Mannlíf

Sýningin verður ekkert án þeirra sem að henni koma
Laugardagur 9. október 2021 kl. 07:54

Sýningin verður ekkert án þeirra sem að henni koma

Eins og fram hefur komið þá frumsýnir Leikfélag Keflavíkur söngleikinn „Fyrsti kossinn“ þann 22. október næstkomandi. Blaðamaður náði tali af höfundunum, þeim Brynju og Ómari, og spurði þau út í hugmyndina á bak við söngleikinn.

Hvenær kviknaði hugmyndin af þessu verki og hvernig?

„Hugmyndin um að setja á svið söngleik sem á einhvern hátt tengist tónlistarsögu Suðurnesja hefur lengið verið til staðar hjá félögum Leikfélags Keflavíkur. Bæði höfðum við mikið pælt í þessu en ekkert varð úr okkar hugmyndum fyrr en við fórum að rugla saman reitum á sínum tíma. Þá fórum við að ræða þetta okkar á milli og tókum þá ákvörðun að sjá um þetta sjálf. Við veltum því mikið fyrir okkur hvaða tónlist við ættum að notast við, það var eiginlega stærsti hausverkurinn. Við erum svo heppin að eiga frábæra tónlistarmenn hér á Suðurnesjum en það gerði það að verkum að við þurftum að þrengja rammann verulega.“

Af hverju þessi tónlist?

Þau eru bæði mikið viðriðin tónlist. Ómar er sjálfur trúbador og hefur verið í nokkur ár, Brynja Ýr er með þetta í blóðinu en hún er einmitt barnabarn Rúnars Júlíussonar og hefur því alltaf verið mikið í kringum tónlist.
„Við vildum tileinka sýninguna Rúnari og því fannst okkur tilvalið að notast við lög Hljóma. Fljótlega áttuðum við okkur á því að umfjöllunarefnið var ansi takmarkað og því endaði þetta þannig að við notuðumst við lög sem tengjast Rúnari á einhvern hátt og voru flutt af hljómsveitum sem hann var meðlimur í eða frá hans sólóferil. Allir laga- og textahöfundar tóku vel í þessa hugmynd og voru ekki lengi að veita okkur leyfi fyrir því að nota lögin í sýningunni.“

Hvernig gekk samvinnan hjá ykkur parinu? Voruði sammála eða komu upp vandamál á meðan þið unnuð að handritinu?

„Samstarfið gekk furðulega vel. Að sjálfsögðu komu upp minniháttar árekstrar hér og þar en við leystum þá eins fljótt og vel og við gátum. Þegar skrifin voru búin vorum við bæði nokkuð sátt en áttum það þó bæði til að vilja renna yfir og breyta hinu og þessu. Þetta á þó sérstaklega við um annað okkar – en við þurfum ekkert að fara nánar út í það!“

Fyrir hvaða aldurshóp er söngleikurinn?

„Söngleikurinn hentar breiðum hópi. Flestir þekkja þessi lög og þá sérstaklega eldri kynslóðir en framvinda sögunnar höfðar til allra aldurshópa en hún fjallar um ungt fólk við ýmsar kringumstæður. Þetta er þó ekki barnasýning þó hún sé alls ekki bönnuð börnum.“

Það er ljóst að margir koma að svona uppsetningu. Hvernig hefur hópurinn verið standa sig?

„Æfingaferlið hefur gengið vonum framar. Allir sem taka þátt í sýningunni að einhverju leyti eru virkilega spenntir og ánægðir með þetta þannig að orkan á sviðinu er virkilega góð og við erum líka með frábært fólk á bak við tjöldin. Karl Ágúst, leikstjóri, hafði áður leikstýrt hjá okkur og við bara urðum að fá hann í þetta verk með okkur og hann stendur sig glimrandi vel. Við erum með frábæran danshöfund, hana Brynhildi, sem setur brjálæðislega mikið líf í tónlistaratriðin. Tónlistarstjórar og hljómsveitarmeðlimir eru líka að standa sig virkilega vel. Við gætum ekki eiginlega ekki verið ánægðari eða heppnari með liðið okkar.“

Er bara tóm gleði og hamingja að setja svona verk á svið?

„Auðvitað er þetta ekki alltaf dans á rósum. Það fer mikil vinna í að setja á svið svona stóra sýningu og margir hafa ekki hitt fjölskyldumeðlimi og vini svo dögum skiptir en þá er líka gott hvað hópurinn er góður og þéttur. Við höfundarnir höfum legið yfir þessu verki í þrjú ár þannig að það er auðvitað stress í manni en þetta er gott stress. Þetta er gífurlega mikil vinna en hún er skemmtileg, við vildum að við gætum alltaf verið niðri í leikhúsi. Þar er best að vera,“ segir Brynja Ýr en hún er nánast alin upp í Frumleikhúsinu þar sem foreldrar hennar hafa verið viðloðandi leikhússtarfið í tugi ára.

Bæði hafið þið verið öflug innan starfs LK en hvernig er að leika, syngja og undirbúa sýningu sem þið hafið sjálf samið?

Brynja segist sjálf hafa verið viðriðin félagið frá blautu barnsbeini en Ómar kom inn í það árið 2016. „Við  höfum tekið þátt í mörgum mismunandi sýningum en það er eitthvað virkilega sérstakt við það að leika í sínu eigin verki ef svo má segja. Tilfinningin er góð og það er frábært að sjá alla þessa hæfileikaríku leikara taka þessa karaktera sem við skrifuðum og gefa þeim líf. Þar fyrir utan er þetta ekkert svo ósvipað öllum öðrum verkum. Við reynum bæði að horfa mjög hlutlaust á þetta, stundum finnst okkur bara eins og einhver allt annar hafi skrifað þetta þegar við stöndum á sviðinu. Við erum samt bæði virkilega stolt og vonum að allir aðrir verði það líka. Við trúum því innilega að við séum með frábæra sýningu í höndunum en hún verður ekkert án þeirra sem að henni koma.“

Frumsýning 22. október, verður allt klárt?

„Þegar þetta er skrifað eru nítján dagar í frumsýningu og við að koma heim af okkar fyrsta „full on“-rennsli sem gekk glimrandi vel. Sviðsmynd er komin mjög vel á leið, tæknimálin eru í góðum höndum og tökur á tónlistarmyndbandi að hefjast. Þetta er allt að smella saman og við getum ekki beðið eftir að leyfa fólki að sjá þessa sýningu sem vonandi lokkar sem flesta í leikhús. Þá getum við haldið áfram að sýna eins lengi og við getum.“