Mannlíf

Tjaldurinn er fastagestur á Hólmsvelli í Leiru
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 23. maí 2020 kl. 07:38

Tjaldurinn er fastagestur á Hólmsvelli í Leiru

Tjaldurinn hefur verið auðfúsugestur og fastagestur á Hólmsvelli í Leiru í mörg ár og flestir eru ánægðir með hans veru á vellinum þó svo það þurfi að taka tillit til þess hvar hann verpir. Hreiðrið getur nefnilega verið á hinum ýmsu stöðum þar sem golfboltinn getur lent, til dæmis í sandglompum. Hér á myndunum má sjá egg í hreiðri og tjald sitjandi þar á sjöundu braut í Leirunni en svo er líka hreiður á gangstíg við fjórtánda teig. Þar hefur nú verið settur setubekkur til að verja eggin og hreiðrið því oft vilja aðrir fuglar koma og fara í eggin. Vallarstarfsmenn setja gjarnan einhverja vörn við eggin sem eru oft ber í sandinum. Annars er fuglalíf óvenju fjölskrúðugt í Leirunni þetta vorið og kunnugir hafa aldrei séð jafn mikið af kríu.

Tjaldur er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er er hávaðasamur og félagslyndur fugl og er er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína. Hann verpir einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Hreiðrið er grunn dæld í sendna jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum en svo segir á Vísindavefnum um þennan skemmtilega fugl.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þrjú egg undir bekk við 14. teig.

Hér situr fuglinn rólegur í glompu við 7. braut. Vallarstarfsmenn GS hafa sett góðan stein við hreiðrið.

Gunnar Oddsson, kylfingur sló rétt við glompuna, fuglinn færði sig á meðan en kom svo aftur á hreiðrið.