Mannlíf

Þegar börn missa foreldri
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 2. febrúar 2020 kl. 07:18

Þegar börn missa foreldri

Um eitt hundrað börn á ári verða fyrir því áfalli að foreldri þess fellur frá og helmingur þeirra dauðsfalla eru krabbameinstengd.

Krabbameinsfélagið undirbýr nú opnun fræðslu-, stuðnings- og handleiðslumiðstöðvar sem ætluð er fagaðilum sem vinna í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Með fagaðilum er átt við til dæmis kennara, skólastjórnendur, frístundakennara, skólasálfræðinga og skólahjúkrunarfræðinga. Krabbameinsfélagið mun einnig bjóða heilbrigðisstarfsfólki sem kemur að umönnun barna upp á stuðning og handleiðslu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á Suðurnesjum fara fulltrúar Krabbameinsfélagsins fljótlega af stað og kynna þetta verkefni hjá stofnunum á svæðinu. Í forsvari eru þau Sigríður Erlingsdóttir, forstöðumaður Krabbameinsfélags Suðurnesja, og Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu.

Kerfið þarf að styðja börn sem aðstandendur

„Lög voru sett í landinu árið 2019 sem tryggja að börnum undir átján ára aldri, sem misst hafa foreldri sitt, verði sinnt af fagfólki. Þau eiga rétt á stuðningi og fagfólkið, sem á að sinna þessum börnum, þarf að hafa markviss úrræði og aðgang að handleiðslu og öðrum stuðningi. Krabbameinsfélagið vinnur nú að því, í samstarfi við heilbrigðiskerfið, Sorgarmiðstöðina og skólakerfið, að styrkja þekkingu og stuðning við fagfólk sem vinnur í nærumhverfi þessara barna,“ segir Ásgeir.

Faglegt bakland Krabbameinsfélagsins

„Við erum að fara af stað með spurningarlista til starfsmanna leikskóla, grunnskóla og í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þetta er þarfagreining þar sem leitast er við að greina hvaða stuðning starfsfólk skólanna telur sig þurfa frá því fagfólki sem starfar við ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins og hvaða reynslu skólarnir hafa af svona málum,” segir Ásgeir.

„Við veltum upp þeirri spurningu hvað Krabbameinsfélagið getur gert á landsvísu en erum nú að einbeita okkur að þeim svæðum þar sem starfsmaður er á vegum félagsins eins og á Suðurnesjum. Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélagsins getur verið faglegt bakland fyrir starfsfólk skólanna um land allt og einnig handleiðsluaðili fyrir starfsfólk heilsugæslunnar,“ segir Sigríður og bætir við: „En það er einmitt heilsugæslan sem á að sinna þessum börnum samkvæmt lögum.“

Eru að fara af stað með þarfagreiningu

„Við þurfum að sjá hvernig landið liggur núna og vinna út frá þeim niðurstöðum. Börn verða að fá stuðning við foreldramissi, allir sem vinna með börnum bera ábyrgð á þeim. Kerfið þarf að bregðast rétt við og styðja börn undir átján ára aldri. Fjölskyldan er mjög mikilvæg en tengslin rofna oft við missi. Við höfum séð að börn sem koma úr samheldnum fjölskyldum bjarga sér betur eftir andlát foreldra, hins vegar verða þau börn sem eiga ekki þannig fjölskylduaðstæður að njóta stuðnings opinberra aðila,“ segir Ásgeir.

„Við viljum hér með tilkynna skólum á Suðurnesjum að þeir mega eiga von á okkur í heimsókn þar sem við leggjum þarfagreiningu fyrir starfsfólkið, sem er mikilvægt skref í upphafi þessa verkefnis,“ segir Sigríður.