Hljómahöll Johnny
Hljómahöll Johnny

Mannlíf

Þau hjálpa fólki að láta drauma sína rætast
Feðginin saman á góðri stund. VF-myndir/Marta Eiríksdóttir og úr einkasafni.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 7. febrúar 2021 kl. 07:08

Þau hjálpa fólki að láta drauma sína rætast

Matti Osvald er sonur hjónanna Oddnýjar Mattadóttur og Stefáns Öndólfs Kristjánssonar. Hann spilaði körfubolta á uppvaxtarárum sínum í Keflavík, alveg þar til hann meiddist alvarlega í baki nítján ára og varð að hætta. Að eilífu, sögðu sérfræðingarnir en ekki að mati Matta því hann ákvað að verða góður í bakinu og stóð við það.
Hann fór til Bandaríkjanna að læra heilsuráðgjafann og starfar sem slíkur í dag ásamt því að vera menntaður markþjálfi. Eva dóttir hans vinnur einnig við markþjálfun. Það má eiginlega segja að þau starfi bæði við að hjálpa fólki að láta drauma sína rætast.

Barnabarn Matta skó

„Ég er náunginn sem ég hefði þurft að hitta þá þegar ég var nítján ára,“ segir Matti og brosir, „en á þessum tíma var ég á kafi í körfu, meiddist illa í bakinu og gat ekki haldið áfram. Ég fór til allskonar sérfræðinga sem sögðu að ég myndi ekki spila meir. Það hefur að vísu ekki gengið eftir því ég fann hjálpina sem mig vantaði. Næstu árin sótti ég í allt sem gat hjálpað mér að finna leiðina að góðri heilsu, jafnvægi á ný. Andleg heilsa hefur áhrif á líkamlega heilsu. Það er þessi brú sem við getum ekki aðskilið ef við viljum fá betri heilsu. Við þurfum að þora að horfast í augu við okkur sjálf. Ég er alinn upp í þessu náttúrulega viðhorfi, að líkaminn geti læknað sig sjálfur. Afi minn, Matti Osvald Ásbjörnsson, var oftast kallaður Matti skó því faðir hans, Ásbjörn, og Sigurberg, föðurbróðir afa, voru skósmiðir í Keflavík en afi var sá sem ruddi brautina fyrir marga í Keflavík á árum áður, með Kákasusgerlinum sem hann ræktaði og íbúar bæjarins fengu hjá honum. Ég man vel þegar afi var að klípa af gerlinum, sem óx endalaust, og gaf fólki sem vildi prófa þessa ræktun mjólkursýrugerla heima hjá sér. Þetta var langt á undan LGG magagerlunum sem við getum keypt út úr búð í dag. Ég veit ekki hvar hann fékk þetta en fólk taldi það allra meina bót að drekka sýrða vökvann sem Kákasusgerillinn framleiddi. Afi var skemmtilegur og ótrúlega hress, allt fram í andlátið en hann lést 98 ára gamall en þá sagði hann að þetta væri komið gott og ákvað að yfirgefa jarðlífið. Hann hætti öllu, lagðist í rúmið og fór á um þremur vikum. Afi Matti virtist vera orkumeiri en almennt gengur og gerist. Að hitta hann var eins og að ganga inn í rafstöð, maður hresstist alltaf við að hitta afa. Þegar hann lá banaleguna þá heimsótti ég hann einu sinni sem oftar og hann spurði mig hvaða dagur mánaðarins væri þann daginn. Ég sagði honum það og þá sagðist hann ætla að tóra einhverja daga í viðbót, alla vega fram yfir 98 ára afmæli sitt og gerði það, vildi klára afmælið sitt og lifði hálfum mánuði lengur. Síðustu dagana, þegar farið var að draga af honum afa mínum, sat ég hjá honum og lagði höfuð mitt á brjóstið hans og fann kröftugan hjartsláttinn og hugsaði að þetta hjarta væri svo sterkt það gæti ekki stoppað – en svo dó hann tveimur dögum seinna. Eitt sinn fór æskuvinur minn með mér að hitta afa sem þá var orðinn 92 ára. Þessi vinur minn bjóst við að hitta gamlan lúinn mann á þessum aldri en þegar við komum inn á herbergið hans á Hlévangi, þá sat sá gamli og reifst við sjónvarpið sem sýndi handboltaleik í beinni. Þetta gerði hann alltaf þegar hann var að horfa á íþróttaleiki, hvatti sína menn áfram eins og hann væri staddur sjálfur á leiknum.“

„Já, ég man vel eftir afa einmitt svona, að rífast við sjónvarpið,“ segir Eva, þrítug dóttir Matta Osvald, og hlær en hún er einnig stödd með blaðakonu á stofunni hans Matta í Hafnarfirði. Þau mæðgin starfa bæði við markþjálfun í dag. Matti Osvald vinnur mikið hjá Ljósinu en er einnig með námskeiðahald og einstaklingsráðgjöf.

