m.a. fyrsta sæti á Alþjóðlegu tónskáldakeppni Dunajevskiy í Moskvu, Rússland.

Gróa kemur frá Noregi

Gróa Hreinsdóttir, píanóleikari og organisti, hefur starfað og búið síðustu ár í Noregi og kemur til liðs við söngkonurnar á þessum tónleikum. Alexandra og Gróa hafa unnið saman áður og héldu marga tónleika þegar Alexandra var að feta sín fyrstu spor hér á landi árið 2003–2004.