Mannlíf

Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn
Fimmtudagur 17. september 2020 kl. 15:54

Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn

„Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn.“ Svo segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af réttindum barna og þeim skyldum sem ríki þarf að standa við gagnvart börnum og fjölskyldum þeirra. Sáttmálinn er samkomulag til samfélagsþegna um menntun, viðhorf, samskipti og uppeldi barna. Samskipti eru helsti áhrifavaldur sjálfsmyndar og því mikilvægt að fá rétt verkfæri til þess að eiga í góðum samskiptum og byggja jákvæða sjálfsmynd.

Félagsfærni er færni í því að sýna góðvild, þekkja tilfinningar sínar og sjá hlutina frá sjónarhorni annarra. Þau börn sem eru með sterka félagsfærni eru líklegri til þess að blómstra í mannlegum samskiptum. Frá unga aldri er barn að efla eigin félagsfærni, sem mótast að mörgu leyti út frá þeirri sjálfsmynd sem barn byggir á eigin mati á ágæti sínu og hversu hæft það telur sig vera meðal jafningja. Sjálfsmatið byggist á því sem barn heyrir um sjálft sig, hvað aðrir hafa um það að segja og hvernig aðrir sjá það. Þannig mótar það skynjun og upplifun sína. Það skiptir máli að öll börn fái tækifæri til að mynda félagsleg tengsl og skapa fallega vináttu við aðra. Ástæðan er sú að vinátta er okkur öllum mikilvæg, hún stuðlar að aukinni hamingju og vellíðan og hefur jákvæð áhrif á frammistöðu í námi og íþróttum. Ef börn upplifa að þau eigi pláss meðal jafningi í tómstundum eru þau líklegri til þess að stunda hreyfingu og mæta í skipulagðar tómstundir sem hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra í ljósi þess að þegar við hreyfum okkur styrkjum við líffærakerfið okkar, þolið eykst og þreyta minnkar.

Hreyfingin hefur einnig jákvæð áhrif á andlega líðan og svefngæði aukast samhliða hreyfingu. Rannsóknir hafa staðfest að með líkamlegri hreyfingu eykst andlega og líkamleg vellíðan, sjálfstraust eykst og hefur verndandi áhrif gegn þunglyndi og kvíða.

Að eiga góða vini í tómstundum, finna að þú tilheyrir hópnum og sért velkominn er lykilatriði í andlegri og líkamlegri vellíðan barns.

Með samfélagsverkefninu ALLIR MEÐ gefst þátttakendum í samfélagi Reykjanesbæjar tækifæri til að styðja hvert annað í jákvæðum samskiptum og tengslum við vini, fjölskyldu og samstarfsfólki.

Þannig má auka andlega og líkamlega vellíðan barna og ungmenna í sveitarfélaginu.

Framtíð barnsins tengist framtíð samfélagsins!

Guðrún Magnúsdóttir,
lýðheilsufræðingur Reykjanesbæjar.