Naut þess að vera heimavinnandi pabbi

Matti Osvald fór til San Diego tuttugu og tveggja ára gamall að læra heildrænt nudd og heilsuráðgjöf og þar kynntist hann barnsmóður sinni, Unni Magnúsdóttur, sem stundaði nám þar ytra á sama tíma og Matti. Þau urðu par og eignuðust Evu Maríu á námsárum sínum í sólríku Kalíforníufylki.

„Þetta var góður tími. Ég var nýbúinn með fjögurra ára nám en Unnur átti eitt ár eftir þegar Eva fæddist. Ég ákvað að vera heima með hana á daginn og ég held að þessi tími, þetta fyrsta ár í lífi hennar, hafi gert það að verkum að við erum mjög tengd í dag. Ég hef alltaf viljað vera til staðar fyrir Evu, líka eftir að mamma hennar og ég skildum. Það átti aldrei að bitna á sameiginlegu barni okkar og við stóðum við það í gegnum uppeldið hennar,“ segir Matti og horfir á Evu sem samsinnir þessu: „Já, við pabbi erum sálufélagar. Það er stundum fyndið þegar hann hefur samband við mig, að rétt áður en hann hringir, þá var ég að hugsa til hans. Ég leyfi mér að kalla hann besta pabba í heimi. Við erum líka svo góðir vinir. Í dag starfa ég við markþjálfun eins og hann, enda er pabbi einn af fyrirmyndum mínum.“Dóttirin fór holóttan veg

En lífið hefur ekki alltaf verið svona ljúft hjá Evu sem fór holótta leið í lífinu frá unglingsárum og fram yfir tvítugt. Undanfarin sjö ár hefur hún þó lifað góðu lífi sem tveggja barna móðir og sambýliskona barnsföður síns.

„Ég fór alveg í gegnum erfið sjö ár áður en ég opnaði augu mín fyrir sjálfri mér og hætti að deyfa innri sársauka minn. Öll göngum við í gegnum áskoranir í lífinu. Einhver brýtur á þér eða hafnar þér, þá byrjarðu, einhverra hluta vegna, að brjóta þig niður. Þú segir sjálfri þér að þú valdir bara vonbrigðum og sért ekki eins mikilvæg manneskja og allir aðrir. Þetta leiðir yfirleitt til sjálfshöfnunar. Það er þessi tilfinningalegi sársauki sem þú vilt ekki finna fyrir og byrjar að deyfa niður með neyslu. Ég deyfði sársauka minn með áfengi og grasi. Ég reyndi að flýja og fór til Ekvador og Los Angeles en fattaði þegar ég kom á þessa staði að ég var ennþá með í för, ég losnaði ekkert við sjálfa mig þótt ég væri komin á nýjan stað. Myrkrið inni í mér var orðið svo mikið að ég þoldi ekki við og ákvað að fara inn á Vog í meðferð og síðan eru liðin rúm sjö ár. Allan þennan tíma sem ég var svona týnd var einhver rödd inni í mér sem sagði að ég ætti miklu meira inni, að ég ætti heima í ljósinu. Þessi rödd var orðin svo hávær að ég varð að hlusta. Í dag starfa ég sem atvinnupeppari og þjálfari, ég hvet aðra til að búa til betra líf og nýti alla þá reynslu sem ég hef öðlast. Ég man þegar ég var í meðferð þá studdist ég við frábæra bók eftir Guðna Gunnarsson sem heitir Máttur viljans, frábær og öflug lesning. Í dag hlusta ég á innsæi mitt og það hreinlega öskrar á mig að ég sé á réttum stað í lífi mínu. Ég er móðir tveggja barna, stelpu og stráks sem eru þriggja ára og sex ára, og er í sambúð með föður þeirra. Hvað lífið getur verið gott en stundum þurfum við að fara í gegnum myrkrið til að finna ljósið. Þá er áríðandi að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Hætta að ásaka annað fólk fyrir allt sem miður fer,“ segir Eva sem er orðin þekkt fyrir námskeiðahald og hlaðvörp sem hún býr til ásamt vinkonu sinni, Sylvíu Briem.

