Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Þó við séum tengdar á alls kyns miðlum, þá er símanúmer fyrsta flokks tenging
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 19. nóvember 2022 kl. 08:13

Þó við séum tengdar á alls kyns miðlum, þá er símanúmer fyrsta flokks tenging

Erla Ósk Pétursdóttir er FKA kona mánaðarins

Nafn: Erla Ósk Pétursdóttir

Aldur: 42 ára

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Menntun: BA í hagfræði og tölvunarfræði og er á seinna ári í MBA námi við Háskólann í Reykjavík.

Við hvað starfar þú og hvar?
Ég er framkvæmdastjóri hjá Marine Collagen í Grindavík sem vinnur gelatín og kollagen úr fiskroði.

Hver eru helstu verkefni?
Í okkar unga fyrirtæki eru verkefnin margvísleg og daglegur rekstur og framtíðarplön keppast um athyglina frá degi til dags. Hjá fyrirtækinu starfar samheldinn og lausnamiðaður hópur sem gerir vinnuna alla mjög skemmtilega.

Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?
Í mínum huga er Marine Collagen frábært dæmi um hvað sé hægt að gera þegar fyrirtæki ákveða að vinna saman. Með samvinnu og útsjónarsemi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur Marine Collagen aukið innlenda verðmætasköpun, enda erum við í harði samkeppni við vinnslur erlendis – en við erum rétt að byrja og hlökkum til að halda áfram að þróa íslenskar vörur úr okkar frábæra hráefni.

Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera?
Ég verð að viðurkenna að ég er ekki að gera margt þessa dagana annað en að vinna og sinna fjölskyldunni og skólanum. Við hjónin eigum þrjá stráka og einn hund og því nóg að gera á okkar heimili, sem maðurinn minn sinnir að mestu leyti á meðan ég klára skólann. 

Hvað hefur þú verið að gera, hvað ertu að gera núna, framtíðarplön?
Mér líður best þegar ég hef nóg að gera. Mér finnst gaman að hreyfa mig, reyni að vera dugleg í ræktinni eða fara út að hlaupa eða hjóla. Ég er líka Kundalini jógakennari og hugleiðsla er mitt haldreipi þegar það verður of mikið að gera. Svo hef ég gaman af söng og er tiltölulega nýbyrjuð í golfi. Framtíðarplönin eru þannig séð óráðin, ætli ég haldi ekki bara áfram að gera það sem mér finnst skemmtilegt.

Reynsla:
Eftir menntaskólann fór ég í háskólanám til Bandaríkjanna og mitt fyrsta starf eftir nám var hjá ráðgjafafyrirtæki í Minneapolis. Eftir þrjú ár þar fór ég til sjávarútvegsfyrirtækis á Nýfundnalandi í Kanada og var þar í eitt og hálft ár. En eftir hrunið á Íslandi leitaði hugurinn heim og ég flutti til Íslands í byrjun árs 2009. Ég vann lengi hjá fjölskyldufyrirtækinu Vísi, fór svo til Codland og aftur til Vísis þar sem ég vann síðast sem mannauðsstjóri. Í fyrra söðlaði ég svo um og fór til Marine Collagen og fæ þar að fylgja eftir verkefninu sem ég vann að þegar ég var hjá Codland.

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum?
Ég ólst upp í Grindavík en flutti til Reykjavíkur þegar ég var sextán ára og fór í MR. Ég flutti aftur til Grindavíkur árið 2010 þegar við stofnuðum fjölskyldu, enda hvergi betra að vera með börn, og hef búið þar síðan. 

Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum?
Það er yndislegt að búa á Suðurnesjum og helstu kostirnir eru frelsið sem börnin okkar búa við og svo nálægðin við náttúruna. Hvort tveggja kom svo bersýnilega í ljós í Covid, enda frábært að geta farið með fjölskylduna í ævintýraferðir á svæðinu, t.d. Þorbjörn, Selskóg, Sólbrekkuskóg, Selatanga og þannig mætti lengi telja. 


Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes?
Mér finnst frábært að við séum að tengjast betur hér á Suðurnesjum. Það hefur verið gaman að mæta á viðburði og kynnast konum hér á svæðinu. Að heyra hvað hinar konurnar eru að gera gefur manni líka tækifæri til að styðja hvor aðra og læra hver af annarri. 

Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA?
Í fyrstu voru það viðburðirnir hjá FKA sem mér fannst áhugaverðir og voru ástæða þess að ég skráði mig í félagið. Sérstaklega finnst mér áhugavert hvernig félagið vinnur markvisst í því að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlum.

Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
Síðustu ár hef ég tekið eftir því hversu mikinn styrk það veitir að hafa öflugt tengslanet, og það er það sem ég tek mest út úr því að vera í FKA. Svo er líka bara svo svakalega gaman með þessum konum, sérstaklega þessum í golfinu 😉

Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum?
Á mínum fyrsta FKA viðburði vorum við hvattar til að skiptast á símanúmerum við þær konur sem við kynntumst, því markmiðið var að geta slegið á þráðinn seinna meir. Þetta hefur sko komið mér að góðum notum og miðla ég því hér með áfram til kvenna á Suðurnesjum. Þó við séum tengdar á alls kyns miðlum, þá er símanúmer fyrsta flokks tenging.