Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Sylvía brestur í söng  á 50.000 króna fresti
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 17. júlí 2020 kl. 10:37

Sylvía brestur í söng á 50.000 króna fresti

Team Róbert safnar áheitum fyrir skóla einhverfra barna

Sum verkefni geta farið úr böndunum á jákvæðan hátt. Því hefur Sylvía Guðmundsdóttir fengið að kynnast á síðustu dögum. Hún fer fyrir Team Róbert #2121 sem tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoni þann 22. ágúst næstkomandi. Team Róbert #2121 hleypur fyrir Styrktarsjóð Arnarskóla. Hópurinn er að safna fyrir leiktækjum á skólalóð Arnarskóla. Arnarskóli er sjálfstætt starfandi skóli, stofnaður 2017, fyrir börn með einhverfu og önnur þroskafrávik. Markmið styrktarsjóðs Arnarskóla er að afla fjár og veita styrkjum til Arnarskóla til að efla starfsemi skólans svo koma megi betur til móts við þarfir nemenda hans.

Sylvía var nokkuð kokhraust þegar hún setti söfnun áheita af stað og lofaði að koma fram á netinu og syngja lag fyrir hverjar 50.000 krónur sem söfnuðust. „Þetta sprakk svolítið í andlitið á mér. Ég átti ekki von á þessum viðbrögðum,“ segir Sylvía í viðtali við Víkurfréttir á mánudaginn. Þá hafði hún safnað rúmum 400.000 krónum í áheit.

„Þetta var ekkert útpælt. Ég byrjaði á því að lofa einu myndbandi ef við kæmumst yfir 100.000 krónur og ég hélt að allt í allt yrðu þetta kannski þrjú myndbönd fyrir hlaup. Þetta sprakk en er alveg dásamlegt að fá þessi viðbrögð og maður er alveg ofboðslega þakklátur enda þetta búið að ganga vonum framar,“ segir Sylvía.

Hún segir þau í Arnarskóla vera í skýjunum með viðbrögðin og þetta framtak.

„Núna er ég að hugsa næstu skref og hvernig ég get haldið þessu áfram og áhugaverðu. Það er kannski ekki spennandi að ég sé bara ein inni í herbergi að góla eitthvað í myndavélina, þannig að ég er að reyna að finna nýja vinkla.“

– Þú ert nú búin að draga fram í sviðsljósið eitthvað af þínu fólki. Valdimar bróðir þinn hefur sungið með þér og einnig foreldrar þínir.

„Jú, hann er víst eitthvað aðeins þekktur hann litli bróðir minn,“ segir Sylvía um Valdimar Guðmundsson. „Við erum að skoða næstu skref því það er nóg að gera í daglegu lífi líka. Ég er með fjögur börn á heimilinu, þannig að það er ekki eins og maður sé bara í söngbransanum þessa dagana,“ segir Sylvía og hlær.

Um nýliðna helgi var Sylvía að halda stórt barnaafmæli heima hjá sér en stalst afsíðis til að taka upp lag og setja á fésbókina, þar sem hún skuldaði orðið lag fyrir enn eitt 50.000 króna markið. „Ég henti bara marengs í ofninn og fór svo inn í herbergi og söng eitt lag. Þetta er bara svo yndislega gaman og að fá þessi viðbrögð og þennan stuðning. Ég er að eðlisfari ekki mjög framfærin og finnst þetta pínu skrítið og erfitt en að geta safnað þessum pening, þá er þetta algjörlega þess virði. Þessi skóli er svo yndislegur og hefur reynst okkur svo ofboðslega vel. Það þekkja ekki margir hvernig það er að eiga barn með miklar sérþarfir. Þetta er endalaus barátta, alltaf.“

Sylvía og Valdi bróður hennar ætla saman í Reykjavíkurmaraþonið með Róbert Má, son Sylvíu. Svo er alltaf að bætast í hópinn. Þau ætla þrjá kílómetra en tvær frænkur Sylvíu ætla að fara tíu kílómetra fyrir Team Róbert. „Mamma ætlar að vera með líka og það er alltaf að bætast í hópinn og nægur tími, því hlaupið er ekki fyrr en 22. ágúst,“ segir Sylvía.

Eins og verkefnið hefur farið af stað þá gerir Sylvía ráð fyrir að hún eigi eftir að synja alveg heilan helling í viðbót. „Það er nýtt lag á 50.000 króna fresti og ég þarf að standa við það,“ segir hún og hlær. Þegar viðtalið var tekið á mánudag sagðist Sylvía vera komin með eitt lag í skuld. Aðspurð hvort hún ætli að fá Valda aftur með sér í söng, þá sagðist hún vonast til þess að það myndi verða. „Ég var alveg hitta á hvað hann tók vel í þetta. Þetta er bara svo gott málefni að það er ekkert annað hægt,“ segir hún og á von á því að geta fyllt heila plötu af lögum áður en átakið er á enda. „Ég get örugglega gefið út Maraþonlögin í lokin,“ segir hún og hlær ennþá meira.

– Er þetta í fyrsta skipti sem þú syngur opinberlega?

„Já, opinberlega, ef það er ekki talið með að hafa sungið drukkin á karaokebar á Spáni,“ segir Sylvía og hlær meira og ítrekar að hún sé ekki framfærin manneskja og hafi leyft Valda bróður sínum að eiga sviðið þegar að söngnum kemur og frægðinni. „Ég átti von á þremur söngmyndböndum í heildina, en þau urðu þrjú á einum sólarhring.“

Um Arnarskóla

Arnarskóli var stofnaður 2017. Fyrsta skólaárið voru fjórirnemendur, núna eru 20 nemendur og verða 29 í haust. Skólinn er starfræktur allan ársins hring og ekki lokaður nema á rauðum dögum og um helgar. Skóli, frístund og sumarfrístund fer öll fram á sama stað með sama starfsfólkinu. Eins er unnið að því að önnur íhlutun (s.s. talþjálfun, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun) fari einnig fram innan veggja Arnarskóla þannig að ekki þurfi að rjúfa skóladag nemenda.

Um Róbert

Róbert Már Bjarkason, sex ára, sem er einhverfur og með alvarlega þroskahömlun hefur tekið miklum framförum eftir að hann hóf nám í Arnarskóla síðastliðið haust. „Stuðningurinn sem við höfum fengið frá skólanum og starfsfólki hans er ómetanlegur og viljum við því gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sýna þakklæti í verki,“ segir Sylvía móðir hans.