Eva Mattadóttir og Sylvía Briem eru með hlaðvarp saman

„Ég fór í markþjálfanám og í átján mánaða strembið ferli til þess að verða Dale Carnegie þjálfari. Þar kynntist ég Sylvíu sem er góð vinkona mín í dag. Við erum með hlaðvarp saman sem við nefnum Normið og gengur ótrúlega vel. Þáttur númer hundrað er alveg að fara í loftið. Við tökum viðtöl við áhugaverða einstaklinga en stundum erum við að ögra hlustendum okkar með því að vera mannlegar. Það er að segja, að tala um eitthvað sem fólk almennt talar ekki um. Við köllum þetta hrátt plebbaspjall um mannlegheit. Heimurinn er að garga á einlægni, að við komum til dyranna eins og við erum klædd, að við séum ekki að þykjast eitthvað. Þannig styðjum við hvert annað best, með því að vera einlæg,“ segir Eva og geislar af eldmóði þegar hún talar.

Það sleppur engin við erfiðleika

„Þetta er mjög flott hjá þeim Evu og Sylvíu. Það þarf hugrekki til að vera maður sjálfur og þær eru svo sannarlega að fylgja innri áttavita. Lífið kreistir okkur til að líta á erfiðleika sem tíma til að vaxa en ekki til að flýja inn í heim fíknar og doða. Þegar eitthvað kemur upp á, við verðum veik eða verðum fyrir andlegu áfalli, þá er falin gjöf í þessari sendingu sem við sjáum oft ekki fyrr en eftir á. Manneskjan framkallast í myrkri eins og ljósmyndin. Það þarf oft erfiðleika til að vekja okkur. Þetta virðist vera lögmál í gegnum lífið. Við þurfum öll að rekast á vegg en það er að stoppa og íhuga næstu skref. Við erum með innri áttavita sem segir okkur hvað við eigum að gera næst. Stundum nennum við því ekki, viljum hafa lífið eins og það er. Óánægja hleðst upp því við þurfum að vaxa og þroskast. Það er að þora að horfast í augu við að nú þurfum við að fara nýja leið. Kannski er eitthvað búið, starfið þitt þarf að breytast eða víkja alveg út úr lífi þínu eða hjónabandið þarfnast uppstokkunar. Lífið þjarmar að okkur og verður erfitt þegar við hlustum ekki á innri röddina,“ segir Matti að lokum en hann starfar sem markþjálfi og heildrænn heilsuráðgjafi. Eiginkona Matta Osvald er Eva Birgitta Eyþórsdóttir og eiga þau uppkomin börn, Oddnýju Sól Osvald Mattadóttur og Jóhann Birgi Osvald Ingvarsson.

Matti með afa sínum og nafna, Matta skó.

Matti og Eva fyrir mörgum árum.

Matti Osvald og fjölskylda saman komin.

Langömmu Matta Osvald var rænt af erni

Sagt var um móður Matta skó, að hún hafi verið með ör framan á bringu og á höfði eftir arnarklær og er til skjalfest frásögn hennar af þessum ótrúlega atburði þegar örn klófesti hana aðeins tveggja ára gamla og flaug með hana á brott.

Í júní árið 1942 birtist í Lesbók Morgunblaðsins viðtal við Ragnheiði Eyjólfsdóttur, sem varð fyrir því, barn að aldri, að ránfuglstegundin örn rændi henni. Hún segir svo frá;

„Ég er fædd þann 15. júlí 1877, en mun hafa verið rétt um það bil tveggja ára. Foreldrar mínir áttu heima á Skarði á Skarðsströnd, faðir minn, Eyjólfur Eyjólfsson, var ráðsmaður hjá ekkju Kristjáns Skúlasonar kammerráðs, Ingibjörgu Ebenezardóttur. En móðir mín, Matthildur Matthíasdóttir, var þar í húsmennsku að kallað var.

