Optical Studio
Optical Studio

Mannlíf

Það er fallegur hugur með hverri kistu
Stefán við eina kistuna sem hann smíðaði.
Mánudagur 22. apríl 2019 kl. 06:00

Það er fallegur hugur með hverri kistu

-segir Stefán Bjarnason líkkistusmiður

„Ég hef verið að smíða mestan part ævinnar. Svo fór ég að vinna hjá bænum og leiddist þar svo ég ákvað að fara aftur að smíða. Ég opnaði smíðaverkstæði sem ég kalla SB trésmíði og hef verið að smíða líkkistur undanfarin tuttugu og fimm ár. Hér á svæðinu höfðu ekki verið smíðaðar kistur í einhver ár eða ekki síðan þeir Skúli H. Skúlason smíðaði kistur og Guðni Magnússon málaði þær en þeir eru báðir látnir. Ég ákvað að fara af stað með líkkistusmíði því það vantaði þá þjónustu. Í fyrstu fannst mér það ekkert mál að handleika timbrið eða á meðan þetta var bara smíðisgripur en svo þegar ég fór að klæða kistuna að innan fékk ég kökk í hálsinn. Þó maður sé hrjúfur á yfirborðinu þá er hjartað meyrt og alltaf einhver viðkvæmni gagnvart andláti. Þetta vandist allt smátt og smátt. Í upphafi sá ég einn um alla smíðina sjálfur og að mála kisturnar en í dag gerum við þetta saman, við félagarnir sem vinnum hér á verkstæðinu hjá mér.“


Stefán og Sveinn Björgvinsson félagi hans.

Líkkistur í öllum litum
„Kisturnar geta verið málaðar í öllum litum. Ég smíða einnig eikarkistur sem eru mun vandaðri og um leið dýrari. Það er hugur með hverri kistu, hvernig sem hún er og maður hugsar til fólksins sem fer ofan í kistuna. Mér finnst mjög áríðandi að kistan sé falleg að innan sem utan og á sínum tíma hætti ég ekki að leita fyrr en ég fann efni sem mér líkaði til að klæða þær með að innan. Í dag flyt ég ennþá inn þetta satínhvíta efni frá útlöndum sem er mjög hlýlegt. Við leggjum allan metnað okkar í að gera þetta fallegt og vel frá gengið. Að fylgja ástvini síðasta spölinn er viðkvæm stund. Það skiptir miklu máli að þessi síðasta ferð sé gerð af virðingu fyrir hinum látna og aðstandendum hans. Ég fæ fólk hingað til mín sem er að velja kistu handa ástvinum sínum og það tárast þegar ég opna og sýni þeim ofan í kistuna,“ segir Stebbi Bjarna sem segist vanda sig við hverja smíð.

Verksmiðjuframleiddar kistur fást einnig hér á landi, innfluttar frá útlöndum en þar hefur smíðin líklega ekki þessa persónulegu tengingu eins og maður ímyndar sér að sé með kistu frá Stefáni. 

marta@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs