Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Það er dásamlegt að vera ferðamaður í eigin landi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 2. ágúst 2020 kl. 10:47

Það er dásamlegt að vera ferðamaður í eigin landi

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir og fjölskylda fóru hringinn á húsbíl.

„Sumarið hefur verið mjög gott hjá okkur fjölskyldunni. Við keyptum húsbíl í vor og tókum viku í að skoða Vestfirðina og svo í beinu framhaldi fórum við hringinn. Það eru nokkur ár síðan við höfum ferðast að ráði um landið okkar en það var algjörlega magnað,“ segir Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Deloitte í Reykjanesbæ.

– Hvaða staðir á Íslandi hafa heillað þig?

Vestfirðirnir eru stórkostlegir með sín háu fjöll og firði en við fórum síðast í ferðalag á Vestfirðina fyrir átján árum síðan. Við vorum heppinn með veður í sumar en fyrir átján árum flúðum við frá Tálknafirði og heim eftir að hafa verið í rigningu í nokkra daga sem endaði með hellidembu og við gáfumst upp og keyrðum heim. Það er dásamlegt að vera ferðamaður í eigin landi og njóta þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Það sem stendur mest upp úr er samferðafólkið, Dynjandi, kajaksigling í Tálknafirði, fiskihlaðborð í Tjöruhúsinu Ísafirði, Mývatn, Dettifoss, heimsókn á æskuslóðir föður míns í Böðvarsdal og VÖK á Egilsstöðum.

– Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?

Stórfjölskyldan fer saman í bústað foreldra minna í Grímsnesi og við sem eigum ferðavagna nýtum þá svo fleiri komist að.

– Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín? 

Eftirirminnilegasta verslunarmannahelgin er án efa Þjóðhátíð 1986 en við vinkonurnar fórum nokkrar saman og höfðum fengið leyfi foreldra okkar til þess að fara með því skilyrði að við gistum í garði hjá frændfólki. Maður þurfti nú að skvísa sig upp fyrir þá ferð og þegar fatapöntun úr Freemans-listanum kom í pósthúsið sama dag og við fórum til Eyja þá náttúrlega skellti maður þeim efst í töskuna þrátt fyrir mótmæli mömmu. Ég lenti svo í því að töskunni minni var stolið á bryggjunni í Vestmannaeyjum. Ég fór á lögreglustöðina og kærði þjófnað og byrjaði að telja upp hvað var í töskunni en það er ekki hægt að segja annað en að lögreglan hafi verið hissa yfir magninu af fötum. Síðan spurði lögreglumaðurinn: „Var ekkert meira í töskunni?“ Ég svaraði: „Ekkert sem ég vil segja þér frá.“ Í rigningu á sunnudeginum var ég klædd í ruslapoka. 

Heimferðin var líka nokkuð skondin en þegar Herjólfur lagði að í Þorlákshöfn þá fór fullt af fólki í sjoppuna áður en farið var í rútuna heim á leið. Þegar ég og Una vinkona komum út úr sjoppunni var rútan farin og vinkonur okkar líka. Það voru einnig tveir strákar úr Njarðvík sem misstu af rútunni þannig að við ákváðum að halda hópinn og fara saman á puttanum heim. Þegar við komum til Keflavíkur voru vinkonur okkar nýbúnar að átta sig á því að við vorum ekki með í rútunni en þær sátu aftarlega í rútunni og héldu að við tvær værum fremst.

Ég endaði svo þessa verslunarmannahelgi á því að fara í útsölu í tískuverslunina Poseidon í Keflavík um leið og búðin opnaði á þriðjudeginum.

– Hvað finnst þér mikilvægt að hafa um verslunarmannahelgina? 

Mér finnst mikilvægt að hafa góðan félagsskap og hef í gegnum tíðina oftast farið eitthvað út úr bænum með fjölskyldunni eða góðum vinum.Dettifoss myndaður í glæsilegum regnboga.Dimmuborgir eru magnaðar.Finnur reynir sig á kajak.

Anna og Ívar, maður hennar, í fríinu.Með fjölskyldunni á góðri stundu.