Móðir mín hafði farið niður að á til að þvo þvott. Var brekkuhalli niður að ánni þar sem þvottastaðurinn var. En skammt fyrir ofan var hvammur og uxu blóm þar innan um hvannir. Þetta var í túninu á Skarði. Móðir mín skildi mig eftir í hvannstóðinu, er hún fór að fást við þvottinn, taldi mig óhultari þar, fjarri vatninu.

Allt í einu heyrir hún að ég rek upp hræðsluóp, en örn er kominn yfir mig, þar sem ég sat við að tína blóm. Skipti það engum togum, að örninn hefur sig upp og flýgur með mig í klónum hátt í loft upp, en ekki heyrðist til mín nema rétt sem snöggvast. Hefir strax liðið yfir mig.

Í fyrstu flaug örninn afar hátt þarna yfir. Er sem hann hafi viljað komast sem hæst strax, til þess að hann kæmist á ákvörðunarstað, þó honum dapraðist flugið er frá liði. En vitanlega var ætlun hans að koma mér upp í arnarhreiður sem var í fjallinu fyrir ofan Kross.

Í Krossfjalli höfðu arnarhjón átt sér hreiður í mörg ár og alið þar upp unga sína. Gerðu ernir þessir oft óskunda meðal alifugla á Skarði man ég, þegar ég var þar seinna um tíma, á tíu ára aldri.

Nú víkur sögunni til fólksins á Skarðstúninu, er það var við heyskap. Þaut hver af stað sem betur gat, til þess að reyna að komast í tæri við örninn. En sá leikur sýndist ójafn og útséð hver endirinn yrði. Enda sagði móðir mín, að þegar hún leit upp frá þvottinum við ána, og horfði á eftir erninum með mig í klónum, gat hún ekki ímyndað sér að hún sæi mig nokkurn tíma aftur lifandi, og kannski ekki einu sinni liðna. En hvatastur maður og snarráðastur þar var Bogi Kristjánsson kammerráðs, er á þeim árum mun hafa verið fyrirvinna móður sinnar. Hann var skotmaður góður, og flaug honum fyrst í hug að freista þess að skjóta örninn. En sá samstundis, að það væri lokaráð. Fyrst og fremst óvíst hvort skotið kæmi í mig eða fuglinn, í öðru lagi ekki annað við það unnið, ef hann ynni örninn, þá félli ég til jarðar úr háa lofti. Hann greip því langa stöng og náði í röskan hest og reið áleiðis að Krossfjalli, þar sem hreiðrið var.“

Of þung fyrir örninn

„Og brátt kom í ljós, að örninn hafði hér færst of mikið í fang. Ég var stór eftir aldri og reyndist fuglinum svo þung, að áður en hann var kominn að fjallinu, dapraðist honum flugið, svo hann flaug það lágt, að Bogi komst á reiðskjóta sínum svo nálægt okkur, að hann gat slengt stönginni í væng arnarins, svo hann varð að setjast. Og þar sleppti hann byrðinni, en Bogi þá svo nálægt, að ránfuglinn, með sinn bilaða væng, gerði mér ekki mein, þar sem ég var komin, en lagði á flótta undan manninum.

Móðir mín sagði mér, að þar sem Boga tókst að slá stönginni í væng arnarins, hafi hann verið kominn yfir Krossá, svo vegalengdin, sem hann hefir flogið með mig, hefir eftir því verið um 3 kílómetrar.

Þegar Bogi kom að þar sem ég lá, var ég í yfirliði. Örninn hafði læst klónum gegnum föt mín á brjóstinu, og voru förin eftir klærnar í hörundinu, en sárin ekki djúp. Því fuglinn hafði fengið nægilegt hald í fötunum. Mig minnir að mér hafi verið sagt að örninn hafi læst nefinu í hár mitt, á fluginu. En af því fékk ég engan áverka.

Móðir mín sagði mér síðar, að ég hefði verið dauf og utan við mig nokkra daga á eftir. En varanlegt mein fékk ég ekki af þessari einkennilegu loftferð.

Foreldrar mínir fluttu nokkru síðar út í Bjarneyjar. Þar átti ég oft að gæta yngri systkina minna úti við. Móðir mín varaði mig jafnan við því, meðan þau voru lítil, að gæta þeirra vandlega, þegar erni bæri þar yfir, en þeir sáust oft á flugi yfir eyjunum, eða sátu þar á klöppum og skerjum.“